Staða og rekstur fiskvinnslufyrirtækja
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þessi skýrsla er svar við beiðni til forsrh. um skýrslu um stöðu og rekstur fiskvinnslufyrirtækja sem lögð var fram fyrr á þessu þingi og ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hana og fyrir hans ræðu hér áðan, en ásamt mér báðu um þessa skýrslu hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson, Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Kristinn Pétursson, Matthías Bjarnason og Málmfríður Sigurðardóttir.
    Skýrslubeiðnin kom fram snemma í nóvember, er 71. mál þessa þings á þskj. 73, og skýrslan mun hafa komið á okkar borð öðru hvorum megin við áramótin, ég man ekki nákvæmlega dagsetninguna. Það er því sannarlega vonum seinna sem við ræðum nú efni hennar þrem mánuðum síðar og raunar fimm mánuðum eftir að beiðnin var lögð fram. En segja má að betra sé seint en aldrei.
    Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa orðið við beiðni okkar og látið vinna þessa skýrslu hlýt ég að lýsa nokkrum vonbrigðum með efni hennar og uppsetningu. Ekki svo að skilja að hún sé ekki upplýsandi og margt gott um hana að segja. Þar koma vissulega fram upplýsingar sem fengur er að, en sumu er látið ósvarað af því sem beðið var um. Vil ég þar t.d. nefna að það var beðið um upplýsingar um fjölda starfsmanna í fyrirtækjunum og hversu stór hluti þeirra er búsettur í viðkomandi byggðarlagi, en þetta skiptir vitanlega töluverðu máli þegar maður er að reyna að gera sér grein fyrir stöðu fyrirtækisins og þörfinni fyrir sérstakar aðgerðir þess vegna.
    Það sem mér finnst kannski gagnrýni verðast er hvernig þessi skýrsla og hvernig skýrslur yfirleitt eru settar fram þannig að það er eiginlega árans átak að átta sig á henni. Mér finnst svona skýrslur eiga að vera skilmerkilegri og aðgengilegri þannig að allur almenningur geti nýtt sér þær. Þó er þessi kannski skiljanlegri en margar aðrar. Það er meira að segja skilgreint hvað verg hlutdeild fjármagns er, en ýmis svona hugtök fæla almenning frá því að kynna sér mál af þessu tagi og það finnst mér slæmt því að það er brýnt að við tölum mál sem allir geta skilið.
    Það er kannski ekki ástæða til að fjölyrða um ástæður fyrir þessari skýrslubeiðni svo sjálfsögð sem hún í rauninni er. Slíka skýrslu ættum við að fá inn á okkar borð með jöfnu millibili. Fiskurinn, bæði útgerð og vinnsla, er stoð okkar í þjóðarbúskapnum. Efnahags- og atvinnulíf landsmanna er að miklu leyti háð stöðu þessara greina og umræðan snýst mikið um málefni þeirra. Sú umræða er þó ekki alltaf ýkja markviss og mörgum finnst hún, eins og ég orðaði áðan, lítt skiljanleg. Ég held að það fari ekkert á milli mála að bæði forráðamenn í þessum greinum og stjórnmálamenn komast upp með að slá fram fullyrðingum um afkomu og stöðu útgerðar og fiskvinnslu, ekki síst fiskvinnslu, án þess að mikill kostur sé á því að sannreyna þær. Staða þessara greina er langoftast ástæða síendurtekinna efnahagsaðgerða og almennt launafólk er æ ofan í æ

beygt undir stjórnvaldsaðgerðir sem eru réttlættar með því að rétta þurfi stöðu undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. Við munum sl. sumar sem allt var gegnsýrt og merkt af umræðu um bága afkomu fiskvinnslunnar sérstaklega og aðgerða var krafist af stjórnvöldum.
    Ráðherrar komu sér hins vegar ekki saman um nauðsynlegar aðgerðir og eftirleikinn þekkja menn. Þá upphófst hið eftirminnilega kapphlaup við tímann þegar allt var sagt í yfirvofandi rúst ef ekki yrði brugðist skjótt við. Það duldist engum að ástandið var bágborið, en þegar leitað var eftir nánum upplýsingum fengust aðeins almenn og óljós svör. Frystingin er rekin með 6, 7, 8% tapi, sögðu hagfræðingar, en sundurgreindar upplýsingar lágu ekki á lausu. Sú var reynsla okkar kvennalistakvenna þegar við vildum átta okkur á stöðu mála á sl. sumri og hausti og meta þörfina fyrir aðgerðir og þá hvers konar aðgerðir. Við fengum ekki umbeðnar sundurgreindar upplýsingar, aðeins almennar fullyrðingar um meðaltöl, engin frávik, aðeins meðaltöl. Og á þeim nótum er umræðan raunar alltaf þótt vitað sé að það er gífurlega mikill munur á rekstri og afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá er ekki að undra þótt vefjist fyrir almenningi að átta sig á stöðunni, enda hefur taprekstrarþulan verið lesin svo lengi sem elstu menn muna og forsvarsmenn þessarar atvinnugreinar flytja nú reyndar svipaðar ræður á fundum samtaka sinna ár eftir ár.
