Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherrum fyrir þau svör sem þeir gáfu hér í umræðunni, sérstaklega að hæstv. forsrh. skyldi hér undir miðnætti gefa sér tíma til að taka þátt í þessari umræðu. Hjá hinu fer þó ekki að svör hæstv. ráðherra ollu verulegum vonbrigðum. Þeir staðfesta m.ö.o. að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn mótað neina stefnu af sinni hálfu varðandi það mikilvæga samráð sem hæstv. forsrh. lýsti undir lok síðasta árs að ætti að hafa af hálfu ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að í engu atriði hefur hæstv. ríkisstjórn mótað stefnu af sinni hálfu að því er varðar þetta samráð. Engum spurningum, sem fram hafa komið í fjölmiðlum af hálfu aðila vinnumarkaðarins, var svarað í þessari ræðu. Sérstaka athygli vakti að hvorki hæstv. forsrh. né hæstv. iðnrh. hafa svarað fyrirspurnum um það hvort yfirlýsingar þeirra gagnvart forustumönnum Landssambands iðnaðarmanna um vörugjaldið hafi við rök að styðjast eða ekki. En í nýútkomnu fréttabréfi Landssambands iðnaðarmanna er vitnað í yfirlýsingar þessara tveggja hæstv. ráðherra og fram tekið að þeir hafi með ótvíræðum hætti gefið fyrirheit um að breytingar yrðu gerðar á vörugjaldinu, ekki bara framkvæmd á innheimtu þess, heldur á skattheimtunni sjálfri til hagsbóta fyrir íslenskan iðnað.
    Það hefur verið gengið eftir því hvort forustumenn iðnrekenda í landinu hafi skilið ráðherrana rétt eða hvort þeir hafi misskilið þá eða hvort ráðherrarnir ætli að koma sér undan því að efna þessa yfirlýsingu. En það hefur líka komið fram í Þjóðviljanum í dag að þetta er eitt af þeim atriðum sem starfshópur á vegum aðila vinnumarkaðarins hefur talið að ættu að liggja til grundvallar í samráðsviðræðunum. En það vekur auðvitað athygli að hvorugur þessara hæstv. ráðherra hefur á nokkurn hátt getað fjallað um þessa yfirlýsingu eða skýrt hvað þar liggur að baki.
    Um yfirlýsingu hæstv. félmrh. er fátt að segja. Það var sannarlega ekki mikill sannfæringarkraftur í stuðningi hennar við málsmeðferð hæstv. fjmrh., en það vekur líka sérstaklega athygli sem hæstv. félmrh. upplýsti að hæstv. fjmrh. hefði verið falið að annast málið í samráði við hæstv. viðskrh. en ekki hæstv. félmrh. sem fer þó með hagsmunagæslu gagnvart Byggingarsjóði ríkisins og er auk þess vinnumarkaðsráðherra. En af einhverjum orsökum hefur Alþfl. teflt fram öðrum ráðherra í þessum viðræðum. Augljóst er þó af þessum yfirlýsingum að hæstv. ríkisstjórn hefur engar ráðstafanir gert til þess að mæta fyrirsjáanlegum vanda byggingarsjóðanna í þessu efni. Hæstv. ríkisstjórn hefur engar línur lagt til þess að greiða úr þeim ógöngum sem samskiptavandamál ríkis og lífeyrissjóða eru komin í eftir gerræðisákvarðanir hæstv. fjmrh. Þetta stendur óhaggað eftir ræðu hæstv. félmrh. og ég þykist þess alveg fullviss að hæstv. félmrh. beri meiri umhyggju fyrir húsbyggingarsjóðunum í raun og veru en fram kom í stuðningsræðu hennar við hæstv. fjmrh.
    Niðurstaðan er enn þessi: Hæstv. ríkisstjórn hefur

ekki náð neinum tökum á ríkisfjármálunum. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki getað svarað neinum spurningum um stöðu þeirra. Hæstv. forsrh. hefur ekki getað fest neitt upp á andlit hæstv. fjmrh. í þeim efnum og engum spurningum svarað með skýrum hætti um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í því samráði sem nú stendur fyrir dyrum við aðila vinnumarkaðarins.