Seðlabanki Íslands
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Vestf. beindi til mín nokkrum spurningum sem mér er skylt og ljúft að reyna að svara. Ég mun líka reyna að svara í nokkru því sem hann innti mig eftir við 1. umr. vegna þess að hún varð frekar stutt hér á næturfundi.
    Hv. þm. spurði mig í fyrsta lagi: Hvort ég teldi að bankaráð Seðlabankans hefði brugðist sinni skyldu í starfi á undanförnum missirum. Mitt svar við þeirri spurningu er skýrt: nei. Hv. þm. spurði mig í öðru lagi hvort ég teldi æskilegt að raunvextir yrðu hér almennt neikvæðir. Mitt svar við þeirri spurningu er líka nei. Ég tel það ekki æskilegt. Ég segi hins vegar að það sé æskilegt að þeir keyri ekki úr hófi. Í ræðu sinni í dag kom hv. 1. þm. Vestf. inn á trúmál, m.a. Mér heyrðist hann eiginlega vera í þann veginn að ganga sjálfur til liðs við erkiklerkinn Khomeini og svo mikill var hans sannfæringarkraftur að hann var líka næstum því búinn að fá hv. 12. þm. Reykv. til stuðnings við þau trúarbrögð. Mér heyrðist satt að segja að það væru fleiri hallir undir múslímstrúna en þeir sem hann taldi vera nærri því að kasta trúnni. Svo er ekki.
    Ég vil, vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. 1. þm. Vestf. og vegna ívitnunar hans í tímarit sem gefið er út á vegum fyrirtækisins Lindar, velja mér aðra uppsprettu til þess að vitna til, nefnilega frv. til laga um Seðlabanka Íslands, 205. mál frá 108. löggjafarþingi, þar sem segir, með leyfi forseta, í athugasemdum við frumvarpið: ,,Og er haft í huga að til afskipta bankans [þ.e. Seðlabankans] geti komið þegar undantekningarástand kann að skapast á lánamörkuðum sem hindrað geti eðlilega og sanngjarna myndun vaxta. Þá kæmi einnig til greina að bankinn teldi sig knúinn til að samræma þann mismun sem stofnanir reikna sér í vöxtum milli innlána og útlána.``
    Þær tillögur sem hér eru gerðar í þessu frv. til seðlabankalaga, um breytingar á þeim lögum, eru einmitt unnar í þessum anda. Það hefur komið í ljós að það þarf aðeins að skerpa þarna á nokkrum ákvæðum án þess að heildarfyrirkomulagi vaxtaákvarðana sé breytt. Það hefur líka komið í ljós að frá því þessi lög voru sett hefur vaxið fram nýr stofnanaskógur á þessum markaði sem óhjákvæmilegt er að hin almennu ákvæði peningamálastjórnar láti sig nokkru varða. Þaðan eru ættuð þau ákvæði sem lúta að því sem ég vil kalla stíflugarða gegn því að aðrar stofnanir, þ.e. verðbréfafyrirtæki og sjóðir, fari með minni skyldum inn á starfssvið viðskiptabankanna sem ég veit að hv. 1. þm. Vestf. er mér algjörlega sammála um.
    Það er hins vegar vandasamt að velja þessi verkfæri og ég held því ekki fram að við höfum fundið óbrigðult ráð við vaxtaverkjum Íslendinga sem eru ærnir um þessar mundir, en við erum þó að reyna. Og svo að ég svari beinlínis því sem hv. 1. þm. Vestf. spurði mig um nú, hvort ég teldi það æskilegt að hér yrðu yfirleitt ákveðin fjármagnskjör með affallaviðskiptum, þá er svarið alveg jafnskýrt og áður

við spurningum hans: Nei, ég tel það ekki æskilegt en tel það hins vegar einmitt vera viðleitni í þeim tillögum sem hér eru fluttar að koma í veg fyrir það að lánamarkaðurinn þróist í þessa átt. Það er einfaldlega þannig að öllu frelsi þarf að fylgja agi og ábyrgð. Það hefur komið í ljós á undanförnum missirum að hið nýja fyrirkomulag á fjármagnsmarkaðnum er ekki fullharðnað, er ekki búið að finna sér eðlilegan farveg. Þess vegna kann að vera nauðsynlegt að hafa einhvers konar íhlutun af þessu tagi.
