Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa aflað sér svara við þeim spurningum sem ég lagði fram, en ég óska eftir að forseti nafngreini þá aðila sem komust að þessari niðurstöðu við þessar umræður til þess að þeim geti lokið því að það fer ekkert á milli mála í mínum huga að hér er verið að skilyrða framkvæmdarvaldið, hér er verið að skilyrða lántökur og störf fjmrh. sem ég sé ekki að sé heimilt eftir þeim leiðum sem farnar eru í þessu tilfelli. Ég óska eftir því að þeir sérfróðu menn sem komust að þessari niðurstöðu verði nafngreindir til þess að þeirra nöfn séu skráð í þingsöguna. Ég mun að sjálfsögðu leita mér upplýsinga sjálfur sem þingmaður úr því að ég fæ ekki svör sem fullnægja mér sem slíkum. Mér þætti leitt ef sú vinna mín gæti hugsanlega orðið til þess að störf Alþingis yrðu að hluta gerð ómerk. Það segir sig sjálft að það er það sem skeður ef það reynist rétt sem ég hef farið með hér. Ég óska eftir því og tel það nægja mér í bili að þeir sem hafa komist að þessari niðurstöðu og forseti gat um verði nafngreindir á sama hátt og ég sem fyrirspyrjandi er nafngreindur.