Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram lýsir mætavel handarbakavinnubrögðunum og ráðleysinu sem einkennir störf þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég held að brtt. við 2. umr. hafi bæði verið prentaðar upp og endurprentaðar upp og svo fluttar í þremur útgáfum við 3. umr. þegar hæstv. ríkisstjórn loks kemur sér saman um hvernig á endanlega að afgreiða þær af hennar hálfu frá hinu háa Alþingi. Þetta er eitt dæmi um hvernig vinnulagið er og afraksturinn er auðvitað í samræmi við þetta. Hér er verið að afgreiða lánsfjárlög ríkisstjórnar sem hafði stór orð um að draga úr erlendum lántökum en hefur aukið erlendar lántökur í meðferð frv. á hinu háa Alþingi um 50%. Þetta er niðurstaðan af stóryrðunum. Auðvitað mun þetta hafa sín áhrif út í þjóðarbúskapinn. Auðvitað mun þetta svo smám saman auka á spennu og þenslu. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir að það hefði komið honum algjörlega á óvart hversu verðbólgan var orðin mikil og það hefði verið allt annað en honum hefði verið tjáð að þessi verðbólguholskefla skyldi hafa riðið yfir.
    Við 2. umr. þessa máls kom það á daginn, kom að vísu fæstum á óvart, að hæstv. fjmrh. gat engin svör veitt við einföldum en skýrum spurningum sem afhjúpa rekstur ríkissjóðs og fjármálastefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Hann gat ekki hrakið að þegar komið er á þriðja mánuð þessa árs skuli vera komið gat upp á nálega 3 milljarða kr. eða hátt í 3 milljarða kr. Það gat hæstv. fjmrh. ekki hrakið.
    Hæstv. fjmrh. gat enga grein gert fyrir því hvernig hann ætlaði að afla tekna, hvort hann ætlaði að gera það með lánum eða nýrri tekjuöflun að því er varðar ný útgjaldaáform ríkissjóðs. Og hæstv. ráðherra gat engin svör veitt við því hvernig ríkisstjórnin ætlaði að mæta skýrum ákvörðunum sem hún hefur tekið til að mynda í verðlagsmálum. Þess er ekki að vænta að hæstv. fjmrh. geti fremur við 3. umr. veitt svör við þessum spurningum, hvorki Alþingi né fólkinu í landinu, og þó hefur þessi lokaumræða um lánsfjárlögin dregist þetta langt fram á þetta ár þannig að hæstv. ráðherra á að hafa haft sæmilegan tíma til að undirbúa sig undir þessa umræðu. En ég geri ekki ráð fyrir að það hafi breyst frá því í dag og nú fram á kvöldið.
    En það væri ástæða til þess vegna þess að hæstv. fjmrh. gat við umræðuna í dag ekki heldur svarað neinu um þann samráðsgrundvöll sem hlýtur að liggja fyrir í viðræðum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins. Hér er um að ræða mál sem er búið að vera á döfinni mánuðum saman hjá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. forsrh. upplýsti í lok síðasta árs að hann hefði ákveðið að efna til þessa samráðs, en gat þá ekki svarað einu einasta orði um það hver viðræðugrundvöllur hæstv. ríkisstjórnar yrði. En hann hafði um það stór orð að nú yrði þetta samráð hafið og ég man ekki hversu marga leiðara ég hef lesið í Tímanum sem hafa hlaðið lofi á hæstv. forsrh. fyrir allt þetta samráð og þá miklu gæfu sem því fylgir. En nú er komið að páskaleyfi Alþingis og hæstv. fjmrh.

gat ekki við umræðu um lánsfjárlög svarað einni einustu spurningu um þetta efni og þó lúta þær allar að fjárlögum ríkisins og lánsfjárlögum. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. forsrh. geri tilraun til að svara þeim spurningum sem hér eru uppi og óska eftir því, herra forseti, að hann verði viðstaddur þessa umræðu í þeim tilgangi að gefa nokkur svör við þessu því að ég trúi ekki að það sé staðreynd máls, þegar viðræður hafa farið fram um langan tíma milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins um endurnýjun kjarasamninga og ríkisstjórnin hefur samkvæmt fréttum setið dögum saman á fundum til að ræða samráðsgrundvöllinn og dagblaðið Þjóðviljinn hefur birt það sem verkalýðshreyfingin leggur höfuðáherslu á, að hæstv. forsrh. geti ekki svarað einni einustu spurningu um það fremur en hæstv. fjmrh. Það hlýtur að vera eðlilegt og rétt krafa Alþingis áður en það fer í páskaleyfi að við þessu séu veitt ákveðin svör.
