Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. Páli Péturssyni fyrir að kveðja sér hljóðs utan dagskrár um þetta mál. Eftir að fréttir bárust í dymbilviku um heræfinguna sendu kvennalistakonur frá sér yfirlýsingu þar sem vanþóknun er lýst á þessum fyrirhuguðu heræfingum hér á landi næsta sumar. Samþykkt Kvennalistans hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Kvennalistakonur mótmæla þeirri óhæfu að umfangsmiklar heræfingar skuli leyfðar hér á landi og það á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Það hlýtur að vekja furðu hvers sómakærs Íslendings að stjórnvöld skuli glúpna fyrir slíkri ögrun. Kvennalistakonur eru andvígar hernaðarumsvifum og hugarfari hermennskunnar og þykir sem varla hafi birst hér á landi jafnglöggt dæmi um hernám hugans. Þjóðhátíðardegi Íslendinga væri betur varið til að reyna að uppræta slíkt hugarfar en ala á því.``
    Það hefur að vísu verið borið til baka að heræfingin byrji á sjálfan þjóðarhátíðardaginn, enda hefur þessum háu herrum e.t.v. verið bent á að skothríð á þeim degi væri ekki viðeigandi. Líklega leggja þó flugvélarnar með dátana af stað þann 17. júní, en hermennirnir safna væntanlega kröftum og hafa hljótt um sig þar til þjóðhátíðardagurinn er liðinn. En eðli og umfang heræfinganna breytist ekkert þótt dagurinn sé fluttur til. Hugarfar hermennskunnar svífur alls staðar yfir vötnum.
    Þótt hér sé um afmarkaðan atburð að ræða hljótum við samt að skoða þetta mál í ljósi þess sem hefur verið að gerast á undanförnum árum, m.a. á alþjóðavettvangi.
    Fyrir Reykjavíkurfundinn haustið 1986 stóðu risaveldin grá fyrir járnum hvort andspænis öðru. Vígbúnaðarkapphlaupið var í algleymingi og eyðingarmáttur kjarnavopna slíkur að hægt var og er reyndar enn að eyða mannkyninu ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum. Þau merku tímamót sem urðu með Reykjavíkurfundinum vöktu vonir um að þíða væri fram undan í samskiptum stórveldanna, hið vitfirrta vígbúnaðarkapphlaup yrði stöðvað og snúið í átt til afvopnunar. Margir urðu til að setja fram hugmyndir um að Ísland yrði miðstöð friðar- og afvopnunarviðræðna í framtíðinni og forsrh. landsins, Steingrímur Hermannsson, stakk upp á í tengslum við Reykjavíkurfundinn að komið yrði á friðarstofnun hér á landi.
    Næsta skref eftir Reykjavíkurfundinn var undirritun samninga um útrýmingu allra meðal- og skammdrægra kjarnaflauga á landi og bjartsýni ríkir um árangur viðræðna um fækkun langdrægra flauga. Árangur RÖSE-viðræðnanna í Vín um fækkun í hefðbundnum herafla í Evrópu hafa einnig vakið bjartsýni.
    Einn þáttur í vígbúnaðarmálum sker sig sérstaklega úr. Hann er sú hætta sem felst í því að um leið og vopnum fækkar á landi muni þeim fjölga í og á höfunum. Þetta er mál sem snertir okkur Íslendinga sérstaklega þó ég vilji leggja áherslu á að kjarnorkuvopn þekkja engin landamæri.

    Utanríkisráðherrar Íslands hafa á undanförnum árum lýst áhyggjum sínum vegna þessa á þingum Sameinuðu þjóðanna, síðast Jón Hannibalsson haustið 1988. Ekkert frumkvæði hefur komið frá Íslandi að því er varðar þessi mál þrátt fyrir yfirlýstan friðarvilja og að því er virðist áhyggjur af þeirri þróun að vopnum fjölgi stöðugt í höfunum.
    Í Morgunblaðinu 2. mars sl. er sagt frá minnkandi flotaumsvifum Sovétmanna á Atlantshafi sl. þrjú ár samkvæmt heimildum leyniþjónustu breska flotans. Í sömu frétt er haft eftir yfirmanni herliðsins á Keflavíkurflugvelli að dregið hafi úr ferðum sovéskra kafbáta og flugvéla hér við land á undanförnum árum. Þannig eru aukin hernaðarumsvif Bandaríkjamanna hér á landi og NATO í Norðurhöfum í ósamræmi við þessi minnkuðu umsvif Sovétmanna. Hvernig getur það farið saman við óskir Íslendinga um afvopnun á höfum að hér skuli eiga að fara fram mestu heræfingar frá stríðslokum? Er það dæmi um friðarvilja okkar að leyfa slíkar heræfingar? Að mínu mati er það hrein ögrun við þá sem eru núna að vinna að afvopnunarmálum og í hrópandi mótsögn við þá jákvæðu þróun sem nú á sér stað á þeim vettvangi.
