Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Skýrsla þessi hefur legið alllengi hér fyrir Alþingi og hafa menn getað kynnt sér hana um tíma. Auk þess hefur æðimargt breyst frá því skýrslan var gerð. Gengið hefur verið fellt um u.þ.b. 11% þegar saman er lagt, fiskverðsákvörðun hefur verið gerð, fiskverð samtals hækkað um 9,75%. Engu að síður gefur þessi skýrsla allgóðar upplýsingar um þá miklu breidd sem er í afkomu fiskvinnslufyrirtækja og er þannig að mínu mati gagnleg.
    Óskað var eftir því að sundurliðuð yrði afkoma tíu fiskvinnslufyrirtækja með lakasta afkomu og tíu fyrirtækja með besta afkomu. Eins og fram kemur í upphafsorðum þessarar skýrslu er það töluverðum erfiðleikum háð og reyndar þótti mér fyrsta tilraun Þjóðhagsstofnunar til að taka saman slíkar upplýsingar hvergi nærri fullnægjandi. Þær náðu eingöngu til ársins 1987 því Þjóðhagsstofnun taldi sig ekki hafa nægilega traustar upplýsingar um árið 1988 eða það sem af því ári var liðið þegar skýrslan var unnin til að geta sett það fram í slíku skjali. Að ósk minni var þó hafist handa um að meta afkomu tíu lökustu og tíu bestu fyrirtækjanna árið 1988 og þá ekki síst byggt á þeim reikningum sem Atvinnutryggingarsjóður hafði fengið fyrir níu fyrstu mánuði ársins og alveg sérstaklega á reikningum þeirra 30 fyrirtækja sem voru tekin til sérstakrar skoðunar af endurskoðendum sem starfandi eru í sjávarútvegi.
    Stofnunin framreiknaði þannig afkomu fyrirtækjanna og bar jafnframt saman við slíkar upplýsingar sem ég hef nú nefnt og á þeim grundvelli eru upplýsingar um árið 1988 byggðar. Samtals ákvað stofnunin að taka 30 fyrirtæki og má segja að þá sé skipt í þrjá flokka, fyrirtæki með lakasta afkomu, fyrirtæki með besta afkomu og fyrirtæki með meðalafkomu.
    Til að lengja ekki mál mitt hér, þar sem þingmenn hafa vafalaust skoðað þessa skýrslu vel, vísa ég til töflu sem var á bls. 8 í þessari skýrslu. Þar er að finna rekstraráætlun 30 frystihúsa almanaksárið 1988.
    Þarna má lesa ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Í fyrsta lagi kemur fram í neðstu línu að hagnaður tíu lökustu frystihúsanna er mínus 12,5% eða það er tap upp á 12,5%. Hins vegar eru tíu bestu fyrirtækin með hagnað upp á 3,7% en meðaltalið, ef líta má á tíu fyrirtækin sem eru þarna á milli, er með tap upp á 4,8%.
    En ýmislegt fleira kemur fram í þessari töflu. T.d. er mjög athyglisvert að í 3. lið, ,,verg hlutdeild fjármagns``, kemur fram gífurlegur munur á fjármagnskostnaði lökustu og bestu fyrirtækjanna eða samtals u.þ.b. 15% munur á fjármagnskostnaði bestu og lökustu fyrirtækjanna.
    Hér kemur að vísu ekki fram hver fjármagnskostnaðurinn er, en af öðrum töflum sem fylgja þessari skýrslu og eru meira sundurliðaðar kemur það skár fram. Ég tel sérstaklega rétt að vekja athygli á þessum gífurlega mun á fjármagnskostnaði.
    Einnig vil ég vekja athygli á því að hjá lökustu fyrirtækjunum eru liðir eins og laun og hráefni mikið

hærri en hjá þeim fyrirtækjum sem eru með betri afkomu. Launin eru talin vera um 28,4% rekstrargjalda fyrirtækjanna sem eru með lakasta afkomu, en 24,6% hjá fyrirtækjum sem eru með besta afkomu. Í báðum tilfellum er launaliðurinn hár og raunar hærri en talið hefur verið eðlilegt í t.d. frystingu og yfirleitt í vinnslu. Sömuleiðis kemur fram að hráefniskaupin eru hjá þeim fyrirtækjum sem með versta afkomu eru yfir helmingur eða um 51%, en hins vegar 45,8% hjá fyrirtækjunum sem eru með besta afkomu. Þegar ég sagði áðan að þessar upplýsingar væru fróðlegar á ég ekki síst við þann mikla mun sem þarna kemur fram á veigamiklum liðum eins og fjármagnskostnaði, launalið og hráefniskaupum.