    Hér er um að ræða spurningar sem lúta að því hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ræða í þessu samráði eins og fram kemur af hálfu Alþýðusambandsins að búvöruverð verði óbreytt á þessu ári, en fram hefur komið að það mun kosta 670 millj. til viðbótar við fjárlög ef halda á niðurgreiðslum óbreyttum. En við þá upphæð má bæta nokkur hundruð milljónum í viðbót ef verða á við þessari kröfu sem fram hefur komið af hálfu launþegasamtakanna.
    Það er nauðsynlegt þegar lánsfjárlög eru rædd að það komi fram hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þessum efnum, enda nokkuð ljóst að lánsfjárlagafrv. er marklaust plagg með öllu ef hæstv. ríkisstjórn getur engu svarað um þetta efni.
    Það er líka nauðsynlegt að það komi fram hvort hæstv. ríkisstjórn og hvort hæstv. forsrh. getur svarað því sem hæstv. fjmrh. gat ekki um hækkun skattleysismarka, en dagblaðið Þjóðviljinn segir frá því í dag að krafan um hækkun skattleysismarka sé eitt af grundvallaratriðunum í samráðinu við hæstv. ríkisstjórn. Þar kemur enn fremur fram að það er lagt til að breyting verði á vörugjöldum og í fréttabréfi Landssambands iðnaðarmanna er nýlega greint frá því að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hafi gefið forustumönnum iðnaðarins alveg ótvírætt til kynna að það ætti að gera meira en að breyta
reglum að þessu leyti, hér ætlaði ríkisstjórnin sér að breyta þeirri skattheimtu sem ákveðin var fyrir jólin mjög svo til óhagræðis fyrir íslenskan iðnað. Í sama fréttabréfi kemur fram mjög skýr krafa af hálfu forustumanna Landssambands iðnaðarmanna um það að hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. standi við þessar yfirlýsingar. Hæstv. fjmrh. gat í umræðunni í dag engu svarað um þetta efni, átti engin svör um þetta atriði. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. forsrh. gæti einhverju svarað um þetta eða hæstv. iðnrh. En það er greinilegt að þeir hafa gefið forustumönnum iðnaðarins í landinu ákveðnar yfirlýsingar sem forustumenn iðnaðarins túlka á einn veg og rétt að fá úr því skorið hvort þær yfirlýsingar sem forustumenn

iðnaðarins hafa gefið í þessu efni eru réttar eða ekki. Ætlar ríkisstjórnin að koma til móts við iðnaðinn í landinu með því að breyta vörugjaldinu? Það liggur fyrir í fyrsta lagi að tveir ráðherrar hafa gefið fyrirheit um þetta samkvæmt frásögn í fréttabréfi Landssambands iðnaðarmanna og það liggur fyrir í öðru lagi að dagblaðið Þjóðviljinn hefur upplýst að þetta er eitt af þeim atriðum sem aðilar vinnumarkaðarins leggja til grundvallar eða vilja leggja til grundvallar í samráðinu við ríkisstjórnina.
    ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. ræðumanns á því að það var óskað eftir nærveru hæstv. forsrh. Hann er ekki í þinghúsinu og hefur ekki náðst til hans, en hér eru viðstaddir umræðuna þrír hæstv. ráðherrar þannig að ég vænti þess að þeir geti svarað eða metið það sem fram kemur.) Það er ekki venja að hæstv. forsrh. sé viðstaddur mikilvægar umræður um efnahags- og fjármál, enda eru þau mál á forræði annars ráðherra í þessari hæstv. ríkisstjórn og lúta verkstjórn hæstv. fjmrh. Ég hafði óskað eftir því samkvæmt nýjum reglum sem settar hafa verið varðandi óskir þingmanna um viðveru ráðherra að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og bar fram þá ósk samkvæmt hinum nýju reglum fyrir upphaf fundar, en ég geri út af fyrir sig enga athugasemd um fjarveru hæstv. forsrh. Hún breytir ákaflega litlu. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann eigi nokkur svör og þykist reyndar vita að fjarvera hans stafi af því að hann á engin svör við þessum spurningum og lýsir það kannski best hvernig málum er komið. Eigi að síður hlýtur að vera eðlilegt að Alþingi kalli eftir þessum svörum. Aðilar vinnumarkaðarins og fólkið í landinu mun svo taka eftir því að hér var enginn forsrh. til þess að svara slíkum spurningum og hæstv. fjmrh. getur engu orði komið upp varðandi þessi efni. Þau skilaboð munu að sjálfsögðu berast út til fólksins í landinu og út til þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta.
    Það voru fleiri atriði sem komu til umræðu þegar þetta mál var hér til 2. umr. M.a. var fjallað um það alvarlega ástand sem hefur skapast vegna valdhroka og þrákelkni hæstv. fjmrh. í samskiptum við lífeyrissjóðina í landinu, þann einstaka ruddaskap sem fram hefur komið af hálfu ríkisvaldsins í þeim samskiptum. En upphaf þess máls er það að hæstv. viðskrh. breytti lánskjaravísitölu án lagagrundvallar þó að fyrir lægi yfirlýsing hæstv. forsrh. í athugasemdum með frv. að nýrri launavísitölu að ekki væri hægt að breyta grundvelli lánskjaravísitölu fyrr en lög hefðu verið sett. Yfirleitt hefur það verið á þann veginn að hæstv. forsrh. hefur verið þekktur fyrir það að taka hinar flausturslegri ákvarðanir, en hæstv. viðskrh. hefur verið þekktur fyrir að vilja vanda undirbúning mála, fara að engu óðslega og fara að réttum lögum. En í þessu tilviki hafa hæstv. ráðherrar hlutverkaskipti því að það er hæstv. forsrh. sem segir skýrt og skorinort í athugasemdum með frv. að það sé ekki hægt að breyta lánskjaravísitölunni fyrr en lög hafi verið sett um launavísitölu.
    En þrátt fyrir þessa skýru yfirlýsingu hæstv. forsrh.

rýkur hæstv. viðskrh. í það að breyta lánskjaravísitölunni með þeirri afleiðingu að hæstv. fjmrh. ákveður að ganga á bak orða sinna í samningum við lífeyrissjóðina. Þetta hefur svo aftur leitt til þess að lífeyrissjóðirnir hafa mjög svo dregið úr kaupum á skuldabréfum ríkisins, einkanlega auðvitað að því er varðar kaupskyldu þeirra á bréfum vegna húsnæðislánasjóðanna.
    Nú standa fyrir dyrum, samkvæmt yfirlýsingum talsmanna lífeyrissjóðanna í landinu, umfangsmikil málaferli við ríkisvaldið vegna þessara einstæðu samskipta og er athygli vert að það skuli einmitt vera formaður Alþb. sem hefur forustu fyrir þessari framkomu gagnvart lífeyrissjóðunum í landinu. En nú hafa lífeyrissjóðirnir dregið úr kaupum á skuldabréfum húsnæðislánasjóðanna. Það þýðir auðvitað að bregðast verður við með einhverjum hætti. Ég óskaði eftir því að hæstv. félmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og vil nú inna forseta deildarinnar eftir því hvort hæstv. félmrh. sé ekki viðstaddur. --- Nú sé ég að ráðherra skundar í salinn.
    Í fyrsta lagi óska ég eftir því að hæstv. félmrh. geri grein fyrir afstöðu sinni til framkomu hæstv. fjmrh. gagnvart lífeyrissjóðunum. Ég vil inna hæstv. félmrh. eftir því hvort hann sé sammála aðför hæstv. fjmrh. að lífeyrissjóðunum og því stríðsástandi sem hann hefur komið á í þeim samskiptum; hvort hæstv. félmrh. telur að það sé rétta leiðin til þess að taka á þeim erfiðleikum sem húsnæðislánakerfið á í í dag; hvort það sé líklegasta
leiðin til þess að bæta úr því ófremdarástandi sem þar ríkir.
