Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég kem ekki inn í þessa umræðu af því að ég ætli fyrir fram að fordæma þetta frv. heldur til að leggja áherslu á það að þetta mál orkar tvímælis eins og mörg önnur. Ég vil minna þingmenn á skyldu sína og benda á ýmislegt sem ég tel að Alþingi verði að athuga vel áður en það samþykkir þetta frv. sem lög. Ég verð að játa það að ég geld varhug við mörgum hinum stóru frumvörpum ráðherranna. Ég tel að þingið sé ráðherrum eftirlátt á mörgum sviðum. Ráðherrar mæla afrek sín í frumvörpum og lagasetningum og því miður hafa á seinustu árum mörg stór mál, sem ráðherrar báru fram og nánast kröfðu stjórnarþingmenn um þegjandi samþykki við, valdið því að þjóðin hefur á ný farið kollhnís í efnahagsmálum. Einn hring enn, móðir mín, sagði presturinn í Hruna forðum. Hann tók ekkert mark á því þótt gamla konan fyndi leggja að brennisteinsfnyk, og kirkjan sökk, en það er nú önnur saga.
    Það væri auðvitað fróðlegt að rifja upp nokkrar af óheppilegustu lagasetningum sem Alþingi lét eftir ráðherrum sínum á síðustu árum, en það verður ekki gert hér. Eftir að hafa átt hér sæti bráðum í tvö þing segi ég: Hingað og ekki lengra. Nú er komið að okkur þingmönnum að kryfja málin til mergjar með þinglegum hætti. Alþingi á ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir ráðherra, það á að vera stofnun sem spyr um orsakir fyrir kröfu um breytingar og jafnframt kannar rækilega afleiðingar séu gerðar breytingar á löggjöf í bæði stóru og smáu. Ráðherrar heimta nánast að þingmenn séu bæði blindir og heyrnarlausir og geri ekkert sem raskar einhverjum friði á stjórnarheimilinu. Ég hygg að nú sé að magnast upp vilji hér í þinginu til þess að löggjafarþingið nái vopnum sínum gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þessa baráttu má sjá glöggt í kringum aukafjárveitingarnar.
    Gera verður stóraukna kröfu til þingnefnda, að þær kryfji mál til mergjar með þeim hætti að ljóst sé hvað hlýst af lagasetningunni. Formenn nefnda hafa því miður oft talið sig í handlangarahlutverki fyrir ríkisstjórnina og spennt mál út úr nefndum án þess að þau fengju þinglega meðferð. Sú þróun er vaxandi að ríkisstjórnin komi fram með frumvörp sín seint og ráðherrar reyni að spenna þau út í kringum álagspunktana hér í þinginu um jól, um páska eða leggi þau allt of seint fram á þinginu og krefjist afgreiðslu fyrir vorið. Þetta frumvarp er kannski dæmi um slíkt. Þau eru mörg á leiðinni. Þau eru mörg slík frumvörp sem munu líta dagsins ljós hér í þinginu að loknu páskaleyfi. Ég hygg að þingið þurfi að gera meiri kröfur til sjálfs sín en það að mönnum líðist þetta. Mér skilst að við höfum á síðasta þingi afgreitt hér ein 70 lagafrumvörp sem ríkisstjórnin þá flutti og þessi ríkisstjórn hefur boðað yfir 100 lagafrumvörp. Mörg eru komin fram, en þau eru mörg stór á leiðinni eins og ég segi, þannig að þessi ríkisstjórn er engin undantekning.
    Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var engu skárri. Má nefna stórkostlegar kerfisbreytingar í skattamálum, svo

sem matarskattinn, niðurlagningu á Bifreiðaeftirliti ríkisins o.s.frv. Ég nefni þessi stóru mál hér því að við stöndum með afleiðingarnar í höndunum og ráðum illa við þær. Ég hygg að það væri fróðlegt fyrir þá þingmenn, sem samþykktu hér og lögðu blessun sína yfir að leggja niður Bifreiðaeftirlit ríkisins, að skoða nú þann mikla fjáraustur sem af hálfu ríkisins verður að fara inn í þann málaflokk, þann mikla kostnaðarauka sem almenningur verður að taka á sig vegna þessa máls. Það er að vísu seint að iðrast eftir dauðann, en allir hafa þann rétt að vera vitrari í dag en þeir voru í gær og móta afstöðu sína samkvæmt því.