    Hér fylgir einnig með milliuppgjör yfir reksturs frysti- og saltfiskdeilda í 29 fyrirtækjum fyrstu níu mánuði ársins 1988 og er þær upplýsingar að finna á öftustu síðu þessarar skýrslu. Þar er einnig að finna efnahagsreikning þessara 29 fyrirtækja, en að sjálfsögðu er þar ekki sundurliðað og ekki greint á milli fyrirtækjanna eftir afkomu þeirra heldur eru þetta meðaltölur.
    Samkvæmt áliti Þjóðhagsstofnunar var afkoma í sjávarútvegi þann 25. nóv. 1988 í botnfiskveiðum og vinnslu samtals mínus 4*y1/2*y%. Veiðarnar voru taldar vera í mínus 4*y1/2*y%, frystingin sömuleiðis í mínus 4*y1/2*y% og söltunin var talin vera í plús 2%. Frá því að þetta mat var gert í lok nóvember hefur ýmislegt breyst, eins og ég sagði áðan, bæði gengið fallið og einnig verið samið um fiskverð. Samkvæmt allra nýjustu upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun í skjali sem dags. er 3. apríl, þ.e. í dag, er talið að botnfiskútvegur, veiðar og vinnsla, sé með halla upp á 2%, veiðarnar með halla upp á 3*y1/2*y% en vinnslan í núlli, frystingin þar af með mínus 2% en söltun með plús 2*y1/2*y%. Fram er tekið af Þjóðhagsstofnun að í þessu mati liggur ekki fyrir nægilega vel hver hráefniskostnaður er eftir samning um fiskverðshækkun nýlega, m.a. vegna þess að legið hefur í loftinu að kaupendur mundu draga úr þeirri yfirborgun sem hefur verið mikil á hráefni undanfarna mánuði og því kann að vera að sú umtalsverða fiskverðshækkun sem varð komi ekki af samsvarandi þunga inn í rekstur fiskvinnslufyrirtækjanna.
    Ég verð einnig að vekja athygli á því að til sérstakrar meðferðar hjá
Atvinnutryggingarsjóði og nýstofnuðum hlutafjársjóði eru allmörg fyrirtæki sem eru tvímælalaust meðal þeirra tíu sem talin eru með erfiðastan rekstur í þeim upplýsingum sem liggja hér fyrir og reyndar fleiri en þau tíu fyrirtæki. Talið er að um 15--20 fyrirtæki séu með þannig afkomu að rekstur þeirra verði ekki tryggður nema með tilfærslu verulegs fjár í formi eigin fjár til þessara fyrirtækja. Í grófum dráttum og við upphaf á þessari starfsemi hlutafjársjóðs hefur verið áætlað að fjárþörfin í þessu skyni kunni að vera rúmlega 2 milljarðar kr. Þessi upphæð er nálægt því 8% af framleiðsluverðmæti botnfiskvinnslunnar í

landinu. Ef úr þessari tilfærslu til fyrirtækjanna verður er augljóslega verið að bæta mjög meðalafkomu greinarinnar og þarf í raun að taka tillit til þess þegar til framtíðarinnar er litið. Ég er þeirrar skoðunar að þessi starfsemi, starfsemi Atvinnutryggingarsjóðsins og starfsemi hlutafjársjóðsins, sé sú mikilvægasta sem nú er í þeirri viðleitni að reisa við fiskvinnsluna eftir erfiðleika síðasta árs og framtíðin muni mjög ráðast af því hvort þetta tekst eins og að er stefnt. Þessu verður að hraða og hef ég lagt áherslu á það við nýskipaða stjórn hlutafjársjóðsins að svo verði gert. Stjórnin auglýsti eftir umsóknum og rennur það út í dag. Ég get upplýst að um hádegið höfðu borist 15 umsóknir, en eflaust verða þær eitthvað fleiri.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að lengja ræðu mína því eins og ég sagði í upphafi hafa menn eflaust kynnt sér þessi gögn vel þann langa tíma sem skýrslan hefur legið fyrir þingi, en skal að sjálfsögðu leitast við að svara þeim spurningum sem fram kunna að koma.