Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Í fjarveru hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur mæli ég fyrir nál. á þskj. 633 um frv. til lánsfjárlaga. Það er frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn.
    ,,Annar minni hl. telur að þetta frv. byggi á vanáætlunum og röngum forsendum og getur því ekki staðið að afgreiðslu þess með þeim hætti sem meiri hl. leggur til. Rökin eru eftirfarandi:
    Kjarasamningar eru nú fram undan hjá þorra launafólks sem hefur mátt búa við langvarandi samningsbann, launafrystingu og hrapandi kaupmátt. Ríkisstjórnin á stærstan þátt í því hvernig kaupmáttur hefur þróast með skattahækkunum og verðhækkunum, þrátt fyrir lögboðna verðstöðvun. Um leið og þeirri verðstöðvun var aflétt dundu svo yfir frekari gjaldskrárhækkanir og verðhækkanir sem ríkisvaldið stóð að. Það sýnir því hvorki sanngirni né raunsæi að gera ráð fyrir því að launafólk sætti sig við samninga sem fela í sér svipaðan kaupmátt og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eins og ríkisvaldið stefnir að. En á því m.a. er byggð sú verðbólguspá sem er forsenda þessa frv., þ.e. að verðbólgan verði aðeins 13,5% frá upphafi til loka ársins. Með tilliti til þess að á síðasta ári stefndi ríkisvaldið að 10% verðbólgu innan ársins, en uppskar 19,4%, þrátt fyrir launastöðvun og verðstöðvun í orði, virðist raunsæi víðs fjarri öllum áætlunum.
    Þá virðist ríkisvaldið gjörsamlega ætla að loka augunum fyrir vaxandi atvinnuleysi sem auk annarra alvarlegra afleiðinga gæti leitt til þurrðar í Atvinnuleysistryggingasjóði. Í byrjun mars var greiðslustaða sjóðsins þannig að um 395 millj. kr. voru enn til ráðstöfunar til þess að mæta föstum útgjöldum og greiðslum atvinnuleysisbóta. Föst útgjöld eru um 35--36 millj. kr. á mánuði, þ.e. rekstrarkostnaður, eftirlaunagreiðslur og greiðslur vegna rekstrar kjararannsóknarnefndar. Atvinnuleysisbætur námu um 100 millj. kr. í janúar og svipaðri upphæð í febrúar, en búist er við heldur lægri upphæð í mars. Mikla bjartsýni þarf til að gera ráð fyrir snöggum umskiptum í þessum efnum. Það er því augljóst að verulega kreppir að sjóðnum eins og vænta mátti þegar ríkisstjórnin, með stuðningi nokkurra þingmanna utan stjórnar, ákvað að ráðstafa lögboðnu framlagi ríkissjóðs til annarra nota.
    Með tilliti til gífurlegs viðskiptahalla og erfiðrar stöðu útflutnings- og samkeppnisgreinanna er óhugsandi annað en að grípa verði enn einu sinni til efnahagsráðstafana til þess að rétta þá stöðu og það fyrr en síðar. Þess sér þó ekki stað í þessu frv. Þvert á móti er gert ráð fyrir óbreyttu gengi og miklu minni lántökum en reyndin varð á síðasta ári þegar erlendar lántökur urðu um 80% umfram áætlun. Ekkert bendir til þess að aðhald verði virkara á þessu ári, enda æpandi þörf fyrir stóraukið fjármagn til atvinnuveganna. Þá er heldur ólíklegt að gæslumönnum ríkissjóðs takist eitthvað betur en á síðasta ári þegar stór hluti aukinnar lántöku var einmitt vegna hallareksturs ríkissjóðs.
    Mjög erfitt er að gera sér grein fyrir réttmæti

áætlana um innlenda lánsfjáröflun. Sem stendur eru hagstæð skilyrði á innlendum fjármagnsmarkaði og minni spenna en verið hefur um langt skeið. Forsenda þess að svo verði áfram er sú að ekki verði gripið inn í þróunina með stórfelldum breytingum á helstu þáttum efnahagsmála og kynt undir eftirspurn eftir fjármagni, en eins og áður er sagt er þó næsta víst að það verður gert.
    Stærsti óvissuþátturinn er til kominn vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að breyta grundvelli lánskjaravísitölunnar í janúar sl. í algjörri andstöðu við t.d. aðstandendur lífeyrissjóðanna sem voru nýbúnir að gera samninga við ríkisstjórnina um kaup skuldabréfa þegar breytingin var tilkynnt. Þeir hafa nú ákveðið að höfða mál á hendur ríkisvaldinu vegna þessa og halda að sér höndum, og er það meginskýringin á slakanum á fjármagnsmarkaðnum. Þrátt fyrir allt þetta er gert ráð fyrir miklum kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum ríkissjóðs.
