Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki flytja langt mál þar sem ég hef ekki tekið þátt í afgreiðslu þessa máls, á ekki sæti í hv. menntmn. í Ed. En mér er málið skylt þar sem ég hef töluverða reynslu af þeim málum sem hér er verið að fjalla um, þ.e. með hvaða hætti Háskóli Íslands hefur fram til þessa ráðstafað embættum og á hvern hátt hefur verið fjallað um það á deildarfundum og í ýmsum ráðum skólans.
    Það er svo að það er ekki eingöngu við ráðherrana að sakast í þessum efnum. Það hafa oft heyrst gagnrýnisraddir í þá veru að ráðherra hafi misbeitt valdi sínu og hann hafi skipað menn í óþökk háskólayfirvalda ef svo má að orði komast. En ég vil sem fulltrúi Háskólans hér lýsa því yfir að stundum hefur það komið fyrir að Háskólinn er í sökinni, að Háskólinn hefur því miður ekki látið fagleg sjónarmið ráða ferðinni og sjónarmið kunningsskapar og annarra tengsla hafa stundum að því er virðist orðið ofan á. Þess vegna þarf að fara ákaflega varlega í það með hvaða hætti þessum lögum verður breytt og hvernig menn ætla að ráða þessum málum í framtíðinni.
    Þegar verið er að ráðstafa stöðum eins og prófessorsembættum og dósentsembættum við Háskóla Íslands, hefur reynslan hingað til verið sú að dómnefndir hafa yfirleitt starfað á mjög faglegan og raunhæfan hátt og hefur lítið gagnrýnisvert verið um starfsemi þeirra að segja. Það er ekki réttmætt að klaga störf dómnefndanna. Ég held að þær hafi yfirleitt í flestum tilvikum skilað góðri vinnu. Hins vegar hefur oft komið upp í meðferð deildanna að afgreiðsla mála hefur kannski farið á annan veg en menn skyldu ætla af því áliti er dómnefnd skilaði. Ég þekki dæmi þess að dómnefnd skilar áliti um kannski þrjá umsækjendur og telur þá alla hæfa. Þó kemur fram í dómnefndarálitinu að þeir eru mishæfir, hafa kannski mismunandi feril að baki og það er alveg skýlaust að einn er öðrum fremri eins og oft er þó allir geti talist hæfir. Síðan er þetta dómnefndarálit yfirleitt lagt fyrir undirdeild, þ.e. fagsvið þar sem viðkomandi kennara er ætlað að starfa eða viðkomandi embætti tilheyrir ákveðnu fagsviði innan skólans, og þá byrjar meðhöndlun málsins á vettvangi þeirra kennara sem eru á því fagsviði. Þeir semja álitsgerð og greiða oft og tíðum atkvæði um umsækjendur. Síðan er sú niðurstaða kynnt á deildarfundi þar sem hin endanlega afgreiðsla málsins fer fram hvað Háskólann varðar.
    Það hefur oft komið fyrir að á deildarfundi hefur afgreiðslu fagsviðsins verið snúið við. Kennarar á viðkomandi fagsviði hafa mælt með einum umsækjanda en deildin hefur séð ástæðu til að breyta þeirri niðurstöðu á þeim forsendum að meiri hluti þeirra sem eiga sæti á deildarfundi hafi ekki verið sammála ráðstöfun kennara fagsviðsins þó að málið kannski standi þeim næst. Síðan hefur það gerst að ráðherra hefur engu að síður hundsað vilja meiri hluta deildarmanna og kannski farið til baka yfir á þá niðurstöðu sem kennarar fagsviðsins urðu sammála um. Þannig eru ótal mismunandi afgreiðslur til og

ákaflega erfitt að segja til um hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessum efnum.
    Ég held að sú brtt. sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur lagt til, þ.e. að ráðherra sé skylt að veita umsækjanda embættið eða starfið ef hann hlýtur *y2/3*y atkvæða þeirra sem viðstaddir eru deildarfund, sé svolítið á misskilningi byggð. Ég er ekki viss um að það þurfi endilega að vera um að ræða að sá umsækjendanna sem fær svo mikinn meiri hluta atkvæða á deildarfundi sé hæfasti umsækjandinn. Það eru oft ýmis önnur sjónarmið sem ráða ferðinni. Stundum er það svo að einn umsækjendanna er kannski kunnugur þeim sem sitja deildarfundina. Það er oft um það að ræða að það er einn úr þeirra hópi, maður sem deildarmenn þekkja mjög vel, hafa kannski unnið með honum til margra ára. Oft er um að ræða að umsækjandi kemur erlendis frá, er lítt kunnugur deildarmönnum og það gerir strax það að verkum að hann á miklu erfiðara uppdráttar í slíkri atkvæðagreiðslu en sá sem kemur úr hópnum sem á að greiða atkvæði. Þess vegna tel ég að þessi brtt. sé ákaflega óheppileg. Ef einhver meiri hluti á að vera nægir einfaldur meiri hluti að mínum dómi. Ég er þó ekki viss nema það eigi að vera opið fyrir menntmrh. að ganga jafnvel á skjön við vilja deildarfundar ef það er augljóst að gengið hefur verið fram hjá hæfari umsækjanda vegna slíkra sjónarmiða sem ég hef hér lýst. Þess vegna vil ég í þessari umræðu vara við að taka mjög fast á þessum málum þannig að þetta sé rígbundið í lögum og það beri að fara eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu á þann hátt sem hér er verið að leggja til. Ég vildi einungis vekja athygli á því að þessi mál eru kannski ekki eins einföld og þetta frv. gerir ráð fyrir.