    Ég er sagður eiga sök á því að hafa hér stöðvað stórmál í fyrra, þ.e. verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það átti að keyra það stórmál hér í gegnum þingið á nokkrum dögum, sveitarfélögunum í óhag, án samráðs eða skoðunar. Nú er það mál hér á þessu þingi og á hæstv. ráðherra skilið heiður fyrir hvernig að því máli er staðið nú og hygg ég að um það sé víðtæk samstaða og vilji til að það verði afgreitt á þessu þingi. En það hefur nú fengið þau vönduðu vinnubrögð sem þinginu bar að sýna svo stóru máli. Ég held að allar snöggar breytingar hafi í för með sér óheppilegar afleiðingar.
    Það húsnæðislánakerfi sem var tekið upp í félagsmálaráðherratíð hv. þm. Alexanders Stefánssonar hafði ýmsar afleiðingar sem erfitt hefur verið að stemma af. Ríkið varð að láta meiri peninga í þennan málaflokk, húsaverðið hækkaði og enn er spurning hvort margt fólk ræður við hin háu lán hvað afborgun varðar, þrátt fyrir niðurgreidda vexti.
    Ég hef rætt við marga sérfróða menn um þetta húsbréfakerfi. Þær viðræður hafa því miður aukið vafa minn um gagnsemi þessa kerfis. Mun það valda einni hrinunni enn á þessu svæði hér? Verða húsnæðiskaupendur héðan í frá algerlega háðir fjármagnsmarkaðinum? Mun þetta húsbréfakerfi hækka vexti almennt? Fara húsbréfin í samkeppni við ríkisskuldabréfin? Er það rétt stefna af hálfu stjórnvalda að láta verðbréfasala leysa Byggingarsjóð ríkisins af hólmi? Ég óttast það nú um þessar mundir þar sem ýmsir á peningamarkaðinum telja að íslensk þjóð geti lifað á því að höndla með peninga og leika sér, og sá hópur er stækkandi sem lifir eingöngu á því, og þessir náungar allir virðast taka sérstaklega undir þetta húsbréfakerfi. Það eru þessir frjálshyggjugaurar sem
ég óttast. Ég hef frjálshyggjugaurana oft fyrir áttavita, þegar þeir gefa upp sína skoðun þá tek ég það þannig að þá sé málið vont, þá sé mér óhætt að vera á hinum kantinum.
    Það eru þessi atriði og mörg fleiri sem þingnefndin verður að skoða rækilega. Eins er það með aðila vinnumarkaðarins. Röskum við því samkomulagi sem við þá var gert því að þeir stóðu að því að þessum lögum og þessu húsnæðismálakerfi, sem við búum við í dag, var komið í kring? Og þá verðum við líka að hafa í huga unga fólkið. Röskum við áætlun þess með því að hrinda þessu kerfi jafnvel fram af

bjargbrúninni? Menn verða einnig að kanna rækilega fullyrðingar ýmissa manna um það að núverandi kerfi sé að ná jafnvægi og mundi gera það strax væru ýmis heimildarákvæði þeirra laga notuð.
    Það má kallast stjórnleysi að ríkisstjórnin skuli ekki í þenslunni á síðustu missirum hafa beitt skerðingarákvæðum á útlánareglur í núverandi kerfi, t.d. skerða lán ef umsækjandi á mikla heildareign. --- Skerða lán, hæstv. ráðherra, ef umsækjandi á mikla heildareign. Ef hv. 1. þm. Vestf. leyfði hæsstv. ráðherra nú að hlusta í friði. --- Eins er það að skerða lán þeirra sem eru að eignast aðra íbúð og ætla að byggja, skerða lán til einhleypinga, hækka vexti til allra nema þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn. Og eins spyr ég: Er það satt að núverandi kerfi sé það frjálst að margir, ekki síst á þessu svæði, séu í gegnum það að leysa sinn fjárhagslega vanda, ná í ódýr lán til langs tíma, af því að heimildarákvæðin hafa ekki verið notuð?
