Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hv. þm. Páll Pétursson sagði hér að úr því yrði skorið samkvæmt þessum texta hvernig og hvenær greidd yrðu þau framlög sem bændur eiga samkvæmt lögum og hér hefur verið fjallað um. Þótt orð hans væru óljós hlýt ég að meta þetta sem svo að það sé hans meining að þessir fjármunir verði greiddir.
    Hv. þm. sagði að ég hefði verið með útúrsnúninga og getsakir og hann mundi segja frá því eða rifja það upp í okkar kjördæmi. Það er honum að sjálfsögðu velkomið. Hann hefði eins átt að taka eftir því að ég var einmitt að hjálpa honum til þess að koma hér á framfæri nógu skýlausum skýringum á þessum texta og geri honum hátt undir höfði með því að láta það koma alveg skýrt fram í ræðu minni hér áðan að ég tæki meira mark á því sem hann segði í þessum ræðustól en nokkur annar í þinginu vegna þess að hann væri formaður þessarar nefndar sem um málið hefði fjallað og þess vegna giltu hans orð. Hann átti því að bregðast afskaplega vel við og vera mér þakklátur fyrir hvað ég gerði sér hátt undir höfði en ekki að setja undir sig hausinn og vera með hálfgert hnot í mig fyrir þetta. Það var mjög einkennilega að verki staðið. Hann þarf líka sjálfsagt að rifja upp fyrir sér hvernig er bein lína í meðferð mála og hvernig hringurinn er. Hann hefur eitthvað ryðgað í þeim fræðum.
    Ég vil hins vegar þakka fremur hv. 1. þm. Vesturl. fyrir hans túlkun á þessu máli, sem var býsna afdráttarlaus, og miklu afdráttarlausari en túlkun hv. þm. Páls Péturssonar. Hv. þm. Alexander Stefánsson sagði: Það verður staðið við greiðslur sem bændur eiga rétt á og til þess þarf fjármagn. Hann tók líka réttilega fram að ný lög taka ekki af rétt manna samkvæmt eldri lögum. Þetta er auðvitað hárrétt.
    Ég lít því svo til að það sé a.m.k. vilji hv. þm. Alexanders Stefánssonar og ekki annað að skilja en einnig hv. formanns fjh.- og viðskn. að gert verði upp samkvæmt þeim klúðurslega lagatexta sem er settur á blað í brtt. við greinar nr. 28 og 29, en það þýðir jafnframt að það er ekki þinglegt að þessar greinar hefjist á skerðingarákvæðum. Og hvort sem ríkisstjórnarliðið samþykkir það þannig eða ekki held ég að allir hljóti að viðurkenna að það er ekki þinglegt heldur ætti texti greinanna að hefjast með orðunum ,,Fjármálaráðherra er heimilt`` o.s.frv. Það hefur oft gerst að framlög samkvæmt lögum eru ekki að fullu greidd á því ári sem til stendur og þarf kannski að grípa til þess að draga eitthvað af því til næsta árs og það hefur gerst í þessum efnum og til þess þarf engin skerðingarákvæði. Ég beini því þess vegna til ríkisstjórnarliðsins að rétt meðferð þessara mála væri sú, ef þið viljið hafa þann texta sem hér er settur upp, að þá hæfist greinin með þessum orðum: ,,Fjármálaráðherra er heimilt`` o.s.frv.