Lánsfjárlög 1989
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég hef oft vakið máls á því þegar lánsfjárlög hafa verið til umræðu að þessi mál séu í mjög óheppilegum farvegi hjá okkur Íslendingum. Þar sem ég hef kynnst málum erlendis er yfirleitt sú stefna viðhöfð í fjármálum opinberra aðila að þeir einir taki ekki erlend lán til framkvæmda eða fjárfestinga, en hins vegar jafneðlilegt að allir aðrir, þ.e. einstaklingar og fyrirtæki, taki erlend lán að vild til þeirra fjárfestinga og stofnframkvæmda sem þau telja eðlilegar og nauðsynlegar. Í raun og veru mundi ég vilja sjá þá þróun eiga sér stað á Íslandi að opinberum aðilum yrði hreinlega bannað að taka erlend lán til framkvæmda en að öllum öðrum yrði það algerlega frjálst. Þá mundi margt breytast til batnaðar í þjóðfélaginu. Þess vegna get ég ekki stutt tillögu sem þessa og finnst gjörsamlega fráleitt að sveitarfélög fái þarna opna heimild til þess að taka erlend lán til framkvæmda sem þau geta nýtt sér með ýmsum hætti eins og hér hafa ýmsir ræðumenn á undan mér vakið athygli á, svo ekki sé talað um t.d. að rjúka út í miklar aðgerðir skömmu fyrir kosningar og treysta síðan á að það megi fá erlend lán til að borga brúsann. Það er ekki með nokkru móti hægt að fallast á tillögu sem þessa.
    Ég veit eiginlega ekki hvert stefnir í þjóðfélagi okkar. Við erum þarna að opna dyr upp á gátt og áður en varir verðum við búnir að opna allar dyr og öll hlið þannig að flóðgáttir munu opnast. Það fara þá væntanlega allir á stað, sveitarfélögin hvert fyrir sig í gang með alls konar draumóraframkvæmdir. Við getum hugsað okkur að á næstunni verði farið út í að byggja stórar íþróttahallir, verslunarmiðstöðvar á vegum sveitarfélaga og hvað eina í trausti þess að það fáist nógar erlendar lántökur til að fjármagna slíkar framkvæmdir. Svo þegar sveitarfélögin ráða ekki við það lengur að greiða af hinum erlendu lánum koma þau væntanlega bara til Alþingis á nýjan leik eins og hér er verið að gera og óska eftir frekari fyrirgreiðslu til að geta síðan staðið undir öllu saman. Þetta einfaldlega gengur ekki. Það er til vansa að bjóða okkur alþingismönnum upp á að sjá svona tillögu á blaði.
    Ég held að það væri nær að taka stefnu ríkisvaldsins í lánsfjárlögum og lánsfjáröflun til gagngerðrar endurskoðunar og reyna að sveigja okkur inn á þá braut, sem ég hef margoft gerst talsmaður fyrir, að opinberir aðilar taki ekki erlend lán, þeir láti tekjuöflun innan lands nægja, annaðhvort með beinum skatttekjum sínum eða þá með innlendu lánsfé, en láti atvinnulífinu það einu eftir að sækja á erlend mið um viðbótarlánsfé ef þörf krefur.