    Það er nú svo að engin þjóð leyfir það brask í kringum húsnæðismarkað sinn sem við Íslendingar. Ég hefði talið þarfara verk fyrir ríkisstjórnina að beina athygli sinni að vanda landsbyggðarinnar í húsnæðismálum, en víða um land vantar íbúðarhúsnæði tilfinnanlega. Það blasir við að ungt fólk af landsbyggðinni byggir og kaupir hér vegna þess að hér eru íbúðarhús dýrmæt eign en því miður víðast annars staðar vafasamari.
    Við höfum bundið vonir við það kerfi sem núv. hæstv. félmrh. kom í framkvæmd, kaupleigukerfið, að því verði fylgt vel eftir, ekki síst landsbyggðarinnar vegna. Og ég treysti því að ráðherrann hugi að stöðu þess máls því að ég heyri það á mörgum sveitarfélögum sem bundu vonir við það að þau er farið að lengja eftir svörum. Ég hefði því talið að hæstv. ráðherra hefði átt að efla hið félagslega kerfi til uppbyggingar á landsbyggðinni og sníða mestu vankantana af framkvæmd núgildandi húsnæðiskerfis.
    Í umræðunni um hin stóru byltingarkenndu málefni er oft reynt að setja skoðanamun upp í persónulegan ágreining á milli einstaklinga, í þessu tilfelli á milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Alexanders Stefánssonar. Þetta er mikil einföldun á flóknu og viðamiklu máli. En þetta leyfa fjölmiðlar sér og þetta leyfa sér í rauninni miklu fleiri, þ.e. að líta ekki út frá málefnalegum grundvelli á þetta flókna mál, heldur reyna að gera það að baráttu á milli tveggja einstaklinga. En tíminn er naumur og ég krefst þess að hv. félmn. skoði þetta mál af sérstakri nákvæmni út frá þeim stóru fullyrðingum sem hér eru í gangi um væntanlegt húsbréfakerfi og ekki síður hver sé staða núverandi kerfis. Er það hrunið? Er það að leita jafnvægis? Og fellur það í jafnvægi sé sett skerðingarákvæði á útlánareglur?
    Mér barst í hendur á dögunum ágæt úttekt sem dagblaðið Tíminn framkvæmdi. Það var hinn vandvirki blaðamaður, HEi, sem vann að þeirri úttekt. Þar er varpað fram mörgum spurningum og til þess að þingnefndin fái ýmis rök í hendur til að vinna eftir langar mig, með leyfi forseta, að lesa þessa úttekt

Tímans sem birtist nú á dögunum, en þar segir:
    ,,Starfsmönnum Húsnæðisstofnunar þykir sumum hverjum hart að þurfa að horfa upp á núverandi húsnæðiskerfi lagt í rúst á fölskum forsendum, þ.e. með stöðugum yfirlýsingum um að allt sé það krosssprungið og ónýtt, á meðan þeim er svo harðbannað að skýra frá þeirri vitneskju sem fyrir liggur í stofnuninni og gefur allt annað til kynna. Af þeim upplýsingum má ráða að kerfið sé síður en svo sprungið heldur sé þvert á móti að komast í jafnvægi þannig að biðtími eftir lánum geti jafnvel farið að styttast á ný áður en langt um líður svo framarlega að ekki verði því meira fjármagn tekið af Byggingarsjóði ríkisins. Með því að fínpússa núverandi lög svolítið frekar mætti svo gera núverandi kerfi enn þá virkara,,, segir í þessari úttekt.
    Þar segir enn fremur: ,,Hvað varðar lánsumsóknir er staðan nú þannig að fjöldi virkra óafgreiddra lánsumsókna er kominn niður í um 5--6 þúsund og fjöldi nýrra lánsumsókna niður í um 300 á mánuði sem er álíka fjöldi og ráð var fyrir gert í upphafi og álíka fjöldi og stofnunin ræður við afgreiðslu á árlega. Þeir sem sækja um lán þessa dagana til kaupa á fyrstu íbúð geta búist við að fá lánsloforð í hendur eftir um það bil hálft annað ár og fyrri hluta lánsins borgaðan út eftir 2--2*y1/2*y ár. Þeir sem eiga íbúðir fyrir bíða um hálfu ári lengur.
