Sparisjóðir
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Þetta mál er tvíþætt. Annars vegar felur það í sér nauðsynlegar breytingar vegna þess að sýslunefndir eru lagðar niður lögum samkvæmt og eru þau ákvæði frv. sem lúta að nauðsynlegum breytingum þess vegna í samræmi við álit stjórnar Sambands ísl. sparisjóða. Ég er að sjálfsögðu meðmæltur þeim tillögum. Á hinn bóginn er ég andvígur brtt. nr. 3 á þskj. 648 af sömu ástæðum og ég var andvígur hliðstæðri grein í frv. um viðskiptabanka. Ég vil hins vegar vekja athygli þingdeildarinnar á 5. gr. þessa frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stjórnarmenn sparisjóðs og varamenn þeirra skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru forsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í.``
    Síðan segir: ,,Sama gildir um þátttöku stjórnarmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega.`` Ég endurtek, herra forseti: ,,sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega.``
    Ég geri mér ekki grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta ákvæði kann að hafa, ef að lögum verður, um minnstu sparisjóði. Ég hef sagt það til gamans að ef að lögum verður verði þeir að taka þann hátt upp t.d. í mínu kjördæmi í Hrísey og Grenivík að sparisjóður Hríseyinga láni til Grenivíkur og sparisjóður Höfðhverfinga til Hríseyinga þar sem allir menn í Grýtubakkahreppi séu persónulega tengdir og hið sama eigi við um flesta Hríseyinga, þeir séu persónulega tengdir. Það liggur alveg ljóst fyrir að því fylgir meiri áhætta nú en áður að eiga sæti í bankaráðum eða stjórnum sparisjóða eftir að bankaráðsmenn Útvegsbanka Íslands voru ákærðir vegna Hafskipsmálsins, og skal ég ekki fara nánar út í það, en hlýt að vekja athygli á því að þessi grein, ef samþykkt verður fyrirvaralaust eins og hér er gert ráð fyrir, getur valdið því að stjórnarmenn í einstökum sparisjóðum treysti sér ekki til þess að gegna þeim störfum áfram og segi af sér til þess að baka sér ekki refsiábyrgð. Ég teldi því mjög nauðsynlegt að það verði íhugað milli deilda, ef meiri hlutinn stendur við það að þessi grein eigi að standa hér, hvort ekki sé þá nauðsynlegt að ætla sér nokkurn umþóttunartíma varðandi sparisjóðina þannig að menn geti gert sér grein fyrir því hvernig þessi ákvæði verði túlkuð og hvað raunverulega felst í þeim.
    Bankaeftirlitið kom á fund fjh.- og viðskn. og þar spurði ég Þórð Ólafsson hvernig hann skýrði þetta ákvæði og vakti athygli einmitt á þessu atriði, nábýlinu í hinum þröngu dölum eða litlu byggðarlögum, og spurði síðan um það hvort hægt væri að fá hann aftur á fund nefndarinnar áður en málið var afgreitt úr henni, en þá kom í ljós að hann hafði tekið sér leyfi frá störfum yfir hátíðarnar og var ekki væntanlegur fyrr en um mánaðamót.
    Ég vek athygli á því að það er ekki þaulrætt í nefndinni hvað þetta kann að þýða, hverjar

afleiðingarnar kunna að verða. Það er almennt séð afskaplega gott og farsælt að segja að hið sama gildi um þátttöku stjórnarmanna í meðförum máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þetta getum við sagt í Lundúnum, Reykjavík og Kópavogi. En spurningin er hins vegar ekki sú heldur hin: getum við sagt þetta uppi í Reykjadal? Gátum við t.d. sagt þetta í Arnarneshreppi á meðan sparisjóður þeirra á Arnarnesinu var við lýði? Er hægt að hugsa sér að þessi regla geti gengið um hina minnstu sparisjóði? Hver þingdeildarmaður hlýtur að spyrja sjálfan sig að því.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi grein sé ekki nægilega grunduð, þeir sem skrifuðu hana niður hafi ekki hugsað um afleiðingar hennar, og held þess vegna að annað tveggja sé óhjákvæmilegt, að draga hana til baka eða gefa þá stjórnum sparisjóðanna ákveðinn umþóttunartíma þannig að þeir einstaklingar sem þar sitji geti gert það upp við sig hvernig þeirra staða sé. Ég vil í þessu sambandi aðeins geta þess að einn stjórnarmaður í sparisjóði úti á landi hefur almennt vakið máls á því við mig og við lögfræðinga hver staða hans sé eftir að Hafskipsmálið kom upp og hafi það mjög í athugun að segja af sér í stjórn sparisjóðsins. Ég hlýt að vekja athygli hans á þessum nýju ákvæðum ef að lögum verða og er ekki í nokkrum vafa um að hann muni láta af því verða að segja sig úr stjórn sparisjóðsins þar sem hann treysti sér ekki til að vinna við þessi skilyrði, gerkunnugur og persónulega kunnur hér um bil hverjum einasta viðskiptamanni sparisjóðsins ef ,,persónulega tengdur`` þýðir að maður þekkir vel til viðkomandi, er nákunnugur honum og fjölskyldu hans og þar fram eftir götunum eins og við þekkjum á þeim litlu byggðarlögum þar sem sparisjóðirnir hafa staðið.
    Það væri nú út af fyrir sig fróðlegt að heyra hvað hæstv. viðskrh. hefur um þetta að segja. Þetta mál kom upp í fjh.- og viðskn., en meiri hluti nefndarinnar segist að athuguðu máli ekki óttast árekstur af þessum sökum. Frsm. nefndarinnar hefur kannski einhverju við þetta að bæta.