Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir málefnalega ræðu og skýringar. Ég geri mér reyndar fullkomlega ljóst að hann er í þeirri stöðu að verða frekar að tala niður öldurnar en færa þær upp við lokaafgreiðslu þegar tími er orðinn þröngur. Eigi að síður komu fram nokkur ákaflega athyglisverð efnisatriði í ræðunni sem ég má til að fara fáeinum orðum um.
    Það er hárrétt, sem hæstv. landbrh. sagði, að hjá fyrrv. ríkisstjórn var viðskilnaðurinn ekki til fyrirmyndar í þessum efnum og breytir þar engu um þótt ég hafi ekki stutt hana í þeim áformum. Ég var stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar, en ég var ekki stuðningsmaður og ekki í því föruneyti sem hafði í frammi sérstaka aðför að bændum landsins og íslenskum landbúnaði við fjárlagagerðina fyrir síðasta ár, árið 1988. Ég var ekki með í þeirri för. Það er óhagganleg staðreynd að þá vannst, miðað við þá uppsetningu, mikilvægur varnarsigur fyrir þessum málefnum, enda hefur það verið yfirlýst af núverandi hæstv. utanrrh. að þá hafi komið fyrstu brestirnir í stjórnarsamstarf fyrrv. ríkisstjórnar. Það haggar ekki því að þetta var vondur viðskilnaður.
    Ég veit ekki hvort það verður skilið svo, en það er alls ekki ætlan mín að það sé sérstaklega til málsbóta í þessum efnum, en þá var þó fjárlagatalan 141 millj. Fjárlagatalan fyrir árið 1988 var 141 millj. kr. Ef það hefði verið sama fjárlagatala í ár miðað við uppfærslu verðlags á milli ára hefði þessum vanda verið eytt. En fjárlagatalan fyrir þetta ár var lækkuð um 41 millj. og til viðbótar kippt út úr öllum verðlagsáhrifum á milli ára. Þannig tapaðist það sem vannst þó við fjárlagagerðina fyrir 1988. Þar var þó um hækkun að ræða í meðförum fjvn. og Alþingis sem gerði að verkum að menn þurftu að snúa af þeirri braut. Nú var þetta allt saman fært niður. Breytingin er sú að ef við værum inni með tölur fjárlagafrumvarpanna eins og þau hafa verið á sl. árum væri þarna ekki um neinn vanda að ræða.
    Ég gat þess áðan að ég ætlaði ekki að fjalla hér sérstaklega um jarðræktarlagafrv. hæstv. landbrh. og það kom mér satt að segja ofurlítið á óvart að hann skyldi gera það sérstaklega að umtalsefni eins og hann gerði hér þegar við ræddumst við fyrr á þessum vetri.
    Nú sagði hæstv. landbrh. að áherslurnar væru breyttar og það er alveg hárrétt, bændur eru búnir að breyta öllum áherslum. Það haggar ekki því að það getur þurft að haga verkum með ýmsum hætti. Það koma fyrir þær aðstæður að það er betra að brjóta ný tún en rækta gömul tún og það kemur líka fyrir að það taki yngri menn við af eldri mönnum. Það gerist sem betur fer enn í dag og þá eru ekkert ólíkar aðstæður fyrir hendi og þegar ég var ungur maður austur í Hornafirði og hæstv. landbrh. var ungur maður norður í Þistilfirði. ( Landbrh.: Ég var ekki fæddur þegar þú varst ungur.) ( KP: Þetta er ekki sambærilegt.) Það er algerlega sambærilegt að því leyti að þessi þörf hefur náð yfir allt þetta tímabil svo menn skilji orð mín og þessi þörf er enn þá fyrir

hendi ef menn vilja horfa til ungra manna í íslenskum landbúnaði. Það er þetta sem ég gagnrýni sem slíkt, þegar menn horfa ekki til nauðsynlegrar þróunar og þegar menn er að gera nýrri kynslóð stórlega erfiðara fyrir en þeirri sem á undan hefur gengið. Það sjá allir til hvers það leiðir. Það er svo hárrétt hjá hæstv. landbrh., og satt að segja hélt ég að við þyrftum kannski ekki að vera svo óskaplega ósammála í þessum efnum, að það eru allt aðrar almennar áherslur. Það er hins vegar fyrir hendi sama þörfin. Hún er bara í miklu, miklu, miklu minna mæli og það skiptir máli að menn skilji þetta.
    Nú liggur fyrir að hæstv. landbrh. gerir því skóna að skuldirnar verði ekki greiddar á þessu ári. Það er hins vegar ánægjuefni að ráðherrann ætlar að taka upp viðræður við flokksbróður sinn. Hins vegar er ómögulegt að sleppa því fram hjá sér hér hvort það er þá það, sem er vangoldið frá árinu 1987 og engar heimildir eru hér fyrir að greiða og búið er að ráðstafa fjármagni þannig að ekki eru heldur til peningar, sem á að standa út af. Heimildirnar, ef þessi viðbótartillaga veitir einhverjar heimildir, ná ekki til ársins 1987. Með því að hæstv. landbrh. hefur nú lýst því yfir eða látið orð að því liggja að reikningar verði ekki að fullu uppgerðir á þessu ári verð ég að fá svör við því hvort það eigi ekki að greiða þeim sem unnu framkvæmdirnar árið 1987. Það hefur verið farið yfir það að allt frá 1923, þegar jarðræktarlögin voru fyrst samþykkt sem einhver allra merkasta lagasetning í tengslum við íslenskan landbúnað, kannski hefur íslenska þjóðin ekki alltaf verið miklu ríkari en hún er núna, þá hafa alltaf verið greidd jarðræktarframlög eins og jarðræktarlög hafa sagt til um. Því er það æðimikil breyting ef nú á að taka um það sérstakar ákvarðanir að skjóta slíkum greiðslum aftur um a.m.k. tvö ár. Við þessu tel ég að ég eigi þinglegan rétt, herra forseti, á að fá skýr svör.