Sparisjóðir
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 87 frá 4. júlí 1985, um sparisjóði, eins og það kemur frá hv. Ed. Í frv. er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á gildandi lögum um sparisjóði. Breytingar þessar eru að mestu hliðstæðar tillögum í frv. til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka, sem ég hef þegar mælt hér fyrir í deildinni á þessum fundi. En auk þess er hér gerð tillaga um breytingu á skipun stjórna sparisjóðanna vegna þeirra breytinga á sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í byrjun þessa árs.
    Í 1. og 2. gr. frv. er að finna ákvæði sem leiðir af gildistöku nýrra sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Í nýjum sveitarstjórnarlögum hafa sýslunefndirnar verið lagðar niður en í þeirra stað koma nú sveitarstjórnir eða eftir atvikum héraðsnefndir. Sú breyting sem hér er gerð tillaga um varðandi 5. og 21. gr. sparisjóðalaga eru því að öllu leyti vegna hinnar breyttu skipunar samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem nú hefur að fullu tekið gildi. Tillagan felur það í sér að héraðsnefndir eða sveitarstjórnir komi í stað sýslunefndanna við kjör stjórnarmanna í sparisjóði. Þetta mál hefur verið rætt við Samband íslenskra sparisjóða og einnig við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt tillögu Sambands íslenskra sparisjóða hefur hv. Ed. ákveðið að auka við 1. gr. frv. þannig að alveg skýrt sé að sveitarstjórnir hafi rétt til að ákveða í samþykktum sparisjóðsins um kosningu sinna fulltrúa í stjórn sparisjóðs.
    Þá er í 3. gr. frv. að finna ákvæði sem ætlað er að skýra nánar hvað felist í þeirri takmörkun sem núgildandi sparisjóðalög gera varðandi þátttöku sparisjóðsstjóra í atvinnurekstri. Ákvæði þetta er alveg hliðstætt ákvæðinu í frv. til laga um breytingu á viðskiptabankalögum sem ég hef nýlega lýst hér í deildinni.
    Í 4. gr. frv. var í upphaflegri gerð frv. gerð tillaga um nýtt orðalag á 3. mgr. 24. gr. núgildandi sparisjóðalaga, varðandi þátt sparisjóðsstjórnar við mótun stefnu sparisjóðsins í vaxtamálum og einnig varðandi reglur um hámark lánveitinga til einstakra lántakenda. Í frv., eins og það kemur frá hv. Ed., er að fengnu áliti og tillögum Sambands íslenskra sparisjóða lagt til að efnislega verði ákvæðið í 1. mgr. 4. gr. í frv., eins og það var upphaflega úr garði gert, fellt inn í 25. gr. núgildandi sparisjóðalaga, í stað þess að fella það inn í 3. mgr. 24. gr. laganna eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Ástæðan fyrir þessu er einkum sú að fyrir marga smærri sparisjóði hefur ákvarðanatakan þegar farið fram á grundvelli heimildar í 25. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði, þ.e. á vegum stjórnar Sambands íslenskra sparisjóða. Að athuguðu máli þykir rétt að sú framkvæmd geti haldist óbreytt og tekur breytingin mið af því. Ákvæðið er því flutt samkvæmt brtt. fjh.- og viðskn. Ed., og fært í 25. gr.
    Þá er lagt til að við frv. bætist ný grein er verði 6. gr. Þannig er lagt til að í 2. mgr. 25. gr. laganna verði tiltekið að sparisjóðsstjórn eða --- og það er efnislega viðbótin --- stjórn Sambands íslenskra

sparisjóða skuli fjalla um ákvarðanir varðandi vexti og gjaldskrá að fengnum tillögum sparisjóðsstjóranna. Einnig er lagt til að við umfjöllun um vexti og kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skuli sparisjóðsstjórn, eða eftir atvikum stjórn Sambands ísl. sparisjóða, gæta þess að ávöxtunarkrafa sparisjóðsins sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána sjóðsins í hliðstæðum áhættuflokkum.
    Ákvæði 2. mgr. 4. gr. frv. stendur hins vegar óbreytt frá upphaflegri gerð og er þar lagt til að í 4. mgr. 21. gr. laganna um sparisjóði verði kveðið skýrt á um skyldu sparisjóðsstjórnar til að setja reglur um hámark lána til einstakra lántakenda og um tryggingar fyrir lánum.
    Hv. Ed. hefur bætt við frv. nýjum greinum, 5. gr. og 8. gr., er kveði á um brottfall orða í 20. gr. og 70. gr. laganna. Þessi breyting er gerð að fenginni ábendingu og tillögu frá Sambandi íslenskra sparisjóða til þess að skýrt sé af lögunum að þar sem sparisjóðsaðili var áður einn, t.d., og eins og venjulegast var, sýslufélag, en verða nú fleiri eftir breytingar á sveitarstjórnarlögum, þá falli þeir undir ákvæði 2. mgr. 20. gr. um atkvæðisrétt, þ.e. að einstökum sparisjóðsaðila sé aldrei heimilt að fara með meira en fimmta hluta af heildaratkvæðamagni í sparisjóði.
    Þá er í 7. gr. frv. stefnt að lögfestingu reglna til að girða fyrir hagsmunaárekstra stjórnenda sparisjóðs annars vegar og hins vegar aðila sem þeir tengjast fjárhagslega eða hagsmunalega. Þessi ákvæði eru að öllu leyti sambærileg við þau sem tillaga er gerð um í frv. til breytinga á viðskiptabankalögum sem ég lýsti hér fyrr á þessum fundi.
    Loks er með 9. gr. frv. leitast við að eyða ágreiningi um það hvernig skilja beri 1. mgr. 71. gr. laganna um sparisjóði, um hlutfall fasteigna og búnaðar af eigin fé.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.