Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða við hæstv. utanrrh. um heræfingar sem Bandaríkjamenn hafa óskað eftir að fá að halda hér á landi nú í júní. Ég vil taka það strax fram áður en lengra er haldið að ég er sammála hæstv. forsrh. um að þessar heræfingar séu tímaskekkja og að ekki beri að heimila þær. Ég þori því miður ekki að treysta því að hæstv. utanrrh. sé okkur forsrh. fyllilega sammála í þessu efni og þess vegna langar mig til að biðja hæstv. utanrrh. um að greina þingheimi frá aðdraganda málsins og viðhorfi sínu til þess. Ég hef afhent honum spurningar í ellefu liðum sem mig langar til að fara hér yfir:
    1. Hvenær barst varnarmáladeild ósk Bandaríkjamanna um umræddar æfingar?
    2. Hvenær var umrædd ósk lögð fyrir utanrrh.?
    3. Hvar óska Bandaríkjamenn eftir því að æfingarnar fari fram?
    4. Hve margir óska Bandaríkjamenn eftir að taki þátt í heræfingunum?
    5. Hvaða búnað er óskað eftir að nota við æfingarnar?
    6. Hvaða dag áforma Bandaríkjamenn að boða út lið til æfinganna?
    7. Hve marga daga óska Bandaríkjamenn eftir að æfingarnar standi?
    8. Hvers lags lið er það sem Bandaríkjamenn óska eftir að æfa hér?
    9. Hvaða tilgangi telur hæstv. utanrrh. að þessar hugsanlegu heræfingar þjóni?
    10. Hvaða tök hefur hæstv. utanrrh. á að koma í veg fyrir að æfingarnar fari fram?
    11. Hvaða umfjöllun hefur ósk Bandaríkjamanna fengið í ríkisstjórn Íslands?
    Ég leyfi mér að vona það að hæstv. utanrrh. taki á þessu máli af festu og alvöru og treysti sér til þess að gefa fullnægjandi svör við þeim spurningum sem ég ber hér fram og mér finnast allar nokkuð brýnar til þess að upplýsa þetta mál. Ég þarf ekki að minna hæstv. utanrrh. á að honum ber sem utanrrh. að gæta hagsmuna Íslendinga og í fljótu bragði fæ ég ekki séð að fyrirhugaðar æfingar þjóni hagsmunum Íslendinga. Þvert á móti held ég að hagsmunir Íslendinga felist í því fremur öðru að leggja sitt lóð á vogarskál friðar í heiminum, stuðla að friði og afvopnun þar sem við fáum því við komið en ekki stofna til stríðsleikja jafnvel þó hér sé ekki um umfangsmestu gerð af heræfingum að ræða.
    Það gildir reyndar það sama um herstöðina. Ég held að hún hafi takmarkað gildi fyrir Íslendinga og engin ástæða til þess að fyllast sérstakri öryggiskennd út af því að hún er þarna á Miðnesheiðinni. Hún er ekki þar til að verja Íslendinga. Hún er aðvörunarstöð fyrir Bandaríkjamenn og til að þjóna vörnum Bandaríkjamanna. Þetta varalið, sem mér skilst að hér eigi að fara að æfa sig eða langi til að æfa sig, er ekki til að verja Ísland heldur til þess að verja þessa herstöð fyrir hugsanlegum óskunda sem einhverjir kynnu að vilja gera henni. Ég átti þess kost í fyrra

meðan ég sat í utanrmn. að fara í kynnisför um herstöðina og okkur var sýnd þar starfsemi og gerð að því er mér fannst nokkuð nákvæm grein fyrir því hvað þarna væri um að vera og eftir þá skoðunarferð held ég að það sé enn minna hald í herliðinu en ég gerði mér grein fyrir. Sumt af þeim búnaði sem þarna var í fyrra er ótrúlega úreltur, t.d. staðsetningarbúnaður óvinaflugvéla sem er nánast broslegur, og þarna eru menn að leik en ekki að alvarlegu starfi.
    Sjónvarpið sýndi í gærkvöld mynd í Kastljósi, ég undirstrika: mynd frá hernum, frá Bandaríkjaher sjálfum, þar sem greint var frá og lýst æfingum sem fóru fram 1987. Ég tek það fram að þær voru í miklu minni stíl en þessar og miklu fámennari. Samt þótti bandaríska hernum ástæða til að festa þessi ósköp á filmu. Það vakti athygli mína hvað þarna var æft. T.d. svokallaður NBC-búnaður sem þótti aldeilis ómetanlegur ef ég man rétt. NBC er skammstöfun ef ég veit rétt fyrir Nuclear Biochemical-búnað. Þarna var sýndur stríðsleikur með tilfæringum og þulurinn sagði svo: kjarnorku-, sýkla- og efnavopnaæfingin sjálf er talin dýrmæt reynsla fyrir liðið. Ég vissi ekki áður að kjarnorku-, sýkla- eða efnavopnaæfingar væru stundaðar á Íslandi. Það kom mér nokkuð á óvart og ég ætla að vona að svo verði ekki nú. Þess vegna spyr ég hvaða búnað Bandaríkjamenn óski eftir að nota við þessar æfingar.
    Ég spurði hvers lags lið Bandaríkjamenn óski eftir að æfa hér. Mér skilst og það kann að vera rangur skilningur, en mér skilst að hér sé um svokallað varalið að ræða, þ.e. bandaríska heimilisfeður sem eru skráðir í svokallað varalið og til stendur að kalla saman á þjóðhátíðardegi Íslendinga til þess að skreppa í ferð til Íslands, kynnis- og e.t.v. skemmtiferð. Þar þurfa þeir að skríða svolítið á fjórum fótum og ég kenni ekki í brjósti um þá fyrir það, mér er alveg sama þó þeir geri það, en þeir eiga líka að handleika þarna ef að líkum lætur stórhættuleg drápstól og kannski af takmarkaðri fyrirhyggju. Það er að vísu heppilegt að æfingin er gerð um sólstöður svo að þeir þurfi ekki að passa sig á myrkrinu eins og maðurinn segir. 1987 kom í ljós að liðið hafði verið mjög heppið með veður því að það var alltaf sólskin í þessu bíói sem þjóðinni var sýnt í gærkvöld, en það getur að sjálfsögðu brugðið til beggja vona með það.
    Það var hins vegar ekki sýnt hver vandi þessum her var á höndum og í hvers lags feiknalega hættu menn lögðu sig því að þeir áttu í vandræðum með kríuna og það reyndist ekki unnt fyrir liðið að verjast kríunni. Ég held nú að með tilliti til þess að krían á ekki síður tilkall til þessarar heiðar en Bandaríkjamenn ættum við að standa með kríunni í þessu efni og ekki setja gesti okkar í óþarfa hættu út af fuglunum.
    Ég held sem sagt að hæstv. utanrrh. ætti að taka á sig rögg og leyfa ekki þessar umbeðnu æfingar. Ég sé ekki að þær þjóni íslenskum hagsmunum. Ég fæ ekki séð að þær auki við varnir landsins. Ég fæ ekki séð að þær auki við öryggiskennd landsmanna nema þá e.t.v. örfárra manna í Morgunblaðshöllinni, en þeir eru

ábyggilega ekki margir. Og þar af leiðir: Þetta skapar ónæði fyrir kríuna. Það er ekki viðfelldin framkoma að kveðja liðið saman á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Það er nánast ögrun. Þess vegna fer ég fram á það og vona sannarlega að í ræðustól hér næst á eftir lýsi hæstv. utanrrh. því yfir að hann ætli ekki að heimila þessar æfingar.