    Í annan stað vil ég inna ráðherrann eftir því hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að útvega fjármagn með öðrum hætti ef mál eiga að halda áfram í þeim farvegi sem verið hefur að undanförnu, víðtæk málaferli og enn muni draga úr kaupum lífeyrissjóðanna.
    Í þriðja lagi vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða áhrif það muni hafa á réttindi sjóðfélaga sem sækja um lán hjá Húsnæðisstofnun. En samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun eru réttindi til lána bundin því að sjóðirnir kaupi skuldabréf samkvæmt kaupskylduákvæðum laganna. Nú hefur hæstv. fjmrh. gert það að verkum með því að brjóta samninga við lífeyrissjóðina að þeir geta ekki haldið þessum viðskiptum áfram samkvæmt þeirra eigin yfirlýsingum. Hvaða áhrif mun það hafa á réttindi sjóðfélaga? Þetta eru allt spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við vegna þess að hér eru miklir hagsmunir í húfi.
    Hér er valdahroki hæstv. fjmrh. á ferðinni og hann hefur ekki einungis áhrif á þá sem eru stjórnarmenn og forustumenn lífeyrissjóðanna. Hann getur haft afleiðingar fyrir fjölskyldurnar í landinu sem eru að sækja um og bíða eftir úrlausn í húsnæðislánakerfinu. Þetta mál er því miklu stærra í sniðum og alvarlegra en svo að hæstv. ráðherra geti litið á það sem einhvern hrokaslag milli sín og forustumanna lífeyrissjóðanna. Þess vegna er nauðsynlegt áður en þessari umræðu lýkur hér um lánsfjárlög að hæstv.

félmrh. geri grein fyrir því hvort hann er sammála stefnu hæstv. fjmrh. í þessu efni og telur hana leiða til góðs og svari svo auk þess öðrum spurningum sem að þessu lúta.
    Vegna þess að hæstv. forsrh. er kominn í salinn ætla ég ekki að lengja mál mitt, en vil ítreka þær spurningar sem ég hef áður borið fram varðandi umræðugrundvöll ríkisstjórnarinnar í samráði hennar við aðila vinnumarkaðarins sem hæstv. forsrh. lýsti yfir fyrir lok sl. árs að hann ætlaði að hefja þá þegar, hafði að vísu ekki þá á takteinum hver væri umræðugrundvöllur ríkisstjórnarinnar. En nú sýnist eftir nálægt þrjá mánuði að hæstv. ráðherra ætti að hafa haft tóm til þess að hugsa hvað hann vildi að ríkisstjórnin legði fram og þegar ljóst er að kjarasamningar eru komnir á það stig sem raun ber vitni um og aðilar vinnumarkaðarins eru búnir að birta fyrir sitt leyti það sem þeir telja vera nauðsynlegan grundvöll í slíku samráði, að þá geri hæstv. forsrh. grein fyrir því. Ég hef dregið hér fram spurningarnar um það hvort þar komi til krafan um hækkun á skattleysismörkum, krafan um breytingu á vörugjöldum sem bæði hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hafa gefið forustumönnum Landssambands iðnaðarmanna fyrirheit um, en hæstv. fjmrh. hefur engu svarað. Jafnframt hvort í þessum grundvelli verði þær kröfur, sem fram hafa komið af hálfu launþegasamtakanna, að búvöruverð verði óbreytt sem mun kosta nokkur hundruð millj. ofan á þær tæpu 700 millj. sem vantar á fjárlögin til þess að ríkisstjórnin geti staðið við þá ákvörðun sem hún hefur tekið í þeim efnum. Og hvort inn í þetta geti komið aðrar umræður um breytta skatta í þágu atvinnufyrirtækjanna en það hefur verið dregið fram hér í þessari umræðu að skattabreytingar ríkisstjórnarinnar komu með mestum þunga niður á fiskvinnslufyrirtækin í landinu.
    Ég vil ítreka þessar spurningar og vænta góðra svara af hálfu hæstv. forsrh. við þeim.