Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég stend upp til að þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál, bæði í dag og eins þær umræður sem urðu fyrir helgi, sl. föstudag, um þetta mál. Ég held að í heildina tekið sé óhætt að segja að þetta mál hafi fengið jákvæðar umræður hér og umfjöllun við þessa umræðu og þó að ýmsir hafi haft ákveðna fyrirvara við einstök atriði í frv. og vilji fá nánari skýringu á því við umfjöllun málsins í nefnd og í þinginu tel ég að í heild tekið megi segja að umræðurnar hafi verið jákvæðar og gefi vonir um að frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.
    Fram kom ákveðin fyrirspurn frá hv. 1. þm. Suðurl. sem ég svara. Hann ræddi nokkuð um kaupskyldu lífeyrissjóðanna og taldi nauðsynlegt að hún lækkaði samfara því að það yrði tekið upp húsbréfakerfi. Ég er sammála því sem liggur að baki því sem hv. þm. ræddi um. Hv. þm. taldi um það frv. sem nefndin skilaði af sér og hafði að geyma ákvæði um að kaupskyldan skyldi lækka úr 55% í 47% að breyting sem var gerð þegar málið var lagt inn í þingið væri ekki til bóta. Hún fól það í sér að lífeyrissjóðunum væri heimilt að uppfylla að hluta til kaupskyldu sína með kaupum á húsbréfum.
    Ég held að í því samkomulagi sem gert hefur verið á milli stjórnarflokkanna sé gengið lengra en upphaflegt frv. gerði ráð fyrir og nefndin skilaði af sér, þ.e. að lífeyrissjóðirnir megi uppfylla kaupskyldu sína með 10% af þessum 55%. Ég tel að hér sé að hluta til lengra gengið. En að öðru leyti er um það ákvæði í 1. gr. frv. að um það verði settar nánari reglur hvernig lífeyrissjóðirnir geti uppfyllt þessa kaupskyldu sína með húsbréfum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta lengra mál. Ég mun sjá til þess að nefndin sem fær málið til umfjöllunar fái ýmis gögn sem unnin hafa verið í þessu máli, m.a. um áhrif húsbréfakerfisins á fasteigna- og peningamarkaðinn. Að öðru leyti, herra forseti, þakka ég þær umræður sem hafa orðið um þetta mál.