Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 636 liggur fyrir álit meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til lánsfjárlaga.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur meiri hl. til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Til viðræðna við nefndina um frv. komu eftirtaldir: Halldór Árnason frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Þórður Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Jóhann Már Maríusson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Gunnlaugur Sigmundsson og Jón Atli Kristjánsson frá Þróunarfélagi Íslands, Guðmundur B. Ólafsson frá Framkvæmdasjóði, Hinrik Greipsson frá Fiskveiðasjóði og Bjarni Bragi Jónsson og Jakob Gunnarsson frá Seðlabanka Íslands.
    Undir þetta rita hinn 16. mars 1989 Páll Pétursson, Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson og Guðmundur G. Þórarinsson.
    Á þskj. 637 liggja fyrir fjórar brtt. við þetta frv. en því miður eru þær ekki í endanlegu formi á þessu þskj. og það er verið að prenta það upp og því verður dreift innan skamms til deildarmanna.
    Fyrsta brtt. lýtur að því að heimild sé opnuð fyrir Siglufjarðarkaupstað að skuldbreyta allt að 50 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Að sjálfsögðu yrði það að gerast að höfðu samráði við fjvn. og eftir að Siglufjarðarkaupstaður hefði lagt fram fullnægjandi endurgreiðsluáætlun á þessu láni.
    Varðandi 2. og 3. brtt. á þskj. 637 er enn fremur ætlast til að fjmrh. hafi samráð við fjvn. og verður dreift brtt. og orðalagsbreytingu þar að lútandi, en þessar greinar báðar eru heimildir handa fjmrh. til þess að ganga frá ógreiddum framlögum til jarðræktarframkvæmda og búfjárræktar frá árinu 1988 í samræmi við þann fyrirvara eða yfirlýsingu sem landbrh. gaf við fjárlagaumræðu fyrr í vetur.
    Fjórða brtt. er um það að fjmrh. sé fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að höfðu samráði við fjvn. Alþingis að semja við Þormóð ramma hf. um ráðstafanir til að bæta fjárhag fyrirtækisins.
    Þetta eru brtt. og vonast ég eftir að innan örfárra mínútna verði dreift hér breyttu þskj. með þeim texta sem gengið verður til atkvæða um.