Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 671 um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 sem er flutt af mér ásamt hv. þm. Inga Birni Albertssyni og Albert Guðmundssyni. Hún fjallar um að 31. gr. falli brott, en það eru skerðingarákvæði um fjáröflun til vegagerðar sem gera ráð fyrir því að 680 millj. af hækkun bensíngjalds og þungaskatts renni í ríkissjóð.
    Við umfjöllun um þetta mál hjá fjh.- og viðskn. Ed. og einnig í Nd. kom fram að það ákvæði að 680 millj. af bensíngjaldi og þungaskatti skuli renna í ríkissjóð verði til þess að Vegagerð ríkisins geti ekki staðið fyrir öllum þeim framkvæmdum á næsta ári sem henni var ætlað í vegáætlun frá 1987. Það vantar upp á það um 600 millj. og þar munu vera á milli 300 og 350 millj. vegna vegaganganna í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Í vegáætlun 1987 var ekki gert ráð fyrir þessum göngum. Það er því mikilvægt að þetta sé ekki dregið út og þessum fjárhæðum haldið inni í vegáætlun því annars verður að draga verulega úr vegaframkvæmdum á öðrum sviðum.
    Það hefur verið gert ráð fyrir að þetta séu nú 680 millj. og við leggjum því til hér að þetta verði fellt út samkvæmt þessari brtt. Ég held að það sé ekki spurning um að það liggur á því að það sé lagt bundið slitlag sem víðast um landið. Að taka fjármagn til þess að leggja í aðra hluti og að draga úr þessari áætlun núna er mjög slæmt. Ég vil því leggja til að þetta ákvæði verði fellt niður.
    Þá leggjum við til að skerðingarákvæði í 31. gr. falli brott einnig, en það fjallar um framlag ríkissjóðs til Félagsheimilasjóðs sem er ætlað samkvæmt þessum lögum 21 millj. á árinu 1989. Á næsta ári er áætlað að til Félagsheimilasjóðs komi um 50 millj. þannig að það er verið að skerða framlög til sjóðsins um 29 millj. á árinu 1989. Eins og allir vita er Félagsheimilasjóði ætlað að styrkja nýframkvæmdir við félagsheimili og eru styrkir úr honum í kringum 40% af byggingarkostnaði og hluta af kostnaði við búnað.
    Nú skuldar sjóðurinn framlög til 51 félagsheimilis að upphæð 63 millj. kr. Þar af eru nokkuð stór félagsheimili sem eru í byggingu. Ég nefni hér félagsheimilin á Selfossi og í Ólafsvík. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að þeir aðilar sem hafa farið út í byggingu félagsheimila hafa gert ráð fyrir framlögum á fjárlögum. Sá dráttur sem hefur orðið á þessum framlögum veldur verulegum vandræðum og rýrir mjög þá fjármuni sem ætlaðir eru til þessarar starfsemi en þeir eru ekki verðbættir. Ég held að það sé mjög brýnt, og hafa reynar margir þingmenn tekið til máls síðan ég settist á Alþingi um þennan sjóð og talið að framlög til hans þurfi að vera hærri þannig að hann geti staðið við þær skuldbindingar sem hann á að standa undir og menn fái ekki til baka miklu verðminni peninga en þeir hafa lagt í kostnað við byggingu á félagsheimilum.
    Ég ætlaði ekki að hafa þetta mjög langt að öðru leyti, en vil aðeins minnast á þá tillögu sem hér var til umræðu fyrr í dag á þskj. 686 sem nú hefur verið

dregin til baka og ég fagna því. Sérstaklega vil ég fagna því í því sambandi að þar er gert ráð fyrir að þetta sé bundið afgreiðslu nýrri laga sem getur ekki talist þingleg meðferð og mjög vafasamt að taka upp þvílík vinnubrögð hér á þinginu. Það er hins vegar svo að hér eru ekki nefndar neinar tölur. Það hefði verið hægur vandi fyrir landbrh. að hafa á takteinum þær upphæðir sem eiga að fara til þessara hluta og samþykkja að fjmrh. megi afgreiða þessi framlög til jarðræktarframkvæmda og til búfjárræktar á árinu 1988. Ef ríkið stendur að samningum um slíka hluti verður það að standa við þá. Bændastéttin er ekkert öðruvísi en aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Þegar hefur verið gerður samningur við þá um ákveðna hluti verður það að standa við það því að það er erfitt að vera búinn að framkvæma og ganga út frá fjárframlögum sem koma svo ekki með þeim hætti sem til stendur.
    Ég vil líka gera að umræðuefni þá brtt. sem var samþykkt hér áðan og er á þskj. 637 því að hún verður að teljast mjög vafasöm. Hér er opnað fyrir það að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja eftir þörfum. Hér er byrjað með 100 millj. og enginn veit hvar það getur endað. Það er miklu nær að sveitarfélögin leiti til sinna viðskiptabanka og fái ábyrgð hjá þeim en það sé gert með þessum hætti. Þetta opnar fyrir alveg nýja afgreiðslu sem hefur ekki verið tíðkuð hér áður og verður að telja að þetta sé mjög vafasöm leið.
    Ég ætla ekki að gera þetta að öðru leyti að umræðu, en hefði getað sagt ýmislegt um lánsfjárlögin sem slík. Það er orðið áliðið nætur og við erum búin að standa á fundi alllengi í dag og mun ég því láta það nægja sem hv. 1. þm. Vestf. sagði í nál. fyrir 1. minnihlutaáliti um lánsfjárlög. Það held ég að hafi verið mjög ítarlegt og gott og tel að öðru leyti að ég láti þetta nægja að sinni.