Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þær gerast kynlegri með degi hverjum uppákomurnar innan stjórnarliðsins og þessi uppákoma í dag, þar sem formaður þingflokks framsóknarmanna hefur umræðu utan dagskrár, er enn eitt dæmið þar um.
    Það má segja að sú umræða sem hér fer fram sé kyndug a.m.k. í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi gerist það að formaður þingflokks framsóknarmanna hefur umræðu utan dagskrár um hefðbundnar og reglulegar heræfingar sem Framsfl. hefur haft forustu um mörg undangengin ár. Í öðru lagi gerist það að formaður þingflokks framsóknarmanna hefur forgöngu um umræður utan dagskrár gegn utanrrh. ríkisstjórnarinnar. Nú á það að heita svo að Framsfl. fari a.m.k. að formi til með forustu í þessari hæstv. ríkisstjórn og það hlýtur því að sæta allmiklum tíðindum þegar formaður þingflokks þessa svonefnda forustuflokks ríkisstjórnarinnar hefur hér umræðu utan dagskrár gegn utanrrh. ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að það séu ekki mörg dæmi um þetta. Mér sýnist að þetta beri vott um þá þverbresti sem eiga sér stað í þessu stjórnarsamstarfi, þau óheilindi sem þar búa að baki. En auðvitað er það svo allt hið alvarlegasta mál, ekki síst þegar um er að ræða málefni sem lúta að afstöðu Íslands til utanríkismála og varnar- og öryggishagsmunamála landsins sjálfs. En þessi umræða er athyglisverð fyrir þetta tvennt.
    Samkvæmt efni málsins sýnist mér að það sé varla að það hafi rúmast samkvæmt ákvæðum þingskapa að heimila um það umræðu samkvæmt þessum lið utan dagskrár. Það er ekki mikilvægt mál. Hér er um að ræða hefðbundnar smávægilegar heræfingar og það hefur þegar komið fram í máli hæstv. utanrrh. varðandi allar tímasetningar að það getur ekki talist vera svo brýnt að það hefði ekki verið unnt að taka það upp með venjulegum hætti. En að hinu leytinu er málið auðvitað mikilvægt, sem ég nefndi, að formaður þingflokks forustuflokks ríkisstjórnarinnar tekur hér upp mál gegn utanrrh. og það eitt út af fyrir sig réttlætir að umræða fari fram um þetta utan dagskrár og það allítarleg.
    Ef við lítum fyrst á efni málsins hefur það þegar verið rakið af hæstv. utanrrh. að æfingar þær sem fyrir dyrum standa eru mjög venjulegar. Þær hafa farið fram, að vísu með heldur færri mönnum, áður. Þær eru svo smávægilegar að samkvæmt alþjóðlegum samningum eru þær ekki einu sinni tilkynningarskyldar og um þetta hefur verið fjallað af íslenskum stjórnvöldum árum saman. Þetta er allt og sumt þegar haft er í huga hversu mikið er haft við af hv. 1. þm. Norðurl. v., formanni þingflokks framsóknarmanna.
    Það er ljóst að æfingar sem þessar eru á valdi Íslendinga. Það er Íslendinga sjálfra að ákveða hvort þær fara fram eða ekki með nákvæmlega sama hætti og það er okkar ákvörðun að við höfum hér varnarlið samkvæmt sérstökum samningi og erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og íslenskar ríkisstjórnir með þátttöku og undir forustu framsóknarmanna hafa tekið ákvarðanir um þetta hvað eftir annað. Það hafa verið

teknar ákvarðanir um þetta þar sem Framsfl. hefur haft forustu og forsæti í ríkisstjórn. Það hafa verið teknar ákvarðanir um þetta þar sem Framsfl. hefur farið með utanrrn. Svo allt í einu núna er talin ástæða til þess að gera þetta að sérstöku upphlaupsmáli gegn hæstv. utanrrh.
