Afgreiðsla frumvarps til lánsfjárlaga
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég held að úr því sem komið er sé nauðsynlegt að taka ítarlega umræðu um lánsfjárlögin á morgun. Ég held að við verðum að búa okkur undir það að það verði langur þingfundur á morgun. Það er ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu að við séum hér alla páskahátíðina ef með þarf. En þetta er svo sem eftir öðru. Við vorum búnir í stjórnarandstöðunni að reyna að greiða fyrir lánsfjárlögunum fyrir þremur vikum eða mánuði, áður en þingið var sent heim og áður en Norðurlandaþing var haldið. Þá voru það sérviskuleg vinnubrögð í Nd. sem ollu því að lánsfjárlögin drógust á langinn. Ég sé ekki héðan af að það skipti máli þó að þau dragist einn dag í viðbót og vil leggja að forseta að hann sýni stjórnarandstöðunni þá virðingu að draga okkur ekki á asnaeyrunum í þessu máli og láta okkur bíða á meðan húsnæðisumræða gengur í hinni deildinni. Það er auðvitað út af fyrir sig hægt að taka hér upp umræður utan dagskrár um húsnæðismál og væri virkilega ástæða til, eins illa og hæstv. húsnæðismálaráðherra hefur staðið sig og eins mörg og sviknu loforðin eru í húsnæðismálunum. Það er auðvitað ekkert gaman að tala við þetta fólk sem bíður eftir lánunum og er núna verið að gefa gyllivonir, fólki sem er að missa sínar íbúðir og á um sárt að binda. Og auðvitað er hægt að taka upp slíka umræðu hér í Ed. líka um slaka stöðu hæstv. félmrh. í þessum mikilvæga málaflokki og hvernig alltaf er verið brosa framan í fólkið sem verst hefur það. Rétt eins og brosað er framan í launþega núna af þeim launþegaforingjum sem fylgja þessari ríkisstjórn. ( KSG: Ekki verður þú til að hjálpa þeim.) Það má vel vera, ef ég hefði sömu stöðu og þessi hv. þm. Alþfl., að ég mundi vera órólegri ef það ætti að segja það að ég væri sá maður sem bæri ábyrgð á því að þessi ríkisstjórn heldur velli hér í deildinni. Það er a.m.k. áreiðanlega víst að ég yrði ekki oddaatkvæði til þess að halda fram þessari kjaraskerðingu sem er orðin tveggja stafa tala og byrjar ekki á einum heldur tveimur eða þrem síðan ríkisstjórnin tók til starfa. Kjaraskerðingin er a.m.k. 20% síðan þessi ríkisstjórn tók til starfa. Og hún heldur áfram. Verðbólgustigið núna er 30%. Hvað segir þessi verkalýðsleiðtogi frá Keflavík um það? Hvað segir þessi verkalýðsleiðtogi frá Keflavík um afleiðingar verka sinna eins og komið er fyrir almenningi í þessu landi eftir þær skattahækkanir sem hafa orðið, eftir þær miklu hækkanir sem hafa orðið á þjónustugjöldum? ( Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á að það eru umræður um þingsköp.) Ég held, herra forseti, að það sé ekkert verra að við reynum að tala hér um ástandið í landinu en að það sé verið að setja okkur út í horn ( Forseti: Ekki um þingsköp.) þegar ekki er hægt að standa við það samkomulag að reyna að hraða lánsfjárlagafrv. í Nd. Ég get fallist á það að hæstv. forseti geri hlé á fundinum í tvær mínútur til að koma vitinu fyrir forseta Nd.