Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við 2. umr. þessa máls fluttum við kvennalistakonur brtt. við frv. sem fram kemur á þskj. 634. Þar lögðum við til að II. kafli frv. félli brott en sú tillaga var felld. Við höfum því ákveðið að flytja brtt. við þessa umræðu málsins við nokkrar greinar frv. sem eru í þessum II. kafla sem við lögðum til að yrði felldur brott.
    Það er í fyrsta lagi brtt. við 22. gr. en sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum eigi nema hærri fjárhæð en 28.000 þús. kr. á árinu 1989.``
    Við leggjum til að í stað 28 millj. komi 50 millj. Einnig leggjum við til að nýr málsliður komi inn í þessa grein sem orðist svo: ,,Upphæð þessari skal varið til umhverfismála.`` Við teljum að allt of litlu fé hafi verið varið til umhverfismála og teljum að stærri hluta af því sem Ferðamálasjóður fær til umráða skuli vera varið til umhverfismála. Fjárveiting til Ferðamálasjóðs hefur eingöngu nægt til kynningar, en það þýðir lítið að vera að kynna landið og auglýsa landið til ferðalaga ef ekki er hugsað um að bæta umhverfið. Það þarf ekkert að tíunda það hér hversu ástandið er alvarlegt á mörgum ferðamannastöðum á landinu og er tómt mál að tala um að vera að laða hingað fólk því að það eina sem gerist er að það verður meiri eyðilegging en nú þegar er orðin. Þess vegna höfum við lagt til þessa brtt.
    Við leggjum einnig til að 26. gr. frv. falli brott, en í þeirri grein er lagt til að heildarframlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði skert. Við kvennalistakonur höfum margoft talað um það og lagst gegn þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá upphafi að ráðstafa lögboðnu framlagi ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs og höfum mótmælt því æ ofan í æ með þeim rökum að þessi sjóður væri eign launafólks sem ekki mætti hrófla við og auk þess sérstaklega varhugavert með tilliti til atvinnuástandsins. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar töldu þessa ráðstöfun hins vegar rétta einmitt með tilliti til atvinnuástandsins þar eð fjármagnið færi til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Staðreyndirnar tala sínu máli. Talað hefur verið um að í maílok verði ráðstöfunarfé sjóðsins uppurið þannig að þá er erfitt að sjá hvers vegna þarf að leggja til að framlagið skerðist þar sem ríkissjóður hlýtur að koma þarna til með framlag ef þær spár rætast að fé sjóðsins verði uppurið í maí.
    Við leggjum einnig til að 27. gr. frv. falli brott, en sú grein varðar framlag eða reyndar tekjur Ríkisútvarpsins. Við leggjum til að tekjur Ríkisútvarpsins verði samkvæmt lögum, þ.e. að aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renni til Ríkisútvarpsins en ekki til ríkissjóðs eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum. Það þarf varla að fara mörgum orðum um þetta, svo oft sem við höfum talað um það hér á Alþingi. Það er vandséð hvernig Ríkisútvarpið á að geta sinnt þeim

margvíslegu skyldum sem á það eru lagðar með því að skerða stöðugt tekjur þess.