    En við hljótum að spyrja þeirrar spurningar þegar umræða af þessu tagi fer fram: Er eðlilegt að æfingar sem þessar séu stundaðar? Þá skulum við velta því fyrir okkur til hvers varnarliðið er hér, hvaða tilgangi það þjónar og hverju við höfum náð fram með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að við eigum að gera kröfur til varnarliðsins. Við eigum að gera kröfur til þess að það ræki skyldur sínar samkvæmt þessum samningi og uppfylli þær í hvívetna. Hér er um að ræða gagnkvæman samning sem báðar þjóðirnar telja sér hag í og við eigum að ganga eftir því að þessum samningi sé fullnægt í hvívetna. Það var einmitt út frá þessum sjónarmiðum sem Geir Hallgrímsson sem utanrrh. fór að huga að virkari þátttöku Íslendinga í störfum innan Atlantshafsbandalagsins og með því að gera auknar kröfur til varnarliðsins sjálfs. Og það er í samræmi við slíkar kröfur sem við gerum um það að þeir sýni fram á að þeir geti sent hingað liðsauka sem sé viðbúinn og kunni hér til aðstæðna ef hættu ber að. Það er einmitt í samræmi við þessar kröfur sem slíkar æfingar fara fram og sú stefna var mótuð fyrst og fremst af Geir Hallgrímssyni sem utanrrh. að við tækjum aukinn þátt í störfum innan Atlantshafsbandalagsins og gerðum þessar kröfur. ( Utanrrh.: Reyndar einnig af Ólafi Jóhannessyni.) Ekki skal ég rýra hlut Ólafs Jóhannessonar í þessu efni.
    Við tökum nú virkari þátt í störfum hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins. Fulltrúi Íslands hefur tekið þátt í störfum kjarnorkuvopnanefndar Atlantshafsbandalagsins. Við höfum komið okkur upp sérfræðingum á þessum sviðum varnar- og öryggismála og smám saman verið að gera okkur sjálfa hæfari til þess að taka ákvarðanir og gera kröfur í þessum efnum. Slíkar æfingar hafa farið fram, eins og þegar hefur komið fram í umræðunum, árin 1985 og 1987. Framsfl. hafði forustu í þeirri ríkisstjórn þegar æfingar þessa varaliðs voru hafnar. Það hefur komið fram að tilkynningar um þær æfingar sem nú eru fyrirhugaðar bárust utanrrn. meðan Framsfl. hafði enn húsbóndavald í því
ráðuneyti. Allt ber þess vegna að einni og sömu niðurstöðu. Hér er um að ræða smávægilegar heræfingar. Þær hafa eigi að síður gildi fyrir starf varnarliðsins og stefnumótun okkar í þessum efnum þar sem við gerum auknar kröfur sjálfir til varnarliðsins. Það er í hæsta máta óviðurkvæmilegt, ekki síst með tilliti til þess að hér er um að ræða gagnkvæman samning þar sem við erum að leggja skyldur á borgara annars lands til að taka þátt í vörnum Íslands, að gera lítið úr störfum þeirra og vilja til þess að taka þátt í því verki og ber að harma

ummæli hæstv. forsrh. sem hafa lotið að því að gera lítið úr þeim mönnum sem eru reiðubúnir til að taka sameiginlega með okkur þátt í vörnum landsins.