    Fjöldi lánsumsókna er rúmlega 300 að meðaltali á mánuði sl. hálft ár öfugt við það sem ýmsir höfðu spáð, að þeim mundi fara fjölgandi á ný í byrjun þessa árs. Reyndust nýjar umsóknir rúmlega 300 talsins nú í janúar og febrúar. Af rösklega 17 þús. umsóknum sem borist hafa frá því að kerfið tók gildi fyrir
2*y1/2*y ári eru rúmlega 7000 umsækjendur þegar búnir að fá lán, annaðhvort allt eða fyrri hluta láns. Þar við bætast á þriðja þúsund sem þegar hafa fengið í hendur lánsloforð með ákveðinni dagsetningu og fjárupphæð sem greidd verður út á þessu ári, þannig að 10.000 umsóknir hafa þegar fengið afgreiðslu á rúmlega tveimur árum. Það eru því um 7000 umsóknir sem nú bíða afgreiðslu. Af þeim er talið að reikna megi með um 25% afföllum, þannig að óafgreiddur biðlisti sé raunverulega ígildi um 5--6 þús. fullgildra lána. Þessi afföll skiptast í þrjá höfuðflokka. Um 2--5% detta út vegna þess að umsækjendur eiga ekki lánsrétt þegar að er gáð, annaðhvort vegna ófullnægjandi greiðslu í lífeyrissjóð eða þeir hafa ekki nægar tekjur. Síðan eru 2--3% umsækjenda sem fá lánsloforð en nýta sér ekki lánsréttinn og falla því út. Stærsti hlutinn er svo vegna fólks sem fær loforð um fullt lán en getur ekki nýtt það nema að hluta vegna þess að það kaupir íbúð með áhvílandi eldri lánum frá stofnuninni, oft á bilinu 500--700 þús. sem þá dragast frá nýja láninu.
    Annað atriði sem bendir til jafnvægis og stöðugleika er það að stærri og stærri hluti umsókna er frá fólki sem búið er að skipuleggja fram í tímann fremur en að því sé sérstakt kappsmál að fá lánin sem allra fyrst. Þetta fólk hefur sett sér markmið um

sparnað og síðan íbúðarkaup á ákveðnum tíma og leggur inn lánsumsókn í samræmi við það. Í ljósi þess að íbúðakaup eru jafnan langstærstu framkvæmdir sem almenningur leggur í á lífsleiðinni hefur starfsmönnum Húsnæðisstofnunar hins vegar þótt það í meira lagi hlálegt hve fjöldi lánsumsókna hefur oft stjórnast mikið af fjölmiðlaumræðunni.``
    Svo mörg eru þau orð og í rauninni hafa þessi húsnæðismál verið í mikilli fjölmiðlaumræðu sl. tvö eða þrjú ár sem hefur gert það að verkum að mönnum hefur þótt vissara að setja sig í þá biðröð.
    Um fyrirframstuðning við frv. er best að segja sem minnst. Það hlýtur að mótast af niðurstöðu hv. félmn. og blákaldri rökhyggju hvað einstaklingum og þjóðinni er fyrir bestu.
    Að lokum vil ég segja þetta: Ég tel mjög mikilvægt að kannað sé hvað er á bak við biðlistana. Er biðröðin svo fjölmenn vegna þess að margir setja nafn sitt þar af öryggisástæðum? Ef svo færi að þeir þyrftu á því að halda að byggja á næstu 3--5 árum? Um þetta verður að fást vitneskja og hversu margir hverfa frá ef ríkisstjórnin notfærir sér heimildir um skerðingarákvæðin. Svo væri auðvitað mikilvægt að vita um byggingarþörf næstu ára og á því þyrfti auðvitað að gera athugun. Kannski hefur sú athugun farið fram og er til í stofnuninni sjálfri. Í framhaldi af slíkri vinnu og þegar allar þessar upplýsingar liggja fyrir mun ég taka mína ákvörðun um stuðning eða andstöðu við frv. Sú afstaða verður hvorki mótuð með eða móti hæstv. félmrh. Ég stend með ráðherranum og ég styð hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur til allra góðra verka.