Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Albert Guðmundsson:
    Herra forseti. Ég er bæði stirður og raddstirður af því að hlusta á umræður frá því að þær hófust snemma í dag á réttum fundartíma Alþingis. Nú er klukkan bráðum korter yfir sex og að sjálfsögðu fylgist maður svo náið með þessum umræðum vegna þess að þær eru stór liður í rekstri þjóðfélagsins og margar efasemdir hafa komið í ljós, engin þó frá stjórnarliðum. Margar spurningar hafa verið lagðar fyrir fjmrh. og það eru svörin við þessum spurningum sem ég hefði haldið að væru eins konar laun fyrir að bíða eftir svörunum. Ég er ekki í neinum vafa um að hæstv. fjmrh. svarar öllum þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram. Mér finnst það svo sjálfsagt að ég geri það ekki einu sinni að umræðuefni.
    En það sem ég er að undra mig á er að hér liggur frammi tillaga sem er dæmigerð um ný vinnubrögð í ríkisstjórninni sem ég vil gjarnan fá skýringar á. Nú segir hér, með leyfi forseta, og ég bið forseta sérstaklega að taka eftir vegna þess að ég ætla að biðja hann um annaðhvort nú þegar úr forsetastól eða í framhaldi af 2. umr., því að ég reikna ekki með að henni ljúki í kvöld eða nærri strax, að skera úr um hvort tillögur, sem dæmi tek ég tillögu á þskj. 637, eru þinglegar samkvæmt þingsköpum. Í þingsköpum segir um nefndir, 15. gr. á 10. blaðsíðu: ,,Fjvn. fjallar um frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga og þáltill. sem til hennar kann að vera vísað og fara fram á útgjöld úr ríkissjóði.`` Síðan segir á næstu blaðsíðu: ,,Fjvn. getur ákveðið að skipa úr sínum hópi undirnefnd til starfa milli þinga að sérstökum verkefnum.`` Og neðar undir upptalningu um nefndir Alþingis eða fastanefndir í deildum segir: ,,Hver fastanefnd þingsins kýs sér formann, varaformann og fundaskrifara. Fastanefndir þingsins skulu leitast við að skipa afgreiðslu þingmála í tímaröð svo að verkefni þingfunda í sameinuðu þingi og þingdeildum megi, eftir því sem við verður komið, dreifast sem jafnast á þingtímann.``
    Þetta er allt sem sagt er um fjvn. í þingsköpunum. Þetta er afmarkað verkefni fjvn. og frá þessu verður ekki breytt nema með lögum. Því vil ég fara í þskj. 637, sem er brtt. við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989, en með leyfi forseta segir í lið nr. 1:
    ,,Við 5. gr.
    a. Upphaf greinarinnar orðist svo:
    Heimilt er, að höfðu samráði við fjvn. Alþingis, að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra sem hér segir:
    b. Á eftir 6. tölul. komi nýr töluliður er orðist svo:
    Siglufjarðarkaupstaður, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 50 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.``
    Þessu hefur svo verið breytt á enduruppprentuðu skjali í 100 millj.
    Nú vil ég spyrja hæstv. forseta: Er þetta samkvæmt þingsköpum? Ég hef ekki vitað til þess, hvorki sem þingmaður síðan 1974 né heldur sem fjmrh., að það sé hlutverk nefnda Alþingis, hvort sem það er fjvn. eða aðrar nefndir, að taka lán né heldur að veita

heimild. Jafnvel efast ég um að Alþingi sem slíkt geti framselt fjárveitingavald sitt, lántökuvald til einstakra nefnda, til ákveðins hóps þingmanna sem kjörnir eru til að gegna skyldustörfum fyrir þingið í heild --- innbyrðis, ekki út á við.
    Ég vil gjarnan vita hvort þessi breyttu vinnubrögð, sem virðast vera komin á, eins konar eftirlit með fjmrn., eftirlit með fjmrh., séu framkvæmd á vilja Alþingis. Framkvæmdarvaldið er ekki lengur eitt. Það er orðið fjmrn. plús fjvn. sem ég dreg í efa að sé samkvæmt þingsköpum Alþingis leyfilegt eða rétt að staðið. Ef það er tilfellið að fjvn. er eins konar eftirlitsaðili með framkvæmd ákvarðana Alþingis á vegum fjmrn. þurfum við að kanna hvers vegna svo er orðið, hver sé ástæðan. Ég sé enga aðra ástæðu í þessu en þá að hér ríki algjör tortryggni á milli framkvæmdaaðila annars vegar og þeirra í stjórnarliðinu sem mynda þann meiri hluta sem ég er að gera að umræðuefni. Ég mun reyna að koma í veg fyrir að slík vinnubrögð verði tekin upp. Ég treysti fjmrh. á hverjum tíma til að framkvæma vilja Alþingis eins og hann er á hverjum tíma.
    Annar liður í þessari brtt. á þskj. 637 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Við 28. gr. bætist nýr málsl. er orðist svo: Þó er fjmrh. heimilt, að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.``
    Nú vil ég líka spyrja: Er það, hæstv. forseti, samkvæmt þingsköpum að fjmrh. er bundinn samráði við aðra ráðherra, í þessu tilfelli landbrh., og fjvn. aftur til að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988? Hvers vegna þetta stranga ,,kontról``, það stranga eftirlit með fjmrn. nú? Hver er ástæðan? Er ekki nóg að Alþingi feli framkvæmdarvaldinu? Þarf það að fela öðrum aðilum að hafa eftirlit með réttu framkvæmdarvaldi? Hér er fjmrh. með myllustein um hálsinn, sem er bæði fjvn. Alþingis og landbrh., til að gera upp jarðræktarframkvæmdir 1988. Ég vissi ekki betur en það hefði verið samþykkt á sínum tíma þegar ég var fjmrh. að jarðræktarframkvæmdir yrðu ekki greiddar nema að það lægi fyrir fyrir fram, áður en farið er út í
framkvæmdir, kostnaðaráætlun samþykkt af fjmrn. Reikningarnir voru óútfylltir ef það var ekki.
    Virðulegur forseti. Þriðji liður, með leyfi, hljóðar svo:
    ,,Við 29. gr. bætist nýr málsl. er orðist svo: Þó er fjmrh. heimilt, að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til búfjárræktar á árinu 1988.``
    Hér er enn þá sama eftirlitið á fjmrn., sömu nýju aðilarnir á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins sem þingsköp Alþingis gera alls ekki ráð fyrir og sömu rök eiga við þriðja lið tillögunnar og það sem ég sagði um annan lið.
    Síðan kemur fjórði liðurinn sem er út af fyrir sig furðulegur. Með leyfi forseta, segir þar svo:
    ,,Á eftir 43. gr. komi ný grein er orðist svo:

    Fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að höfðu samráði við fjvn. Alþingis, að semja við Þormóð ramma hf. um ráðstafanir til að bæta fjárhag fyrirtækisins.``
    Ég satt að segja skil ekki hvað hér er átt við. Hvað er upphæðin stór? Þormóður rammi hefur verið rekinn með miklu tapi í mörg ár og margbúið að gera ráðstafanir til að lagfæra reksturinn. Mér finnst þetta orðalag benda til þess að fjmrh., alltaf undir sama ,,kontróli``, alltaf undir sama eftirliti fjvn., sé hér með heimilað að láta fyrirtækið hafa það fé sem fyrirtækið óskar eftir eða þarf. Það er margbúið að reyna að koma því á laggirnar með því að veita fé í reksturinn, en framleiðslan gefur bara ekki af sér til að standa undir fyrirtækinu. Ég skil ekki hvað þessi vinnubrögð eiga að þýða, en vil þó í aðalatriðum beina orðum mínum áfram eða a.m.k. draga ekki athygli hæstv. forseta frá þeirri staðreynd að ég er hér að gera athugasemdir um vinnubrögð sem að mínu mati eru ekki samkvæmt þingsköpum. Í fjórða lið er á sama hátt fjmrh. fyir hönd ríkissjóðs heimilt að höfðu samráði við fjvn. Alþingis. Ég fyrir mína parta sem þingmaður veiti fjvn. Alþingis enga heimild til að taka lán, hvorki innlent né erlent, fyrir mína hönd, enga.
    Við heyrðum í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. áðan þegar hann fullyrti að yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabankanum væri um 10 milljarðar. Ég trúi að hv. þm. hafi farið rétt með tölur. Allt þetta sem við erum að tala um hér, bara á þessu eina þskj., er viðbótaryfirdráttur í Seðlabankanum. Við vitum ekkert hvað Þormóður rammi þarf að fá. Við vitum ekkert hvað uppgjör ógreiddra framlaga til búfjárræktar fyrir árið 1988 er stór upphæð. Við vitum ekkert hvað ógreidd framlög til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988 eru mikil. Við vitum að skuldbreytingar hafa hækkað á milli prentaðra skjala úr 50 millj. í endurprentað 100 millj. á einum sólarhring eða á einum degi. Það er kannski betra að samþykkja lánsfjárlög sem allra, allra fyrst til að hækka ekki með þessum hraða áfram. Þetta skiptir áreiðanlega mjög stórum upphæðum sem samkvæmt þessu eina skjali eru til umræðu og ég spyr: Er þetta þinglega rétt fram sett? Ég efast um það.
    Virðulegur forseti. Mér finnst vera heldur niðurlægjandi fyrir framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli fjmrh., að taka við svona samþykkt frá Alþingi Íslendinga. Eina sem ég get ímyndað mér að geti orðið til þess að svona orðaðar tillögur komi fram er hið algjöra vantraust á milli manna í ríkisstjórn Íslands og ef það kemur í ljós er það stóralvarlegt mál. Við getum deilt hver á annan. Við getum haft þá skoðun að við hver og einn séum betri ráðherrar en þeir sem eru ráðherrar hverju sinni, en við getum ekki sýnt ráðherrum okkar slíkt vantraust sem felst í þeim skjölum sem hér hafa verið til umræðu í minni ræðu.
    Hæstv. forseti. Ég óska sem þingmaður eftir því að fá skýrt úr því skorið hvort hér sé rétt að staðið.
    Í öðru lagi vil ég segja, það er algjört aukaatriði en rétt að það komi fram, að hæstv. forseti kynnti dagskrá, sagði að hún væri samkvæmt samkomulagi við þingflokkana. Það er samkomulag sem ég hef ekki

heyrt um fyrr en forseti minntist á það.