    Á aukafundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í nóvember sl. komst formaður stjórnarinnar, Jón Ingvarsson, svo að orði, með leyfi forseta:
    ,,Þessi langvarandi rekstrarvandi, sem raunar hefur staðið yfir í mörg ár ef undan er skilið árið 1986 og fyrri helmingur síðasta árs, hefur eytt eigin fé flestra fyrirtækja í frystihúsarekstri og ég vil leyfa mér að fullyrða að ástandið hefur aldrei verið jafn ískyggilegt og nú og vonleysi þeirra sem standa fyrir rekstri frystihúsanna og reyndar annarra fiskvinnslufyrirtækja er slíkt að flestir þeirra vita ekki sitt rjúkandi ráð. Slík eru þau skilyrði sem greininni eru búin.``
    Það felst ekki mikil bjartsýni í þessum orðum og áreiðanlega eru þau réttmæt, en þau hljóma ekki ókunnuglega. Það hefur ekki svo lítið verið talað um gjaldþrot og hörmungar í þessum rekstri síðustu mánuðina og er enn þrátt
fyrir betri afkomu eins og hæstv. ráðherra kom að áðan. En almenningi er vitanlega illskiljanlegt hvernig þetta getur gengið svona langtímum saman og því miður virðast margir sljóvgast fyrir þeim varnaðarorðum sem höfð eru í frammi. Það er svo oft búið að ganga af þessari atvinnugrein rústaðri að með ólíkindum er. Taprekstrarþulan minnir fólk á drenginn sem hrópaði úlfur, úlfur! og varð hált á því eins og við munum.
    Þessi orð mega alls ekki skiljast sem svo að ekki sé ástæða til að taka mark á yfirlýsingum um stöðuna í þessum greinum. Það er nú víðs fjarri. Ástandið er mjög alvarlegt og er búið að vera það lengi og það hefur farið og fór hríðversnandi á síðasta ári þar sem ekki tókst að skapa samstöðu um að búa þessum

fyrirtækjum viðunandi rekstrarskilyrði. Það var einmitt til að gera sér betur grein fyrir hvernig best væri að taka á þessum vanda sem við níu þingmenn úr þingflokkum stjórnarandstöðu lögðum fram þessa skýrslubeiðni snemma á þessu þingi. Við vildum reyna, eins og segir í greinargerðinni, að fylla út í þessa brotkenndu mynd sem almenningur hefur af stöðu þessarar margumtöluðu atvinnugreinar og gera okkur grein fyrir orsökum og helstu þáttum þeirrar erfiðu stöðu sem fiskvinnslan er stöðugt í. Hversu mörg fyrirtæki eru í rauninni vel á vegi stödd eða a.m.k. viðunandi, hversu mörg mjög illa og jafnvel ekki við bjargandi, hvað liggur að baki bullandi taprekstri og hver er meginástæðan fyrir því að sum eru þó rekin með hagnaði. Það þarf ekki að minna á að launakostnaður var af mörgum talinn vega svo þungt í rekstri þessara fyrirtækja að það yrði að hindra umsamdar launahækkanir með lögum og banna fólki að semja um kjör sín.
    Aðrir lögðu áherslu á fjármagnskostnaðinn sem meginbölvald og svo er enn. T.d. var nýlega haft eftir framkvæmdastjóra Búlandstinds á Djúpavogi að á síðasta ári hafi áfallnir vextir, verðbætur og gengismunur verið mun hærri liður hjá fyrirtækinu en laun. Í útgerðarhlutanum er haft eftir honum að þessir liðir séu svipaðir, en í fiskvinnslunni eru vextir og verðbætur 15 millj. kr. hærri en vinnulaunin. Sem dæmi um hve þróunin er ískyggileg benti Ingólfur Sveinsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds á Djúpavogi, á það að árið 1987 hafi vextir, verðbætur og gengismunur numið 75 millj., en á síðasta ári hafi upphæðin verið komin upp í 145 millj. þrátt fyrir að fyrirtækið létti af sér skuldum upp á rúmlega 50 millj. Þetta hljóta að teljast athyglisverðar tölur. En ýmsir aðrir þættir geta vegið þungt, svo sem flutningskostnaður og mismunandi aðstæður til hráefnisöflunar o.fl. o.fl.
    Sú skýrsla sem hér liggur fyrir og er nú til umræðu er vissulega á margan hátt upplýsandi og staðfestir það, sem við höfum margsagt, að staðan er mjög mismunandi eins og hæstv. forsrh. ítrekaði áðan. Þessi skýrsla segir okkur einnig að stærð fyrirtækis hefur mikið að segja fyrir afkomuna. Hún segir okkur enn fremur hversu gífurlega mikilvægt það er hverju fyrirtæki að hafa sæmilega eiginfjárstöðu. Þetta ættu allir að vita og viðurkenna og þetta þarf að vera leiðarljósið þegar menn eru að reyna að taka á vandanum. Skuldbreytingar og lán á lán ofan stoða lítið til lengdar. Það eru bráðabirgðaaðgerðir og af þeim er svo sannarlega komið nóg. Þess vegna verður að vera meginverkefnið að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna til að skapa þeim rekstrargrundvöll.
