Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Mig langar til þess að leggja á það sérstaka áherslu við hv. fjh.- og viðskn., sem fær þetta frv. til meðferðar, að í nefndinni og frá nefndinni, þegar hún skilar af sér, komi miklu ítarlegri úttekt á áhrifum þessara breytinga og raunverulega því sem að er stefnt, að það verði hægt að sýna fram á það hvernig þetta kerfi virkar miðað við núgildandi kerfi og miðað við það sem fram undan er bæði í sambandi við húsbréfakerfið væntanlega, ef það verður samþykkt hér á hv. Alþingi, og eins í sambandi við þær breytingar aðrar sem gerðar eru á húsnæðiskerfinu. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að þessi vinnubrögð verði viðhöfð vegna þess að eins og þetta frv. hefur verið lagt fram, þá er alls ekki hægt að líta á þær töflur eða það sem því fylgir í grg. sem viðhlítandi útskýringar á því hvernig þessi breyting virkar í raun og veru á hinn almenna mann sem þarf að njóta þessara bóta um langan tíma og miðað við það sem að talað er um að þurfi að koma fram í þeirri skattabreytingu sem hér er lögð til.
    Herra forseti. Ég skal ekki hafa meiri efnislegar umræður um þetta nú. En ég treysti því að þessi athugasemd verði tekin til greina þannig að hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar afli sér nákvæmra útreikninga á ýmsum liðum í þessu frv. sem ég tel að sé ekki nægjanlega útskýrt eins og það liggur fyrir miðað við hvernig það kemur til með að virka á hinn almenna húsbyggjanda sem er með mismunandi aðstæður og verður með mismunandi aðstæður til að njóta þessara bóta eins og fyrir liggur.