    Það hefur líka komið fram að það er ekki einasta að íslenskum stjórnvöldum hafi verið gerð grein fyrir þessum fyrirhuguðu æfingum með miklum fyrirvara og þar á meðal forustumönnum Framsfl. heldur voru þegar í nóvember fluttar fréttir í Morgunblaðinu um þessar fyrirhuguðu æfingar. Af því tilefni spunnust engar umræður. Það var mjög ítarleg frétt sem þá var flutt. En á þeim tíma sá formaður þingflokks Framsfl. enga ástæðu til að hlaupa upp og hefja utandagskrárumræður gegn utanrrh. þeirrar ríkisstjórnar sem flokkur hans á að heita að hafa forustu fyrir. Þá var engin ástæða til þess. Þá var engin tímaþröng. Og menn spyrja: Hvað hefur breyst á þessum fáu mánuðum fyrst ekki var tilefni til að taka þetta upp, ekki þegar tilkynningar bárust stjórnvöldum og forustumönnum Framsfl. og ekki þegar Morgunblaðið hafði í nóvember birt um þetta frétt, en allt í einu núna er þetta tilefni til sérstakrar umræðu og árása á utanrrh.? Það hefur eitthvað mikið breyst frá því í nóvembermánuði.
    Hér hefur komið fram í máli hæstv. utanrrh. að bæði Geir Hallgrímsson sem utanrrh. og núv. hæstv. forsrh. sem utanrrh. fyrri ríkisstjórna hafa gert Alþingi grein fyrir þessum heræfingum í skýrslum sínum til Alþingis. Það hefur komið fram opinberlega að hæstv. núv. forsrh. fór í kynnisferð á Keflavíkurflugvöll. Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að í þeirri kynnisferð í ágúst 1987 hafi hann fengið allar upplýsingar um þessar fyrirhuguðu æfingar. Og í fjölmiðlum hefur getum verið leitt að því að í kynnisferð utanrmn., sem hv. formaður þingflokks framsóknarmanna gat um hér fyrr í umræðunni, hafi þingmönnum í utanrmn. verið gerð grein fyrir þessum æfingum. Þannig hefur þingmönnum og stjórnvöldum verið gerð fullkomin grein fyrir þessum eðlilega þætti í starfsemi varnarliðsins.
    Þá er það spurning, sem menn þurfa að svara eftir að slíkt upphlaup hefur farið fram, hvort slíkar smávægilegar heræfingar séu í einhverri mótsögn við þá þíðu sem nú er í alþjóðasamskiptum, einhverri mótsögn við þá gleðilegu þróun til aukinnar afvopnunar og bættrar sambúðar milli austurs og vesturs og milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna? Því er auðvitað fljótsvarað. Slíkar æfingar eru ekki í neinni mótsögn við þessa þróun. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í þeim samningum sem menn gera nú um afvopnun og takmörkun herafla að heræfingar fari fram og aðilar geti fylgst með heræfingum og fái upplýsingar um heræfingar hvor annars. Þetta er einmitt talinn einn mikilvægasti þáttur þeirrar nýju þróunar sem á sér stað í afvopnunarmálum. Ég minnist þess að sl. sumar þótti það vera einn merkilegasti þáttur þessarar nýju þróunar þegar þáv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna fylgdist með mjög umfangsmiklum heræfingum í Sovétríkjunum. Það var ekki einasta svo að þær heræfingar og sú heimsókn varnarmálaráðherra Bandaríkjanna væru talin í

samræmi við þá nýju þróun sem átt hefur sér stað heldur var sú heimsókn og voru þær heræfingar taldar vera snar þáttur og skýrt dæmi um batnandi sambúð austurs og vesturs, batnandi sambúð Ráðstjórnarríkjanna og Bandaríkjanna. Athugasemdir af þessu tagi hafa því ekki við nein rök að styðjast.
    Atlantshafsbandalagið hefur nú starfað í fjóra áratugi og það er augljóst að það er fyrst og fremst styrkur þess og staðfesta sem hefur leitt til þeirrar gleðilegu þróunar sem við erum að upplifa, fyrst og fremst styrkur og staðfesta Atlantshafsbandalagsins sem hefur verið áhrifamesta friðarbandalag sem um getur og styrkasta stoð í sókn og vörn fyrir lýðræði og mannréttindi í Evrópu. Það eru þessar staðreyndir sem við blasa. Við erum þátttakendur í þessu bandalagi bæði vegna þess að við teljum það þjóna okkar eigin öryggishagsmunum og við teljum að með þeim hætti getum við lagt nokkuð af mörkum sjálfir, Íslendingar, í sókn og vörn fyrir lýðræði og frelsi. Á þeim grundvelli höfum við gert gagnkvæman samning við Bandaríkjamenn um varnir landsins.