    Langveigamesti liðurinn í útgjöldum fiskvinnsluhúsanna eru eðlilega hráefniskaupin og sá liður vegur yfirleitt þeim mun þyngra sem fyrirtækin eru verr stödd í rekstri. Það verður hins vegar ekki lesið út úr þeim töflum sem í skýrslunni eru hvert samband er milli umfangs þess þáttar og þess hvernig hráefnið er keypt, hvort það er keypt af útgerð sömu aðila eða á einhvern annan hátt. Þetta með vægi

hráefniskaupanna er vitaskuld ekkert nýtt en ástæða til að leggja á það áherslu, ekki síst með tilliti til þess að nýverið hækkaði fiskverðið og það með samkomulagi allra aðila.
    Launakostnaður er eðlilega stór þáttur einnig. Skárra væri það nú. Þar eru hendurnar sem vinna úr hráefninu. Launakostnaður er allt frá 19,6% af rekstrargjöldum eins best stöddu fyrirtækjanna til 30,2% hjá því verst stadda, þ.e. laun og gjöld vegna framleiðslunnar.
    Forvitnilegt er að laun og kostnaður vegna stjórnunar er einnig tilgreint og má þar sjá hlutfallstölur allt frá 0,3% og upp í 9,7%. Væri fróðlegt að skyggnast betur á bak við þær tölur. Sama er að segja um skrifstofukostnað sem af einhverjum ástæðum er frá mínus 5,8% upp í 3,4%. Kannski hefur þessi mínus alls ekki átt að vera þarna. Ég veit það ekki. En fjármagnskostnaður er af flestum talinn illbærilegur, ekki síst fiskvinnslunni, og augljóslega skiptir hann mjög miklu samkvæmt þessari skýrslu og þarf ekki að ítreka það. Ég hef þegar minnst ögn á það.
    Þannig má rekja sig eftir þessum töflum fram og til baka og alltaf rekst maður á eitthvað forvitnilegt sem kallar á fleiri spurningar. Ég ítreka að ég held að það væri góð venja að fá slíka skýrslu oftar á okkar borð því hér erum við að fjalla um það sem skiptir okkur svo fjarska miklu máli í þjóðarbúskapnum.
    Vitanlega skortir ákveðna þætti sem menn hafa velt mikið fyrir sér eins og
þann þátt hvar á landinu og í hvaða byggðarlögum hagkvæmast er að reka fiskvinnslu. En við mat á slíku þarf auðvitað að taka tillit til fleira en beinna peningalegra sjónarmiða. Það mál er ekkert einfalt og getur aldrei stjórnast gjörsamlega af tölum á blaði.
    Það er svo von okkar sem báðum um þessa skýrslu að af henni verði dreginn lærdómur sem að gagni megi koma. Sá var fyrst og fremst tilgangurinn með þessari skýrslubeiðni. Ástandið hefur alls ekki batnað nægilega síðan þessi beiðni var lögð fram eða þá skýrsla sú sem hér er rædd. Það hvarflar hins vegar ekki að mér að taka undir þann söng að ekkert hafi verið gert til að bæta stöðuna eins og enn þá heyrist. Það hefur verið gert. Hundruðum milljóna hefur verið dælt í þennan atvinnuveg í formi beinna framlaga, lána og skuldbreytinga. Staðan hefur batnað þannig að tap fiskvinnslunnar hefur minnkað á heildina litið. En tap er þar samt. Og við getum ekki beðið eftir neinu kraftaverki. Það þarf að bæta rekstrarskilyrði fiskvinnslunnar og eyða óvissu og óöryggi þeirra sem við hana vinna. Ríkisstjórnin þarf t.d. að gera skýra grein fyrir því hvernig hún hyggst bregðast við í vor þegar peningana þrýtur í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og hvernig staðið verði að endurgreiðslu söluskatts og hvort og hvernig hún ætlar að standa við fyrirheit um lækkun orkukostnaðar í frystingunni.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hér á eftir. Og ég get endurtekið það sem ég nefndi hér: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við í vor þegar peningana þrýtur í Verðjöfnunarsjóði

fiskiðnaðarins? Hvernig verður staðið að endurgreiðslu söluskatts? Og ætlar hún, og þá á hvern hátt, að standa við fyrirheit um niðurgreiðslu eða lækkun orkukostnaðar í fiskvinnslunni?
    Það dylst engum sem eitthvað þekkir til ástandsins að innan skamms þarf annaðhvort beinar aðgerðir af þessu tagi eða að breyta rekstrarskilyrðunum með almennum aðgerðum eins og gengislækkun. Ég held að það sé lítil skynsemi í því að bíða eftir kraftaverki.
    En ég vil endurteka þakkir mínar fyrir þessa skýrslu þó ég hafi gagnrýnt hana. Að vísu ekki harkalega að mínu mati. Mér fannst hún mjög gagnleg og fróðleg og endurtek þá skoðun mína að skýrslu af þessu tagi þyrftum við að fá oftar á okkar borð.