Ályktunarfær þingfundur
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Út af þeirri fyrirspurn sem hv. 2. þm. Reykn. bar hér fram varðandi 2. mgr. 45. gr. þingskapanna, þá er það svo að ákvæði þessarar nefndu 2. mgr. 45. gr. hefur ævinlega verið skilið svo að orðið ,,atkvæðisbærir`` merkti þar þeir sem greiða atkvæði. Atkvæðisbær merkir sá sem ber atkvæði. Sá sem ekki greiðir atkvæði ber ekki fram atkvæði sitt og er því ekki atkvæðisbær við þá atkvæðagreiðslu. Réttur hans til að greiða atkvæði er hins vegar ótvíræður og um leið samkvæmt núgildandi þingsköpum að gera það ekki, þ.e. að bera ekki fram atkvæði sitt. Eins og hv. þingdeildarmönnum flestum mun kunnugt er fyrir þessari túlkun löng hefð og ótal fordæmi.