Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Fyrir lok 2. umr. gerði ég tvær greinar þessa frv. sem hér er á dagskrá að umtalsefni, þ.e. 28. og 29. gr. frv. Við þessar tvær greinar, sem fjalla sú hin fyrri um skerðingu á jarðræktarframlögum og hin síðari um niðurfellingu á framlögum til búfjárræktar, voru fluttar brtt. á þskj. 637 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Mér þóttu þessar brtt. óljósar, óskaði eftir því að þær væru skýrðar, og lagði til að þær væru kallaðar til baka til 3. umr. þannig að það mætti þá koma í ljós hvað þessi texti sem þar er á blað festur þýddi. Og ef svo kynni að fara að eitthvað verulega stæði á bak við þennan texta þá sæju auðvitað allir að það væri hægt að fella þessar tvær greinar frv. niður, þ.e. 28. og 29. grein.
    Síðan hefur það gerst í meðferð þessara mála að hæstv. ríkisstjórn og stuðningslið hennar hefur farið heilan hring á nokkrum klukkutímum. Í fyrsta lagi með því að kalla til baka þær brtt. við 28. og 29. grein á þskj. 637 með því að hæstv. landbrh. flytur nýja tillögu og hæstv. landbrh. flytur síðan aðra tillögu, þ.e. tillögu sem er ljósprentuð upp með breyttu orðalagi. Síðan gerist það að báðar þær útgáfur af tillögu hæstv. landbrh. eru dregnar til baka og tillagan eins og hún er í síðustu útgáfu á þskj. 637 er flutt að nýju. Þar með var hringnum lokað og á örfáum klukkutímum fór stjórnarliðið hér í þessari hv. þingdeild heilan hring.
    Undanfari þess hringsóls var, eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Suðurl., að brtt. á þskj. 637 höfðu verið fluttar, þær höfðu verið prentaðar upp og þær höfðu verið endurprentaðar upp. Allt gefur þetta til kynna að hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar hér í hv. deild séu ekki mjög ákveðnir í því hvert halda skuli, það hafi a.m.k. vafist fyrir þeim frá einum degi til annars og frá einum klukkutíma til annars, jafnvel frá einum tíu mínútum til næstu tíu mínútna, hvernig skuli móta brtt. við þessar tvær greinar frv. sem ég gerði að umtalsefni í lok 2. umr.
    Nú er það svo að hv. 1. þm. Norðurl. v., frsm. og formaður fjh.- og viðskn., mælti fyrir endurfluttri brtt. við 28. og 29. gr. við þessa umræðu og sannast sagna var ekki ákaflega mikið á þeirri framsögu að græða.
    Ég vil rifja það upp, sem ég gerði raunar við 2. umr., að í fjárlögum er gert ráð fyrir 100 millj. kr. til jarðræktarframlaga. Og á fjárlögum er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu vegna búfjárræktarframlaga. Lánsfjárlagafrv. kveður á um það eins og það er flutt upphaflega að framlögin skuli samkvæmt þessu skert varðandi jarðræktarframlög og að búfjárræktarframlög séu felld niður. Við þær brtt., sem hér eru enn endurfluttar, segir textinn, með leyfi hæstv. forseta, að við bætist nýr málsl. er orðist svo: ,,Þó er fjmrh. heimilt, að höfðu samráði við landbrh. og fjárveitinganefnd Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.``
    Sambærilegur texti er varðandi 29. gr. er varðar búfjárræktarlög. Nú hlýt ég að endurtaka mína spurningu: Hvað þýðir þessi texti? Þýðir þessi texti að

þessi framlög verði greidd á þessu ári? Ef sá er skilningur og það er túlkun hv. frsm. og formanns fjh.- og viðskn., þá vil ég að það sé sagt hér berum orðum. Og sé það svo að það sé túlkun nefndarinnar á þessum texta, þá liggur það alveg ljóst fyrir að það ber að fella niður skerðingarákvæðin í upphaflegum 28. og 29. gr. Allt annað væri óþinglegt og farið gjörsamlega aftan að siðum við meðferð mála hér á hinu háa Alþingi eins og hv. þm. Ingi Björn Albertsson benti réttilega á. Ef það er á hinn bóginn ekki meiningin að borga þessa peninga út sem bændur eiga, þá er þetta tilgangslaust yfirvarp að engu hafandi. Þess vegna tel ég það afar nauðsynlegt áður en þessari umræðu lýkur að fá við þessu skýr svör og það er enginn til þess fær frekar að flytja þau svör en hv. formaður og frsm. þeirrar nefndar, fjh.- og viðskn., sem um málið hefur fjallað hér í hv. deild. Ég fagna því að hann skuli vera hér viðstaddur.
