Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Af því að mér skilst að hæstv. fjmrh. ætli að vera svo hógvær að svara einhverju langar mig til að spyrja hann aftur sömu spurningar og ég spurði hann síðast þegar þetta mál var til umræðu. Hún var á þá leið hvaða athuganir hefðu farið fram varðandi það hvaða áhrif sú lánsfjáráætlun sem hér er til umræðu hefði á íslenskan lánamarkað. Hefur einhver athugun farið fram varðandi það? Hvernig má vera að Alþingi Íslendinga láti sér detta til hugar að samþykkja lánsfjáráætlun eins og núna árar í þjóðfélaginu án þess að skoða hvaða áhrif það hefur á íslenska fjármagnsmarkaðinn? Hver eru áhrif lánsfjáráætlunar á íslenska lánsfjármarkaðinn? Vill hæstv. fjmrh. vera svo hógvær núna af því að hann ansaði þessu ekki síðast að svara þessu? Þetta er ekki mjög flókin spurning. Hann getur svarað henni með annaðhvort já eða nei svo að ekki þarf að fara langur tími í það. Hefur athugun farið fram á því hvaða áhrif þessi lánsfjáráætlun hafi á íslenskan lánamarkað? Og hefur einhver athugun farið fram á því hvað gegndarlaust innstreymi á erlendu lánsfé hefur á fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisiðnaði eins og núna árar þar á bæ?
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég hefði gjarnan viljað fá þessari spurningu svarað.