    Þá er það hin hlið málsins sem hér hefur í raun verið gerð af hv. 1. þm. Norðurl. v. að meginefni og höfuðatriði þessara umræðna því að útilokað er að efni þessara heræfinga hafi í raun verið tilefni þessarar utandagskrárumræðu. Þar hlýtur annað að liggja að baki, enda var hv. þm. í lófa lagið að hefja þær miklu fyrr ef hann vildi einhverju koma fram í því efni í þeim tilgangi að hindra að æfingarnar færu fram. Nei, það sem er augljóst í þessu er að einmitt á þessum tímapunkti taldi formaður þingflokks framsóknarmanna rétt að sækja nú fast að utanrrh. og Alþfl. af því að vegna ástandsins innan ríkisstjórnarinnar væri skynsamlegt að nota þetta mál í þeim tilgangi.
    Nú ætla ég út af fyrir sig ekki að fara að taka upp varnir fyrir Alþfl. í þessu samstarfi nema síður sé, en hitt er augljóst að þessi einn getur hafa verið tilgangur formanns þingfokks framsóknarmanna að nota þetta í þessu skyni vegna þess að ef annað hefði verið upp á teningnum hefði hann notað fréttina í Morgunblaðinu í nóvember sem tilefni til umræðna hér á hinu háa Alþingi.
    Og í hvaða umboði talar formaður þingflokks framsóknarmanna? Það voru fluttar af því fréttir hér í haust að þar hefðu innan dyra staðið miklar deilur um hver ætti að taka sæti flokksins í utanrmn. og formaður þingflokksins beið lægri hlut í þeim deilum. Leiðtogi vinstri arms flokksins beið lægri hlut í þeim deilum. Kemur hann hér í umboði framsóknarmanna eða kemur hann hér í umboði þess arms sem beið lægri hlut þegar framsóknarmenn voru að ákveða hvern skipa ætti fulltrúa í utanrmn.? Það fór ekkert milli mála að þar tókust á tvenns konar skoðanir. Það hefur ekkert farið leynt að formaður utanrmn. hefur haft aðrar skoðanir í utanríkis- og varnarmálum en forustumaður vinstri arms Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. v. Í hvaða umboði talar þingmaðurinn hér, hv. formaður þingflokksins? Fyrir þingflokkinn allan? Hefur hann mótað nýja stefnu? Eða einungis fyrir vinstri arminn sem hann er ókrýndur leiðtogi fyrir?

    Og það vekur auðvitað nokkra athygli hvernig að þessari umræðu er staðið, að málshefjandi, formaður þingflokks framsóknarmanna, virtist ekki, eftir því sem sjónvarpsáhorfendur tóku eftir, hafa haft fyrir því að tilkynna formanni utanrmn. úr sínum eigin flokki að þessar umræður ættu að fara fram því að sjónvarpsáhorfendur sáu ekki betur í umræðuþætti um utanríkismál fyrir nokkrum dögum en það væri hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem á þeim vettvangi tilkynnti formanni utanrmn. um þær umræður sem hér ættu að fara fram í dag. Það lýsir nú kannski enn betur því sem hér er á ferðinni, að vinstri armur framsóknar, sem hefur verið í sérstöku bandalagi auðvitað við Alþb. og til þjónustu reiðubúinn til að framfylgja stefnu þess í efnahagsmálum, virðist nú koma fram í þessu bandalagi og ætla að ganga erinda Alþb. í umræðum um utanríkismál einnig. Það eru gömul tengsl þar á milli. Núverandi forusta Alþb. er sprottin úr vinstra armi Framsfl. og tengslin því augljós.