    Sala spariskírteina er einnig mikilli óvissu háð. Reynsla fyrstu vikna þessa árs gefur ekki tilefni til bjartsýni þar sem innlausn spariskírteina hefur numið u.þ.b. þrefaldri sölu þeirra og kennir þar vafalaust áhrifa frá hvoru tveggja minnkandi kaupmætti og þróun vaxtakjara. Þannig rekur sig hvað á annars horn.
    Annar minni hl. flytur brtt. við frv. þess efnis að fella brott II. kafla þess, en þar eru í 19 greinum ómerktar fyrri ákvarðanir löggjafarvaldsins um framlög til einstakra málaflokka svo að munar a.m.k. 2 milljörðum kr. Þessi háttur hefur verið látinn viðgangast árum saman og nokkur dæmi eru þess að aldrei hafi verið staðið við lögboðið framlag eins og t.d. til ferðamála. Þessi þróun er afleit og grefur undan trausti almennings til Alþingis og veikir ábyrgð þess á lagasetningu. Annar minni hl. er þeirrar skoðunar að endurskoða beri þau lög sem Alþingi treystir sér ekki til að standa við í stað þess að líða vinnubrögð af þessu tagi árum saman.``
    Virðulegi forseti. Það er vonum seinna að ræða frv. til lánsfjárlaga sem samkvæmt öllum góðum venjum hefði átt að afgreiða jafnhliða fjárlögum eða því
sem næst. Það var heldur ekki svo lítill þrýstingur við 1. umr. á að málinu yrði hraðað. Um nefndastörf get ég ekki dæmt þar sem ég á ekki sæti í fjh.- og viðskn., en mér skilst að þar hafi talsvert óðagot verið í meðferð frv., umsagnaraðilar mjög fáir og umfjöllun lítil.
    Fulltrúar stjórnarandstöðu voru reyndar á þingi bæði skilningsríkir og samvinnufúsir því þeim var vel ljóst hversu lá á að festa lánsfjárheimildir í lögum. Þó var þeim nóg boðið þegar afgreiða átti málið í hálfgerðu flaustri til þess að hægt væri að koma því frá fyrir vikuhléið vegna Norðurlandaráðsþings. Hins vegar var ekkert því til fyrirstöðu af þeirra hálfu þegar að því hléi loknu. Seinagangurinn eftir það er að fullu og öllu á ábyrgð stjórnarflokkanna og kann ég ekki að skýra þær tafir að öðru leyti en því að vitanlega var engin leið að ræða málið hér á þingfundi að hæstv. fjmrh., ábyrgðarmanni frv., fjarstöddum og

hlýt ég að lýsa undrun minni og hneykslun á þeirri forgangsröð mála hjá hæstv. ráðherra að taka friðarfund í útlöndum fram yfir áríðandi skyldustörf hér heima. Með því er ég ekki að gera lítið úr ötullegu starfi hæstv. ráðherra að friðarmálum né þeim fundum sem hann sótti á þessum tíma, en störf, sem tvímælalaust eru á hans könnu sem fjmrh., hljóta og eiga að ganga fyrir.
    Þær tafir sem orðið hafa síðan hæstv. ráðherra kom heim úr friðarför sinni kann ég ekki að skýra, en óneitanlega bendir margt til erfiðrar sambúðar á stjórnarheimilinu, hvaða einstök atriði sem þar svo eru sem tafið hafa endanlega afgreiðslu þessa máls.
    Eins og fulltrúi Kvennalistans sagði við 1. umr. um þetta frv. er hér engum nýjungum fyrir að fara heldur allt með hefðbundnu sniði og aðstæður í efnahags- og atvinnulífi landsmanna gefa síður en svo tilefni til að ætla að betur takist til en undanfarin ár með aðhald í lántökum. Miklar breytingar hafa orðið á frv. síðan það var fyrst lagt fram. Flestar eru óhjákvæmilegar þar sem fjármagni hefur þegar verið ráðstafað. Alvarlegast er hve stór hluti erlendrar lántöku fer í það eitt að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs. Þær meginreglur hljóta að gilda að erlend lán séu helst eingöngu tekin til arðbærra framkvæmda eða um sé að ræða endurgreiðslu eldri lána með nýjum lánum á hagstæðari kjörum.
