Seðlabanki Íslands
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Það hefur verið mikið um yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn varðandi vaxtamál að undanförnu og frá einstökum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa gert mikið veður út af því hvernig lánastofnanir höguðu sinni vaxtatöku og jafnframt hafa þeir boðað hertar aðgerðir til þess að knýja niður vextina með handafli og hafa haft uppi afar áberandi tilburði til þess að sýna þjóð sinni fram á það að þeir séu sterkir, ekkert síður en Jón sterki á sínum tíma. Það var því búist við mjög hörðum aðgerðum með flutningi á frv. eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar 6. febr. sl. þar sem stefnan var mörkuð og þessi stefna er prentuð sem fskj. II með þessu frv.
    Þegar maður ber þessa breytingu saman við gildandi lög um Seðlabanka Íslands sem eru tæplega þriggja ára gömul kemur það í raun og veru í ljós að hér er um ákaflega litlar breytingar að ræða þegar undan eru skildar tvær breytingar sem gerðar voru á frv. í hv. Ed. og önnur breytingin var tekin út úr verðbréfafrv. og sett inn í seðlabankalögin og á þar betur heima en í sínum fyrri heimkynnum. Þessar breytingar eru þó í áttina til aukinnar miðstýringar að svo miklu leyti sem þær hafa eitthvað að segja, en þær eru árangur af því að ríkisstjórnin varð að láta eitthvað frá sér fara eftir allar þessar yfirlýsingar sem settar hafa verið fram.
    Ég furða mig að einu leyti á því að ríkisstjórnin skuli ekki stíga skrefið til fulls og afnema vexti með öllu og taka sér þar til fyrirmyndar peningakerfi og bankakerfi múslíma. Þar eru engir vextir en bankaviðskipti blómgast mjög vel í löndum múslíma þó að þeir noti enga vexti og ég skil nú ekki í því hvers Teheran hefur átt að gjalda að enginn af hinum ferðaglöðu ráðherrum ríkisstjórnarinnar skuli virkilega hafa stigið þar fæti eða aðeins komið við til þess að kynna sér betur þetta kerfi. En bankamenn og peningamenn klerkastjórnarinnar í Teheran og Íran fara öðruvísi að til þess að láta lánastofnanir blómstra. Þeir taka sínar tekjur með afföllum og þar þarf ekkert að rífast um vexti. Mér hefur sýnst á þessum tilburðum sem verið hafa að undanförnu að a.m.k. einstaka ráðherrar séu orðnir eitthvað hallir undir Múhameðstrú og hafi tekið að vissu marki trú múslíma. Að vísu eru þeir ekki eins herskáir, það skal játað, en þeir eiga kannski eftir að verða það.
    Í fréttabréfi Samvinnubankans, sem bar dálítið á góma hér í gær, er sagt að verðbréfaviðskipti bankans standi nú að nýju skuldabréfaútboði fyrir fjármunaleigufyrirtækið Lind hf. að fjárhæð 100 millj. kr. Að þessu sinni eru sem sagt gefin út skuldabréf sem eru öll að nafnvirði 100 þús. kr. Skuldabréfin eru verðtryggð en vaxtalaus alveg eins og hjá þeim í Teheran. Þau færa kaupendum sínum samt 11,2% vexti umfram hækkun lánskjaravísitölu. Það þykir mjög gott. Raunávöxtun bréfanna kemur því öll fram í afföllum frá nafnvirði við sölu.
    Nú langar mig að spyrja hæstv. viðskrh. sem er

fróður maður í þessum efnum: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera ef menn fara almennt að taka upp þessa affallapólitík og hverfa frá vöxtum? Er þá ekki ríkisstjórnin að berjast við vindmyllur ef allir láta vextina lönd og leið og taka upp þessa nýju aðferð?
    Við sem stöndum að nál. minni hl. um Seðlabanka Íslands teljum frv. ekki vera stórt í sniðum eða hafa mikinn boðskap að flytja. Við teljum heldur ekki ástæðu til þess að gera lítið úr þeim sem eiga að stjórna lánastofnunum í landinu og ekki heldur að gera lítið úr þeim sem eru kjörnir fulltrúar Alþingis, fulltrúar fólksins, í bankaráð bankanna. Við teljum það skyldu allra þessara manna að stýra sínum bönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum á þann veg að það séu traustar stofnanir sem viðskiptamenn mega byggja á en séu ekki reknar sem eitthvert glæfraspil. En við ætlumst líka til þess af þeim að þeir séu ekki heldur neinar okurbúllur á viðskiptamönnum sínum, hvorki almenningi eða atvinnulífinu.
    Sjálfstfl. sér enga ástæðu til þess að bregða fæti fyrir afgreiðslu þessa frv., enda kemur þetta frv. til 1. umr. hér sl. nótt og það fer til nefndar og fundur er þar kl. 10 í morgun. Við greiddum fyrir afgreiðslu málsins eins og hægt var og ég fyrir mitt leyti mælist eindregið til þess við hv. þingdeildarmenn að þeir greiði fyrir afgreiðslu þessa máls sem allra fyrst, þannig að ríkisstjórnin hafi þá daga til undirbúnings til þess að sýna krafta sína 1. apríl.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri því að ég vil að ríkisstjórnin hafi sem lengstan tíma til 1. apríl til þess að sinna þessu hugðarefni sínu þegar þetta frv. er orðið að lögum.