    Það er svo einn þáttur þessa máls að hér er settur upp óvenjulegur texti að því leyti að veitt er heimild fyrir því að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988, þ.e. að semja við bændur um framlög sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt. Það er mjög óvenjulegt að gera ráð fyrir því í lagatexta að samið sé um það sem einhver aðili í þjóðfélaginu á lagalegan rétt til. Og ég held að það verði býsna erilsamt hjá hæstv. fjmrh., hæstv. landbrh. og hjá hv. fjvn. að kalla til sín 3000--4000 bændur til slíkra samninga. Allir sjá að þetta er vitleysa. Þetta gengur ekki.
    Ég hefði auðvitað tilefni til þess að fara um þetta mörgum fleiri orðum en mér leikur mikil forvitni á að heyra svör hv. þm. Páls Péturssonar. Séu þau á þann máta að þessi framlög verði greidd samkvæmt þessum lagatexta þá er jafnljóst að við þurfum að gera nýtt hlé á þessari umræðu til þess að gefa færi á því að flytja nýja brtt. til þess að fella út skerðingarákvæðin í 28. og 29. gr. þannig að þá gefst okkur tækifæri til að halda þessari umræðu áfram.
    Ég vænti þess og vonast auðvitað fastlega eftir því að niðurstaða nefndarinnar sé sú að þannig verði á málum haldið. Ég heiti fullum stuðningi
mínum við það að fella niður þau skerðingarákvæði sem hér hafa verið sett í upphaflegt frv. í 28. og 29. gr.
    Ég dreg það enn fram að við meðferð þessara mála í fjvn. Alþingis og við afgreiðslu fjárlaga þá ræddum við þetta mál mjög ítarlega fulltrúar stjórnarandstöðunnar og gagnrýndum harðlega hvernig þessi mál væru sett fram í þeim þingskjölum. Sú gagnrýni varð til þess að birt var loðin yfirlýsing frá hæstv. ríkisstjórn við 3. umr. fjárlaga eins og hér hefur í umræðum verið vitnað til. Nú er það væntanlega komið fram að hæstv. ríkisstjórn og hennar liðsmenn hér í þessari hv. deild treysta sér ekki til annars en að láta bændur búa við lög í þessum efnum og þá getum við hrundið þeim skerðingarákvæðum sem 28. og 29. gr. fela í sér.
    Herra forseti. Ég hefði fulla ástæðu til þess að fjalla um þetta frv. í heild sinni og í ýmsum atriðum,

a.m.k. í mörgum atriðum. Ég gerði það lítillega við 1. umr. Hér hefur verið ítarleg umræða í dag, sem ég hef nú ekki getað fylgst með nema að hluta, en ég mun láta það liggja á milli hluta til þess að drepa ekki á dreif þeim þýðingarmiklu skýringum, sem ég á von á frá hv. 1. þm. Norðurl. v., að fara að fjalla um önnur atriði þessa máls, sem í heild sinni er vitaskuld allt hið þýðingarmesta, sem eru lánsfjárlög fyrir þetta ár. Og það lánsfjárlög, sem eru ekki neitt smásmíði, sem mér sýnist að feli í sér heimildir til lántöku fyrir ríkissjóð, opinbera sjóði, sveitarfélög og hálfopinber fyrirtæki sem nemi líklega allt að 40 milljörðum kr., eða sem svarar hálfum fjárlögum ríkisins. Það er ekkert smásmíði. Og það er vitaskuld ástæða til þess að slík lánsfjárlög séu ítarlega rædd þó nokkuð sé liðið á kvöld. En ég læt það liggja á milli hluta og drep ekki þessu máli á dreif, heldur vænti svara frá hv. 1. þm. Norðurl. v.