    Það er enn fremur mikið áhyggjuefni að þrátt fyrir þá aukningu lántökuheimilda sem orðið hefur í meðförum nefnda er bersýnilegt að lántökur fara í reynd langt fram úr áætlun. Sem rök fyrir þeirri fullyrðingu nægir í rauninni að benda á þá ástæðu eina að jafnvel þau fyrirtæki sem fengið hafa mikla fyrirgreiðslu úr Atvinnutryggingarsjóði eiga við verulegan rekstrarvanda að stríða og þurfa bersýnilega á nýrri aðstoð að halda, mörg hver, áður en langt um líður. Ekki bætir stöðu þeirra nýleg fiskverðshækkun innan lands og ekkert sérstakt tilefni er til bjartsýni um hækkun verðs á erlendum mörkuðum en allar líkur benda til hækkunar olíuverðs.
    Flestar greinar fiskvinnslu búa nú við taprekstur á heildina litið og er deginum ljósara að kalla verður eftir meira fé í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins en ráðstöfunarfé hans þrýtur innan tveggja mánaða. Þá er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni til þess að efna loforð ríkisstjórnarinnar um lækkun raforkuverðs til fiskvinnslunnar. Og enn má benda á það að ekki er séð fyrir öllu í landbúnaðargeiranum. Enn er viðkvæmt ástand bæði í loðdýrarækt og fiskeldi, en þyngst vegur að ef ekki verður lagt meira fé en ætlað er til niðurgreiðslna á verði búvara munu þær hækka verulega á næstunni. Ástæða þess að ekki er tekið á þessum þætti er að öllum líkindum sú að ríkisstjórnin vill hafa lækkun matvöru sem skiptimynt í komandi samningum. Það er reyndar eftirtektarvert að lækkun matvöru og hugsanleg lækkun matarskatts er nú notuð sem skiptimynt þannig að helst mætti ætla að þessi hækkun bæði matvöru og álagning matarskattsins hafi verið samningsatriði við launþegahreyfingarnar í fyrra.
    Margt fleira mætti benda á til vitnis um

vanáætlanir í þessu frv. og í nál. 2. minni hl. er farið sérstökum orðum um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs sem er verulegt áhyggjuefni. Við kvennalistakonur lögðumst alveg frá upphafi gegn þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðstafa lögboðnu framlagi ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs til Atvinnutryggingarsjóðs og mótmæltum því æ ofan í æ með þeim rökum að þessi sjóður væri eign launafólksins sem ekki mætti hrófla við og auk þess sérstaklega varhugavert með tilliti til atvinnuástandsins. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar töldu þessa ráðstöfun hins vegar rétta einmitt með tilliti til atvinnuástandsins þar eð fjármagnið færi til þess að hindra atvinnuleysi. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Sjóðurinn er að tæmast og nú stefnir í það að í maílok verði ráðstöfunarfé hans uppurið og þá kemur til kasta ríkissjóðs að greiða atvinnuleysisbætur sem hann er ábyrgur fyrir, en þess sér hvergi stað í þessu frv.
    Þá vil ég fara nokkrum orðum um brtt. Kvennalistans á þskj. 634 þar sem við leggjum til að II. kafli frv., ,,þrátt fyrir kaflinn`` svokallaði verði felldur brott. Það er að sönnu mjög róttæk tillaga og fremur ólíklegt að margir treysti sér til þess að styðja hana að þessu sinni. Við gerum okkur fyllilega
grein fyrir því að samþykkt þessarar tillögu þýddi verulega aukningu útgjalda úr ríkissjóði og væntanlega dettur einhverjum í hug að bregða okkur um ábyrgðarleysi. En hvar var ábyrgð Alþingis þegar það samþykkti þau lög sem hér er í raun verið að ógilda?
    Árum saman hefur sá háttur viðgengist hér á Alþingi að samþykkt eru lög um hin margvíslegustu málefni sem mörg hver hafa í för með sér fjárútlát og reyndar er í sumum tilvikum sýnd sú lofsverða forsjálni að gera ráð fyrir hvernig þessa fjár skuli aflað svo að ekki verði nú gengið á rétt annarra. Svo var t.d. um ferðamálin sem við kvennalistakonur höfum margsinnis gert að umtalsefni, en sú saga er með eindæmum hrapalleg því að Alþingi hefur aldrei, ekki í eitt einasta skipti, staðið við lögboðið framlag til ferðamála sem er 10% af árlegri vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík. Og ekki nóg með það heldur sýndi hv. Alþingi þá lofsverðu forsjálni að leggja aukalega þessi 10% á vöruverð Fríhafnarinnar þegar lögin tóku gildi til þess að tryggja þennan tekjustofn án þess að ganga á fé til annarra hluta. Sú fyrirhyggja dugði skammt eða raunar alls ekki því að Ferðamálaráð hefur aldrei fengið þetta lögboðna framlag og í ár nemur þessi skerðing a.m.k. 81 millj. kr. samkvæmt áætlun.