    Í skýrslu utanrrh. Steingríms Hermannssonar til Alþingis 1988 er getið um þær heræfingar sem eiga að fara fram næsta sumar og margoft hefur verið getið um hér í dag. Þar er ekki að sjá neinar efasemdir varðandi þessar heræfingar og ekki annað að sjá en ráðherrann hafi lagt blessun sína yfir þær. Að vísu hefur hann upplýst nú að hann hélt að það væru miklu færri dátar sem þarna væri um að ræða, en ég tel í sjálfu sér engu máli skipta hversu margir þarna eru, heræfingar eru það samt. Nú segir sami maður, sem nú er orðinn forsrh. landsins, að heræfingarnar séu tímaskekkja. Hvað hefur gerst? Hæstv. forsrh. hefur væntanlega ekki gert sér grein fyrir hvað þarna var á ferðinni eða hann hefur skipt um skoðun frá því í fyrra. Annað eins hefur nú gerst.
    Hver sem ástæðan er fagna ég nú sinnaskiptum ráðherrans. Formaður þingflokks Framsfl. er eins og fram er komið andvígur heræfingunum, en ég gat ekki skilið annað á einum hv. þm. framsóknar og formanni utanrmn. í sjónvarpsþætti á föstudaginn var en hann væri harla ánægður með það hernaðarbrölt sem hér fer fram, þar með taldar heræfingarnar næsta sumar. Ekki er ég að ætlast til þess
að allir þingmenn framsóknar hafi sömu skoðun, en óneitanlega er afstaðan á þeim bæ í þessu máli nokkuð ruglingsleg.
    Þáttur núv. hæstv. utanrrh. í þessu máli, sem hefur greinilega vikið úr salnum, ég veit ekki hvers vegna ... ( Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess að biðja utanrrh. að ganga í salinn.) Ég þakka ráðherra fyrir að hafa komið. --- Þáttur hæstv. utanrrh. í þessu máli ætti svo sem ekki að koma á óvart eftir frammistöðu hans í friðar- og afvopnunarmálum í vetur. Það er samt svo að ég varð hissa þegar ég heyrði hvað hann gerði lítið úr þessum fyrirhuguðu æfingum. Hann telur ekki að yfir 1000 hermanna æfing skipti neinu máli, það sé bara smáæfing og taki

varla að ræða hana. Það væri fróðlegt að vita hvers konar heræfingar utanrrh. finnast nægilegar umfangsmiklar til þess að nefna þær. Mér fannst alveg nóg um þegar ég horfði á þá æfingu sem sjónvarpið sýndi í fréttaþættinum Kastljósi í gærkvöld. Sú heræfing var þó miklu minni í sniðum en sú sem á að fara fram í sumar.
    Fram hefur komið hjá ráðherranum að ekki er enn búið að veita leyfi fyrir æfingunni og á föstudaginn var hafði hann ekki fengið upplýsingar um umfang hennar og markmið samkvæmt því sem hann sagði í sjónvarpsviðtali þá. Nú virðist hann þó vera búinn að fá þær upplýsingar sem vantaði, en í viðtalinu lýsti hann þó nánast yfir að hann teldi eðlilegt að æfingin færi fram áður en hann var þó búinn að fá þær upplýsingar sem hann taldi sig þurfa til að geta metið hvort leyfið yrði gefið.
    Ráðherrann virðist einnig vaða í þeirri villu að heræfingin sé liður í því að þjálfa óbreytta Bandaríkjamenn í að verja okkur Íslendinga. Það þarf ekki að kafa djúpt í þessi mál til að sjá að tilvist þessa varaliðs er auðvitað liður í vörnum Bandaríkjanna. Það hefur ekkert með varnir almennings á Íslandi að gera. Það sama gildir um bandaríska herliðið sem er hér á landi. Hvernig dettur líka nokkrum manni í hug að þeir menn sem hingað koma á þjóðhátíðinni og ætla að dvelja innan hergirðingarinnar við æfingar kynnist á nokkurn hátt aðstæðum hér á landi. Þeir eru auðvitað hingað komnir til að æfa sig í að verja herstöðina sem er mikilvægur hlekkur í vörnum Bandaríkjanna.
    Ég skora á hæstv. utanrrh. að leyfa ekki þessar heræfingar. Það er lítið gagn að því að geta komið í veg fyrir æfingarnar ef það er einungis formlega og ef það skiptir meira máli að það er búið að ákveða þetta með svo löngum fyrirvara að aumingja mennirnir sem hafi komið þarna tapi kannski af leyfinu. Ef við getum haft áhrif á eða hann að stöðva þessa heræfingu skora ég á hann að gera það nú þegar.
    Kvennalistakonur eru andvígar hugarfari hermennskunnar. Okkur ber að stöðva allar hernaðarframkvæmdir hér á landi þegar í stað og stefna að friðlýsingu Íslands án vígbúnaðar. Við verðum að hugsa málið og gera upp við okkur hvert við stefnum. Í mínum huga er enginn vafi á því hvert við eigum að stefna og ég er sannfærð um að meiri hluti þjóðarinnar er mér sammála. Notum komandi vordaga og þjóðhátíðina til að uppræta hugarfar hermennskunnar í stað þess að ala á því eins og nú er stefnt að.