    Það er líka nokkuð ljóst að Alþb. meinar ekkert efnislega með opinberri afstöðu sinni í þessu máli. Ef Alþb. meinti eitthvað með því sem talsmenn þess eru að segja hefðu þeir tekið málið upp þegar fyrstu fréttir voru birtar um þetta í nóvember. En þá þögðu þeir þunnu hljóði. Þá var ekki ástæða til þess að taka málið upp í ríkisstjórn eða bóka mótmæli gegn þessum heræfingum. Þá þótti það einfaldlega sjálfsagt. Á þeim tíma fóru fram hinar miklu umræður um sameiningu A-flokkanna og þessi alkunna trúlofun formanna Framsfl. og Alþfl. Þá viku öll svona smámál fyrir meiri háttar málum. En nú sýnist annað vera upp á teningnum. Trúlofunin --- ja, ef hún er ekki brostin hefur a.m.k. eitthvað slaknað á trúlofunarsambandinu. Og umræður um sameiningu A-flokkanna virðast vera úr sögunni. Þá er allt í einu tími til þess að taka þetta mál upp.
    Auðvitað meinar Alþb. ekkert með þessu. Alþb. hefur nú tekið þátt í mörgum ríkisstjórnum þar sem það hefur vikið þessu fyrrum grundvallarstefnuatriði sínu til hliðar vegna ,,annarra hagsmuna`` eins og þeir hafa sagt. Þeir hafa setið í ríkisstjórnum þar sem veruleg aukning hefur verið á framkvæmdum og varnarviðbúnaði á Keflavíkurflugvelli án þess að hreyfa hinum minnstu andmælum og engum dettur í hug að í þessu tilviki mundi það hafa nokkur áhrif á stöðu þeirra eða afstöðu til stjórnarsamstarfs þó að þessar heræfingar færu fram.
    Þess vegna liggur í augum uppi að öll þessi umræða fer af stað fyrir forgöngu formanns þingflokks framsóknarmanna til að opinbera þau átök sem nú eiga sér stað á milli stjórnarflokkanna, þá málefnalegu uppgjöf sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir. Það bar til tíðinda í síðustu viku að hæstv. forsrh. gaf þá yfirlýsingu að hann mundi, ef hann hefði átt þess kost að taka þátt í atkvæðagreiðslu um stuðning við ríkisstjórnina, hafa setið hjá. Trúin er svo horfin að hæstv. forsrh. sagðist mundu sitja hjá ef hann ætti þess kost að taka þátt í atkvæðagreiðslu um stuðning við ríkisstjórnina. Það er einmitt við þessar aðstæður,

sem hæstv. forsrh. hefur best lýst, að jafnvel forsrh. sjálfur treystir sér ekki að taka til varna, að formaður þingflokks Framsfl. notar þetta mál í þeim tilgangi einum að sýna hér fangbrögð stjórnarflokkanna þegar stjórnarstefna Alþb. hefur beðið hreint skipbrot.
    Það er líka athyglivert að ríkishljóðvarpið skuli ekki hafa veitt þessu máli neina athygli þegar Morgunblaðið flutti fyrstu fréttir um þetta. En þá fyrst þegar dró að því að nánast útdauð Samtök herstöðvaandstæðinga þurftu að fara að auglýsa upp fundi sína í kringum 30. mars var byrjað að dæla fréttum um þessar heræfingar. Og skyldi það vera tilviljun? Skyldi það vera tilviljun? Mér er spurn.
    Auðvitað verður þetta mál talsverður prófsteinn á hæstv. utanrrh. Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð keypti að því er virðist Alþfl. aðild að stjórninni því verði að fórna stefnu sinni í efnahags- og atvinnumálum, en fékk að því er virðist umboð til að fylgja hefðbundinni og viðurkenndri stefnu í utanríkismálum. Og þó að Alþfl. hafi ekki fengið ákvæði um það inn í sjálfan
stjórnarsáttmálann í fyrsta sinn sem ríkisstjórn á Íslandi er mynduð síðan við gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu að engum orðum er vikið að þeim grundvallarþætti utanríkisstefnunnar, þá verður að segja það eins og er að hæstv. utanrrh. hefur staðið sig með stakri prýði í að fylgja fram þeirri utanríkisstefnu sem mótuð hefur verið og fylgt hefur verið á undangengnum árum.