    Ríkisstjórnin virðist þannig harðákveðin í að þrengja að þessari atvinnugrein sem hún frekast getur. Ferðamálaráð fær aðeins 28 millj. til starfsemi sinnar eða sömu krónutölu og á síðasta ári.
    Áður er minnst á skerðingu framlagsins til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem á að vera jafnhátt iðgjaldagreiðslum atvinnurekenda og nemur hátt í 300 millj. kr.
    Aðrir stórir liðir eru t.d. Félagsheimilasjóður sem er skertur um 37 millj. kr., Jöfnunarsjóður

sveitarfélaga sem er skertur um 385--725 millj. kr., eftir því hvaða forsendur eru gefnar, Hafnabótasjóður um 41 millj. kr., Kvikmyndasjóður um 39 millj. kr. og Listskreytingasjóður ríkisins um heilar 201 millj. kr. Hlýtur maður nú að spyrja hver sé eiginlega meiningin að láta slík lög standa ef vilji Alþingis er ekki meiri til þess að hafa þau í heiðri? Væri ekki heiðarlegra að breyta lögunum í átt við raunveruleikann í stað þess að gera þau að eins konar fyrirheitum ef einhvers staðar skyldi birta til í efnahagsþokunni?
    Fleira má hér tína til og raunar ástæða til að fara sérstökum orðum um alla þessa liði, en ekki verður hjá því komist að fjalla um þá ráðstöfun sem birtist í 27. gr. frv. þar sem kveðið er á um að þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skuli tekjur á árinu 1989 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð. Þarna er Ríkisútvarpið enn einu sinni svipt þeim tekjustofni sem á samkvæmt útvarpslögum að renna óskiptur í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Framkvæmdasjóðnum á að verja til húsnæðis, tækjakaupa og dreifikerfis. Þessi upphæð mun samkvæmt áætlun nema um 140--160 millj. kr. Þetta gerist ár eftir ár á sama tíma og Ríkisútvarpið er að flytja í nýtt húsnæði, endurnýjunarþörf á tækjakosti því mikil ásamt stórfelldum bótum á dreifikerfi. Fé til þessa hefur Ríkisútvarpið því orðið að taka af öðru rekstrarfé og jafnframt hefur Ríkisútvarpið þurft að mæta vaxandi samkeppni við einkastöðvar sem hafa ekki sambærilegar kvaðir á sér að uppfylla lögboðnar skyldur við landsmenn.
    Fáir hefðu trúað því að Alþfl. og Alþb. mundu standa að ráðstöfun sem þessari, en þingmenn þessara flokka lögðust mjög hart gegn henni þegar þeir voru í stjórnarandstöðu á sínum tíma. Að vísu hafði fækkað í kórnum á sl. ári þegar Alþfl. var kominn í ríkisstjórn og nú hefur kórinn þagnað. Nú finnst þeim réttmætt að svipta Ríkisútvarpið þessum tekjustofni og réttlæta það með því að öðruvísi verði séð fyrir hlutunum. Jafnvel þótt nú standi yfir endurskoðun útvarpslaga er ekki séð fyrir endann á því starfi, auk þess sem þau bæta ekki orðinn skaða.
    Þannig stendur nú framkvæmdarvaldið að framkvæmd laga sem Alþingi hefur sett. Virðist því löngu tímabært að breyta um vinnubrögð í samræmi við raunveruleikann þannig að hinar ýmsu stofnanir og sjóðir viti fyrir víst hvaða fjárhagsaðstæður þeim eru búnar. Og þó þeir sem II. kaflinn eða ,,þrátt fyrir kaflinn`` bitnar helst á séu ýmsu vanir væri endurskoðun þessara vinnubragða miklu heiðarlegri. Það er Alþingi síst til álitsauka að vera ómerkt gert með lánsfjárlögum ár hvert.
    Að lokum ítreka ég efasemdir um að þetta frv. standi fastari fótum en mörg fyrri. Tölur um stöðu efnahagsmála breytast jafnharðan og þær eru settar fram og engar áætlanir standast, efnahagsaðgerðir ekki heldur. Má þá spyrja hvort ónákvæmni og óraunsæi af því tagi sem frv. til lánsfjárlaga byggir nú á sé nokkrum til framdráttar. Það veikir löggjafarvaldið að

samþykkja lög sem framkvæmdarvaldið tekur ekki alvarlega sökum þess hve allar forsendur eru ótraustar og vanáætlaðar. Það gefur framkvæmdarvaldinu lausari tauminn um framkvæmd laganna eins og reynsla undanfarandi ára hefur sýnt með ótvíræðum hætti.