Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Það var þegar forsetinn sagði hér úr forsetastól: ,,Fleiri hafa ekki ... ,, og ég þóttist átta mig á því hvað á eftir skyldi koma að ég kvaddi mér hljóðs.
    Hér í dag hefur farið fram 2. umr. um lánsfjárlög sem lögum samkvæmt átti að vísu að fara fram í desember. Lánsfjárlög voru fyrst samþykkt á Alþingi, ef ég man rétt, haustið 1975 og voru þá afgreidd með fjárlagafrv. og talið eðlilegt að slíkt væri gert. Ég minnist þess að þeim sem tóku við af ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, þar sem þessi vinnubrögð voru viðhöfð, fannst þetta ekki alveg nógu öruggt og töldu því eðlilegt að þetta yrði lögfest. Síðan held ég að það hafi ekki oft gerst að lánsfjárlögin hafi verið samþykkt samferða fjárlögunum. Þó gerðist það í tíð fyrri ríkisstjórna. En við erum nú komin fram í marsmánuð og erum að ræða þennan hluta af fjárlögum ríkisins.
    Hér hefur fulltrúi 1. minni hl., gert grein fyrir nál. sínu og fulltrúa Borgfl., en þeir mynda 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Í því nál. er vikið að lánsfjárlögunum, hver staða þeirra var í upphafi og hver staða þessara mála er í dag. Frsm. 1. minni hl., hv. 1. þm. Vestf., hafði ýmsar athugasemdir og fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. og til annarra ráðherra sem þetta mál kom við en hér hafa engin svör komið.
    Hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., hefur í allítarlegri ræðu reifað stöðu efnahagsmála, vikið að einstökum þáttum sem mikla þýðingu hafa í dag þegar verið er að gera grein fyrir þessum hlutum, þ.e. að menn vita nánast ósköp lítið, hafa kannski ekki áhyggjur af nema morgundeginum. Hér hefur hv. 1. þm. Suðurl. varpað fram fjölmörgum spurningum til hæstv. fjmrh., spurningum sem alþingismaður á rétt á að fá svarað, spurningum sem Alþingi á rétt á að hæstv. fjmrh. svari.
    Hér hefur verið vikið að efnahagsmálunum samhliða því að lánsfjárlög eru til 2. umr. Hæstv. forsrh. hefur ekki talið ástæðu til að vera hér viðstaddur. Það er kannski vegna þess að hann á það á hættu að hann verði allt í einu kominn hér upp í ræðustól, því hann er nú fljótari til að tala en ýmsir aðrir, og sé þá kominn í mótsögn við það sem hans samráðherrar hafa verið að halda fram á öðrum vettvangi. Kannski er hann að forðast það --- sem nú er að gerast og við erum vitni að --- að sú ringulreið sem er á stjórnarheimilinu, það ástand sem þar er komi fram hér á hv. Alþingi. Það kannski kýs hann ekki. Vill í dag eða á morgun geta siglt í páskafrí og komið til þings þegar því er lokið og tekið upp umræður miðað við stöðu mála eins og þær verða þá.
    Hér kom hv. 2. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson. Hann varpaði fram fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. og vék að atriðum sem hafa þýðingu, mikla þýðingu við afgreiðslu þeirra.
    Þá var vikið að því í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. hvernig mjög stangast á það sem ráðherrar hafa sagt um einstaka þætti í sambandi við lánsfjárlög, í sambandi við lánamál og fyrirgreiðslu þá sem núv.

ríkisstjórn stundar. Hv. þm. vék sérstaklega að því láni sem fjmrh. segir að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hafi fengið en hæstv. sjútvrh. þeim fjármunum sem ríkissjóður hafi rétt Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og verði þaðan aldrei greiddir aftur. Það er ekki hægt að fá svar hér af hálfu ráðherra. Á það hefur verið bent að jafnvel í bókhaldskerfi Stjórnarráðsins og þeirra stofnana sé ekki hægt að koma þessum 800 millj. fyrir vegna þess að ráðherrar hafi ekki komið sér saman. Menn vita hins vegar að nú á næstu vikum verður búið að eyða þeim. Og að menn komi hér til að segja hvað við tekur í þeim efnum, það er af og frá.
