Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Eins og ég gat um í framsögu minni fyrir þessu nál. lágu ekki á borðum þingmanna brtt. í endanlegu formi sem meiri hl. fjh.- og viðskn. gerir og ég kveð mér hljóðs til að greina ofurlítið nánar frá þeim, en þær eru endurprentaðar upp á þskj. 637 og mun ég gera ofurlitla grein fyrir þeim enn og aftur.
    1. brtt. er við 5. gr. þar sem talin eru upp mörg fyrirtæki og sveitarfélög þar sem heimilað er að taka lán vegna skuldbreytinga og við teljum eðlilegt að fjmrh. sé heimilt að gera þetta, en bætum við ,,að höfðu samráði við fjvn. Alþingis`` eins og þar segir. Við leggjum til í b-lið 1. brtt. að 7. töluliður 5. gr. orðist svo sem þar segir:
    ,,Aðrar skuldbreytingar vegna greiðsluvandkvæða, lán á árinu 1989 að fjárhæð alls allt að 100 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.``
    Um þessa breytingu er það að segja að við föllum frá þeirri brtt. sem kynnt var fyrr í dag um að binda 50 millj. af þessu formlega við Siglufjörð. Breytingin frá fyrri hugmynd er sú að þetta er opnað fyrir öðrum sveitarfélögum í greiðsluvandræðum einnig. En það ber hins vegar ekki að skilja það svo að við höfum fallið frá því að ætla Siglufirði 50 millj. kr. af þessu og það gerum við að sjálfsögðu enn.
    Í 2. brtt. er fjmrh. heimilt að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988. Þetta er að sjálfsögðu gert í tengslum við þá endurskoðun sem stendur yfir varðandi jarðræktarlög þannig að sjálfvirk greiðsluskylda ríkissjóðs verði numin úr lögum, þ.e. að það er verið að endurskoða bæði jarðræktarlög og búfjárræktarlög í því skyni að koma bættu skipulagi á framlög ríkisins til þessara málaflokka og það er unnið að því og stefnt að því að afgreiða lög fyrir þinglok um bæði jarðrækt og búfjárrækt þannig að það sé í takt við tímann og breytta framleiðsluhætti. Sá vandræðahali sem skapaðist á jarðræktarlögunum eða fjárveitingum til jarðræktarframkvæmda var búinn til eða til hans var stofnað með breytingu á jarðræktarlögum 1986. Þar var það ákveðið að framlög til loðdýraræktar skyldu veitast af jarðræktarlögum. Ef þessi aukabaggi hefði ekki verið hengdur á jarðræktarlögin frá 1986 hefði þessi hali aldrei myndast, en vegna gífurlegra framkvæmda við loðdýragarða skapaðist þarna hali umfram fjárveitingar sem menn hafa verið að vandræðast með og verður að semja einhvern veginn um uppgjör á.
    Það sama á við um 3. brtt. Hún er liður í endurskoðun búfjárræktarlaga.
    Ég held að ég hafi, herra forseti, gert fullnægjandi grein fyrir þessum brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. og eins og í nál. segir leggjum við til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem við leggjum fyrir á þskj. 637, þ.e. þskj. sem er endurprentað upp.