    En á það var bent við myndun þessarar ríkisstjórnar að hætta væri á því þegar halla færi undan fæti hjá hæstv. ríkisstjórn að samstarfsflokkarnir færu að herða að hæstv. utanrrh. og þá kynni svo að fara að Alþfl. mundi ekki aðeins fórna stefnu sinni í efnahags- og atvinnumálum heldur yrði hann neyddur til þess að kaupa áframhaldandi setu í ríkisstjórninni með því að breyta um áherslur og jafnvel stefnu í utanríkismálum. Það er kannski ein svoleiðis æfing sem þeir eru að taka, vinstri armurinn í Framsfl. og Alþb., að sjá hversu langt þeir komast með hæstv. utanrrh.
    Hæstv. utanrrh. sagði fyrr í vetur mjög galvaskur að hann ætlaði sér að láta fram fara sérstaka athugun á varaflugvelli. Í Þjóðviljanum sl. föstudag er fjallað um þessi mál, með leyfi forseta: ,,Stjórnin er hálfs árs gömul og þegar hefur kastast í kekki í þessum málaflokki og nýr ágreiningur virðist í uppsiglingu. Öllum er í fersku minni, enda skammt um liðið, þegar utanrrh. lét það boð út ganga að hann hygðist heimila Mannvirkjasjóði NATO að láta kanna hagkvæmni þess að leggja herflugvöll á Íslandi. Þeim fyrirætlunum var hnekkt enda hafði ráðherrann teygt sig um spönn of langt í því því samgöngumál eru sem kunnugt er á forræði samgrh.``
    Í lok síðustu viku tilkynnir Þjóðviljinn að þessum áformum hæstv. utanrrh. hafi nú þegar verið hnekkt. (Utanrrh.: Nú er óvarlegt að treysta heimildinni.) Nú er óvarlegt að treysta heimildinni, segir hæstv. utanrrh., og ég vænti þess, ef þessi heimild er ekki rétt og ef þetta málgagn ríkisstjórnarinnar, þess flokks

sem hefur haft forustuna um mótun stefnunnar í efnahags- og atvinnumálum í ríkisstjórninni, fer ekki með rétt mál í þessu efni, sem ætla mætti eftir frammíkalli hæstv. utanrrh., þá óska ég eftir því að hæstv. ráðherra komi hér upp og afsanni þessa fullyrðingu Þjóðviljans. Það veit ég að mundi mælast vel fyrir meðal fólksins í landinu. Meðan hæstv. ráðherra stendur einarður í því að fylgja fram þeirri utanríkisstefnu sem víðtæk samstaða er um á meðal þjóðarinnar hefur hann stuðning til þess. En það er alveg kristaltært að vinstri armurinn í framsókn og Alþb. hafa ætlað að grípa tækifærið þegar þeir sáu minnkandi gengi Alþfl. í skoðanakönnunum og ætluðu að láta á það reyna hvort við slíkar aðstæður væri ekki unnt að nota ótta þeirra til að knýja fram einhverjar breytingar, kannski ekki nema smááherslubreytingar, í utanríkismálum.
    Það er þess vegna augljóst þó að mál þetta, frú forseti, sé að efni til að því er varðar æfingarnar sjálfar ekki stórvægilegt, að sú pólitíska umræða sem hér fer fram er mjög mikilvæg og athyglisverð og hún ber vitni um þá þverbresti sem eru innan stjórnarsamstarfsins. Og framhald þessara mála verður auðvitað mikill prófsteinn á hæstv. utanrrh.