    Ég hafði þá vitneskju að það væri ætlan forseta að koma þessu máli áfram, ljúka 2. umr. og jafnvel þeirri þriðju. En ef þeir ráðherrar sem flytja mál telja að það sé líklegast til þess að þau gangi fram með nokkuð eðlilegum hætti að þeir séu hér --- ja, einn í mesta lagi og hann þá í símavörslu fyrir Alþingi í hliðarherbergjum --- þá vil ég segja að þá hef ég alltaf skilið hlutverk ráðherra með allt, allt öðrum hætti en hér sýnist vera gert.
    Það er að sjálfsögðu enginn vandi að setja á langar ræður. Efniviðurinn er svo margbreytilegur, ástandið svo erfitt að það tekur að sjálfsögðu langan tíma ef menn vildu ræða það undir þessum kringumstæðum. En ég kom hér upp til þess að undirstrika þær fyrirspurnir, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson komu með og þær fyrirspurnir sem fram komu í ræðu frsm. 1. minni hl. til hæstv. fjmrh., hæstv. sjútvrh., hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. Hæstv. viðskrh. var að sjálfsögðu með í þessum hópi, en ég veit að hann er í hv. Ed. þar sem verið er að ræða frumvörp og reiknar sjálfsagt með því að aðrir ráðherrar séu hér til þess að svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint.
    Það er auðvitað auðvelt, eins og ég sagði, að setja á lengri ræður og koma með allar þessar fyrirspurnir aftur og það liggur alveg í augum uppi að það verða menn að gera. En ég vildi gjarnan spyrja forseta hvort hann vildi ekki ganga úr skugga um það við hæstv. fjmrh. að hann muni reyna --- það ætlast enginn til þess að hann geti svarað þessu öllu, ég er þess meðvitandi --- en hvort forseti vildi ekki ganga úr skugga um það hvort hæstv. fjmrh. hyggist
ekki koma hér í ræðustólinn til þess að svara því sem til hans hefur verið beint hér við 2. umr. lánsfjárlaga. Ég mundi kannski skilja það ef hæstv. fjmrh. gæti staðið hér upp og sagt að það væri bara verið að teygja og toga, við værum komnir á seinustu umræðu þessa frv. og vildum ekki koma málinu áfram, 3. umr. væri kannski komin að lokum, að ég skildi hann þá. En ég get ekki fengið þetta skilið og vil gjarnan spyrja virðulegan forseta hvort hann vilji ekki ganga úr skugga um þetta. ( Forseti: Eins og hv. ræðumaður sér, sem er í beinu sjónmáli við hæstv. fjmrh., þá nemur hæstv. fjmrh. þessa orðræðu ræðumannsins. Mælendaskráin er vitaskuld opin og eins og nú standa sakir er enginn á mælendaskrá á eftir hv. ræðumanni. Þess vegna er málið augljóst að fjmrh. er fullkomlega

heimilt að taka til máls þegar honum hentar.)
    Ég verð, virðulegi forseti, að segja að ef forseta er með einhverjum hætti annt um að hér sé unnið með þeim virðuleik sem þessi stofnun krefst og ef hann hyggst reyna að koma svo fyrir málum að þau gangi fram að þá beiti hann áhrifum sínum til þess við hæstv. fjmrh. að hann kveðji sér hljóðs og svari þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint og Alþingi á rétt á að fá svarað. Ég get auðveldlega staðið hér í stólnum á meðan. Ég veit að hæstv. fjmrh. er léttur á sér og gæti komið hér og gert forseta viðvart hvernig hann hyggst standa að þessum málum. ( Forseti: Að ósk hv. ræðumanns verður þessa leitað við hæstv. fjmrh. --- Forseti hefur komið þessum tilmælum til hæstv. fjmrh. og fengið þau svör að þegar dregur að lokum þessarar umræðu þá hyggist fjmrh. að venju kveðja sér hljóðs.) Úr því að forseti hefur gengið úr skugga um þetta og þar kom skýrt fram að þar sem dregur að lokum þessarar umræðu og hér er enginn á mælendaskrá þá mun ég ekki standa í vegi fyrir því að hæstv. fjmrh. geti fengið plássið hér í ræðustólnum.