Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég tel þessa skýringu fullnægjandi eins og hún er orðuð. Það vantar hins vegar þarna á um 19 millj. kr. Hins vegar gat hæstv. landbrh. þess eins og er alveg hárrétt að þetta er ekki svo há tala að hana megi ekki greiða með öðrum hætti, t.d. lántöku. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að heimildir til þess hefur Alþingi ekki gefið þótt þessi lánsfjárlög verði samþykkt vegna þess að heimildirnar ná aðeins til ársins 1988. Það vantar hins vegar 19 millj. Þegar það er komið sem er á fjárlögum vantar enn 19 millj. til að gera upp skuldir frá fyrra ári og ég met orð hæstv. landbrh. svo að það verði fundnar til þess aðrar aðferðir að greiða það sem gerir það þá að verkum að þar þarf ekki að vera um frekari vanskil að ræða.