Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki flytja langa ræðu um það mál sem hér er á dagskrá, frv. til lánsfjárlaga, við þessa umræðu. Það væri enda tæpast viðeigandi þar sem ég hef verið fjarverandi í dag. Þrátt fyrir að ég legði af stað heiman að frá mér kl. 7 í gærmorgun kom ég til bæjarins rétt fyrir kl. 6 í dag. Enn þá er það svo að Vetur konungur tekur af okkur völdin þegar við viljum ferðast stöku sinnum og svo er að þessu sinni.
    Mér þykir þó nauðsynlegt við þessa umræðu að fara örfáum orðum um tvær af þeim brtt. sem birtast á þskj. 637 frá meiri hl. fjh.- og viðskn., brtt. við 28. og 29. gr.
    Við afgreiðslu fjárlaga var ákveðið af ríkisstjórninni og stuðningsliði hennar að framlög ríkisins vegna jarðræktarframlaga skyldu á þessu ári eigi fara fram úr 100 millj. kr. og í samræmi við það er 28. gr. í frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga nr. 56/1987 skuli framlag ríkisins til jarðabóta eigi fara fram úr 100 millj. kr. á árinu 1989. Sambærileg skerðing og öllu meiri þó var í 29. gr. lánsfjárlagafrv. og í samræmi við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar og meiri hl. Alþingis, þ.e. stjórnarflokkanna, að því er varðar búfjárræktarlög. Þar segir að þrátt fyrir ákvæði búfjárræktarlaga skuli framlag ríkissjóðs vegna búfjárræktarstyrkja falla niður á árinu 1989. Þessar skerðingar hlutu harða andspyrnu og hörð mótmæli fulltrúa úr minni hl. fjvn., einkum þó fulltrúa Sjálfstfl., okkar hv. þm. Egils Jónssonar, og ýmissa annarra þingmanna úr stjórnarandstöðunni, og við afgreiðslu fjárlaga flutti formaður fjvn. yfirlýsingu sem gaf í skyn að samið kynni að verða um þessi mál á þessu ári, þ.e. greiðslu þessara framlaga.
    Nú eru komnar brtt. sem sýna að stjórnarliðið er að hopa í þessu máli. Þar segir varðandi jarðræktarframlög að við 28. gr. bætist nýr liður, en svo segir í brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. að við 28. gr. bætist nýr málsl. er orðist svo: ,,Þó er fjmrh. heimilt, að höfðu samráði við landbrh. og fjvn. Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.`` Sambærilegur texti er að því er varðar búfjárræktarlög.
    Nú vil ég í fyrsta lagi spyrja --- og ég tek það fram að ég bað þingvörð að leita að formanni fjh.- og viðskn., hv. þm. Páli Péturssyni, sem ekki er hér við: Hvað þýðir þessi texti? Það er nokkuð óglöggt. Þýðir þessi texti að það sé mögulegt að semja um að ríkið greiði framlög vegna jarðabóta á árinu 1988 eða þýðir hann að til viðbótar við þær 100 millj. sem eru í fjárlögum sé mögulegt að semja um að ríkissjóður greiði á þessu ári framlög vegna þeirra jarðabóta sem unnar voru árið 1987 og ekki var greitt framlag til árið 1988? Allt er þetta óglöggt eftir þeim texta sem hér liggur fyrir.
    Sömu sögu er að segja um brtt. varðandi búfjárræktarlögin, þ.e. 29. gr. Í fyrsta lagi vil ég spyrja: Hvað táknar þetta? Táknar þetta að til viðbótar við 100 millj. kr. framlag samkvæmt fjárlögum geti

fjmrh., landbrh. og fjvn. samið eins og þar segir ,,um greiðslu framlaga samkvæmt jarðabótum sem unnar eru á árinu 1988`` og þær 100 millj. sem eru í fjárlögum fari í fyrsta lagi til að greiða það sem á vantaði vegna jarðabóta 1987 og duga þær raunar ekki nema rúmlega fyrir þeirri fjárhæð, en það vantar til þess að ég ætla 77 millj. kr.?
    Ef ber að skilja textann með þessum hætti, þá er mér spurn: Hvers vegna þá ekki að fella þessar tvær greinar niður, ganga hreint til verks og fella 28. og 29. gr. frv. niður? Ég lýsi því hér með yfir að ég er reiðubúinn að styðja hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar til að koma því fram. Þar væri hreinlega að verki staðið. Ef það fæst hins vegar ekki og meiningin er að þeir aðilar sem hér eru upp taldir, þ.e. hæstv. fjmrh., hæstv. landbrh. og fjvn. Alþingis, eigi að semja eins og það er orðað um greiðslu þessara fjármuna við bændur er mjög einkennilega að verki staðið. Bændur sem eiga rétt á þessum bótum samkvæmt lögum eru trúlega 3--4 þúsund talsins og það tekur einhvern tíma að kalla þá alla fyrir þá aðila sem hér eru nefndir til samninga um greiðslu framlaga úr ríkissjóði, samninga um fé sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Þetta er eins klúðurslegt og ruglingslegt og hægt er að hugsa sér. Ef hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til að standa á því sem hún hefur þegar afgreitt samkvæmt fjárlögum á hún vitaskuld að fella niður þessi skerðingarákvæði og greiða það fé sem hér er samkvæmt lögum og ekki vera með vafninga í þessu. Hvers vegna vafninga? Hvers vegna þarf vafninga ef á að greiða féð? Það hljóta að vera vafningar vegna þess að meiningin sé þrátt fyrir að slá fram texta sem eigi að varpa ryki í augu einhverra þeirra bænda sem eiga stórfé inni hjá ríkinu samkvæmt þessum lögum. Það eigi þrátt fyrir allt ekki að greiða. Þetta háttalag er ekki geðfellt og ég ætla ekki við þessa umræðu að fara út í þetta fleiri orðum þrátt fyrir að mér þyki nauðsynlegt áður en þessar greinar ganga til atkvæða að vekja á þessu athygli, en með tilliti til þess að greinarnar eru í fyrsta lagi óljósar eins og ég hef vakið máls á og nauðsynlegt að skýra hvað þær þýða og í öðru lagi afar einkennilegt að stofna til samninga við kannski 3--4 þúsund bændur um fé sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, þá er það mín tillaga við þessa umræðu til meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. að kalla
þessar tvær tillögur til baka til 3. umr. og okkur gefist þá tóm til að koma þessu í það horf að það a.m.k. liggi fyrir hvað lagasetningin þýðir og e.t.v., sem best er, að fella þau skerðingarákvæði niður sem eru í 28. og 29. gr. frv. til lánsfjárlaga. Ég hvet því hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. til að verða við þessum tilmælum mínum og ég sé hér hæstv. landbrh. og hvet hann til að beita sér fyrir því að þessar tillöpgur verði kallaðar til baka til 3. umr. og við getum þá fjallað um þetta á þann hátt að það liggi skýrt fyrir hvað við er átt. Er hér um það að ræða að ríkissjóði er ætlað að greiða þetta fé eða er hér um yfirvarp að ræða sem er verra en ekki? Ég ætla ekki að gera því skóna að það sé slíkt yfirvarp fyrr en ég fæ einhver svör, en til þess

að komast að hinu rétta í þessu máli teldi ég ákjósanlega málsmeðferð að kalla þessar tvær brtt. til baka til 3. umr.
    Ég skal svo, herra forseti, þó ærið efni liggi fyrir, stytta mína ræðu og geyma það til 3. umr. eftir því sem mér þykir þá við horfa.