Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. það sem hér um ræðir og fyrir liggur nál. á þskj. 649 þar sem meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem flutt er á þskj. 650.
    Frv. sem hér er um að ræða fjallar um stöðuveitingar við Háskóla Íslands. Meginefnisatriði frv. eru að áhrif háskóladeildar eru aukin að því er stöðuveitingar varðar og vald ráðherra þrengt frá því sem nú er og verður fyrst og fremst synjunarvald.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með breytingu. Brtt. meiri hl. miðar að því að kveða skýrar á um ákveðin atriði en gert var í frv. upphaflega til að taka af tvímæli og eyða efa.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í brtt. meiri hl. að ráðherra sé ekki heimilt að veita manni prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á deildarfundi greiði honum atkvæði. Brtt. meiri hl. varðar ákvæðið um deildarfund því að í frv. var talað um meðmæli meiri hluta deildarfundar, en í brtt. kveðið skýrt á um að fyrir hendi þurfi að vera meðmæli meiri hluta þeirra sem viðstaddir eru á deildarfundi.
    Í öðru lagi er kveðið á um að ef háskóladeild þurfi að kjósa á milli fleiri en tveggja hæfra umsækjenda og enginn hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skuli kosið á ný á milli þeirra tveggja er flest atkvæði kjósa.
    Í þriðja lagi er kveðið skýrar á um synjunarvald ráðherra. Gert er ráð fyrir að ef menntmrh. ekki fellst á tillögu deildarfundar skuli auglýsa embættið eða starfið að nýju.
    Þessar tillögur eru einkum, eins og ég sagði, herra forseti, til þess að taka af tvímæli. Þarna er kveðið á um hluti sem voru ekki nægilega skýrir í frv. eins og það lá fyrir. Þessar tillögur mótuðust hjá meiri hl. nefndarinnar eftir að hafa m.a. fengið á fund nefndarinnar Sigmund Guðbjarnason, rektor Háskóla Íslands, og Sveinbjörn Rafnsson, forseta heimspekideildar Háskólans.
    Meiri hluti menntmn. þessarar hv. deildar leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem er að finna á þskj. 650.