Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Hv. þm. vísaði til þess að ég sagði hér á þingi þegar þing kom saman aftur, og hafði reyndar sagt það í desember, að ríkisstjórnin mundi reiðubúin til þess að ræða við aðila vinnumarkaðarins um kjara- og efnahagsmál á breiðum grundvelli. Ég hef átt fjölmarga fundi með forustumönnum sérstaklega launþega, bæði opinberra starfsmanna og einnig innan vébanda ASÍ. Ég hef einnig átt fundi með fulltrúum vinnuveitenda. Sumir þessir fundir hafa verið með mér einum, en á mörgum þessum fundum hafa einnig verið hæstv. fjmrh. og viðskrh., og í fjarveru þeirra þá aðrir ráðherrar.
    Á þessum fundum höfum við lagt áherslu á að við værum tilbúnir að ræða öll þau mál sem hafa komið fram í samþykktum aðila vinnumarkaðarins og þar á ég þá að sjálfsögðu fyrst og fremst við launþega því að samþykktir hafa ekki komið eins frá hinum þótt sannarlega hafi þeir vakið athygli á erfiðri stöðu atvinnuveganna.
    Hv. þm. taldi að þetta hefði dregist. Það hefur ekki dregist af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við áttum fund með forustu ASÍ strax og hún tjáði sig reiðubúna til að halda slíkan fund. Sá fundur var haldinn föstudaginn fyrir um það bil 10 dögum eða annan föstudag hér frá litið aftur í tímann. Á þeim ágæta fundi, þar sem farið var yfir breitt svið, var sérstök áhersla lögð á það af hálfu fulltrúa ASÍ að ræða atvinnuöryggi, að ræða jöfnun lífskjara, að ræða verðlagsmál og vaxtamál. Þessir fjórir málaflokkar voru sérstaklega ræddir þar þótt minnst væri á fjölmarga fleiri eins og t.d. hugsanlegar aðgerðir í félagsmálum, bæði fyrir þá hópa sem búa við lakari kjör, eins og t.d. einstæða foreldra, þroskahefta o.s.frv.
    Á þeim fundi var boðið upp á það að myndaðir yrðu viðræðuhópar um þá málaflokka sem ASÍ óskaði eftir. Eftir að sá fundur var haldinn gerðist það, eins og allir þekkja, að ASÍ, VSÍ og Vinnumálasamband samvinnufélaganna ákváðu að setjast niður og freista þess að gera samning. Að þeirra ósk frestaðist það því að ríkisvaldið kæmi inn í þessa vinnuhópa. Það stendur að sjálfsögðu opið enn. Við höfum átt fundi með bæði vinnuveitendum og fulltrúum ASÍ eftir að þessar viðræður hófust. Þær hafa verið mjög almenns eðlis og það hafa engar kröfur komið fram frá hvorugum aðilanum. Þeir hafa gert grein fyrir stöðu mála, mjög þröngri stöðu atvinnulífsins, ekki síst fiskvinnslunnar en reyndar iðnaðarins líka. Það hafa engar kröfur komið fram. Þeir hafa vakið athygli á því að breyting verður á kjörum frystingarinnar þegar greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði lýkur. Þeirri greiðslu lýkur ekki að öllum líkindum fyrr en í byrjun júlí. Það virðist vera að þær 750 millj. sem voru útvegaðar í frystideild Verðjöfnunarsjóðs muni endast til þess tíma. Kunnáttumenn á þessu sviði telja að á vormánuðum muni verða hækkun á fiskverði erlendis vegna mjög mikils samdráttar í afla í Evrópu og að sjálfsögðu er þess beðið að það komi betur í ljós þó að það séu vissulega merki um það.
    Ég held að ég megi fullyrða að allar þessar

viðræður hafi verið mjög jákvæðar. Ég vek athygli á því að forseti ASÍ sagði í fjölmiðlum, þegar ákveðið hafði verið að ósk ASÍ að fresta frekari viðræðum um kjaramál fram yfir páska, að hann hefði ekkert undan viðbrögðum ríkisstjórnarinnar að kvarta í þessu sambandi, enda eins og ég segi voru þessar viðræður mjög almennar og ekki komu fram neinar beinar kröfur.
    Í raun get ég ekki sagt meira á þessu stigi um málið. Ég vísa því fremur til fjmrh. sem hv. þingmaður kann að vilja ræða um málefni opinberra starfsmanna og vona að ég hafi þá svarað eins og ég get þeim spurningum sem fram komu hjá hv. þingmanni.