Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Af því að hæstv. forsrh. er svo vinsamlegur að vera hérna, þá má ég til með að sýna honum nýtt fréttabréf um verðbréfaviðskipti frá Samvinnubanka Íslands sem ég komst yfir í dag. Þar stendur á forsíðu: ,,Raunvextir lækka ekki með einfaldri samþykkt ríkisstjórnarinnar.`` Þetta er nú ansi fróðlegt plagg og með því betra sem ég hef séð um efnahagsmál. Þar er nefnilega tekið á kjarna málsins sem ómögulegt er að fá ræddan hér. Ein setning úr þessu ágæta fréttabréfi: ,,Til þess að raunvextir lækki þarf að byrja á því að ákveða fjárlög og áætla erlendar lántökur og peningaframboð í landinu í heild með tilliti til þess að heildareftirspurn í þjóðfélaginu sé í samræmi við heildarframboð þannig að ákveðnu markmiði í verðlagsmálum sé náð.`` Svo einfalt er það.
    Ég spyr hæstv. fjmrh. að því hvort einhver athugun hafi farið fram á því hvað heildarframboð af fjármunum sé mikið. Kannski getur hæstv. forsrh. upplýst okkur um það. Hefur einhver athugun farið fram á því hvort það verði samræmi í heildareftirspurn og heildarframboði á lánsfjármarkaði?
    Það er með ólíkindum að menn skuli á Íslandi árið 1989 ætla að leggja niður vestrænar aðferðir við hagstjórn. Og taka hvað upp? spyr ég. Hvað er það sem á að taka upp í staðinn? Á að fara að sanna hér einhver ný efnahagsundur af þessari hæstv. ríkisstjórn? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að fara að láta vatnið renna upp í móti? Fáum við að vita það á morgun?
    Heildareftirspurn eftir lánsfé á Íslandi er alltaf langt umfram heildarframboð. Þess vegna eru vextir allt of háir. En þetta vilja menn ekki ræða. Seinast í fyrrnefndri grein í sambandi við vextina stendur: ,,En það er einmitt þess vegna sem svo mörgum stjórnmálamönnum er illa við markaðinn. Það er erfitt fyrir þá að ráða yfir honum og ákveða með lögum að hann skuli lúta vilja þeirra.`` Það var nefnilega ákveðin 10% aflaskerðing um áramótin. Það hlýtur að draga stórkostlega úr framboði á lánsfé því að það er heilmikill fastur kostnaður við rekstur fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækja. Það er breytilegur kostnaður og fastur kostnaður. Fastur kostnaður breytist ekki þannig að það minnkar framboð. Hefur þetta verið athugað? Hvað minnkar mikið framboð við það að þorskaflinn dregst saman um 10%? Hefur verið athugað hvað skattahækkanirnar sem ákveðnar voru um síðustu áramót hafa áhrif á minnkandi framboð á peningum? Hvaða áhrif hefur það að minnka peningaframboð í landinu? Hafa menn hugmynd um það hvað þeir eru að gera? Ég bara spyr.
    Greiðsluhalli er og eiginfjárrýrnun í undirstöðufyrirtækjum landsmanna, sjávarútvegi, útflutnings- og samkeppnisiðnaði. Það þarf að fjármagna þennan halla. Hallarekstur í framleiðslunni er fjármagnaður með vanskilum og nýjum lánum. Og hvaða áhrif hefur það á heildareftirspurn eftir lánsfé? Allt eykur þetta eftirspurn eftir lánsfé. Hvaða áhrif hefur nýja húsbréfafrv.? Hvaða áhrif hefur það á heildareftirspurn? Hefur einhver athugað það? Og

hvaða áhrif hefur bindiskylda á lífeyrissjóðina á heildareftirspurn? Og þvingað fjárstreymi eins og ákveðið er í lánsfjárlögum? Hvaða áhrif hefur síðan áframhaldandi taprekstur undirstöðuatvinnugreinanna sem soga til sín fjármagn? Hvaða áhrif hefur það? Er ekki kominn tími til að menn staldri við og reyni að finna út hvar þeir eru staddir? Menn komast aldrei á áfangastað ef þeir hafa ekki hugmynd um hvar þeir eru staddir.
    Menn tala um að lækka vexti. Nú hækka þeir vikulega. Aðalmarkmið þessarar ríkisstjórnar var að lækka fjármagnskostnað og vexti. Nú hækka þeir vikulega. Það sýnir það að sjúklingurinn verður ekki læknaður af 41 stigs hita og óráði með því að dýfa honum ofan í kalt vatn þangað til mælirinn sýnir 37.
    Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. forsrh. vill upplýsa það hvort leitað hefur verið eftir svörum við þessum spurningum áður en lánsfjáráætlun er endanlega samþykkt. Fer ekki fram nein fagleg vinna í sambandi við lánsfjáráætlun? Ákveða menn þetta bara út í loftið, svona í þykjustunni? Ég verð að segja það að þessi dagur er búinn að vera fróðlegt upplifelsi. Hafði ég grun um það að þetta væru ekki allt of fagleg vinnubrögð við lánsfjáráætlun og reksturinn á ríkissjóði. En það sem maður hefur orðið vitni að hér í dag er mun verra en maður gat nokkurn tíma ímyndað sér.