    Þá kem ég að máli hv. 12. þm. Reykv. og ég þakka þm. fyrir að lýsa yfir stuðningi við frv. Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. að þetta frv. leysir ekki allan vanda frekar en allt verður sagt í einni predikun. En ég heyrði ekki betur en bæði hv. 1. þm. Vestf. og hv. 12. þm. Reykv. vilji að þetta mál nái fram að ganga og fyrir þær yfirlýsingar vil ég þakka. Vegna þess sem fram kom í einstökum atriðum hjá hv. 12. þm. Reykv., í fyrsta lagi um bindiskyldu eða ígildi hennar gagnvart verðbréfafyrirtækjum, tel ég að í máli hv. þm. hafi komið fram ýmis sjónarmið sem tillit þarf að taka til við framkvæmdina. Það er einmitt vegna þessara sjónarmiða sem orð eins og ,,jafngildi`` eða ,,eftir því sem við getur átt`` eru í þessum texta. Þetta eru fyrst og fremst öryggisákvæði, og ég vek athygli á því, fyrir viðskiptavini þessara fyrirtækja og sjóða. Og þess vegna getur einmitt kaupskylda á öruggum verðbréfum, sérstaklega ríkisskuldabréfum, komið þarna að bestu haldi. En um leið væri þá sýnd viðleitni til þess að leggja svipaðar skyldur á þessa miðlun fjármagns eins og verður í viðskiptabankakerfinu. Þarna er líka vert að hafa í huga að þeim sem gagnrýna þetta og kalla að þetta sé ekki heimildarákvæði hlýtur að hafa yfirsést í lestrinum því að þarna er tilvísun í fyrri málsgreinina í þessari grein þar sem ljóst er að hér er um heimild að ræða en hins vegar mjög mikilvægt að jafnræðisregla gildi í þessu eins og öðru eins og ég heyrði í máli hv. 12. þm. Reykv.
    Þá kem ég að því sem 12. þm. Reykv. spurði um, hvað við væri átt með orðinu ,,hóflegir vextir`` í þessu máli. Svarið er að í því felst að Seðlabankinn hafi þarna huglægt mat, og ég endurtek, huglægt mat, á því hvað telja megi hóflega vexti líkt og hann hefur samkvæmt gildandi lögum sams konar rétt til að meta
hvað telja megi óhæfilegan og þar með hæfilegan vaxtamun á milli innláns- og útlánsvaxta. Þetta er ekki af tilviljun gert, heldur vegna þess að í gildandi lögum er í raun og veru mjög sterk tilvísun í raunvexti eins og þeir tíðkast í nálægum löndum án þess að það sé unnt, að mínu áliti, að meta það til einnar tölu. Jafnvel til þess að fylgja eftir þeirri meginreglu sem er í gildandi lögum að bankinn hafi rétt til að hlutast til um vextina ef vikið er frá því sem er í umhverfinu þarf hann að hafa þetta huglæga mat, annars getur hann einfaldlega ekki gert þetta því að hitt verður ekki lesið til einnar tölu. Þetta er ástæðan auk þess sem að sjálfsögðu má leggja ýmsa

aðra mælikvarða á þetta þegar litið er til allra aðstæðna, bæði markaðsaðstæðna og framleiðslu- og framleiðniþróunar.
    Þetta er í sjálfu sér allt sem ég vil segja um það sem fram hefur komið við þessa umræðu og ég óska eftir því að þetta mál fái skjóta afgreiðslu.