Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Þetta var sjálfsagt þörf áminning um efni ræðu manna hér í kvöld, en hún hefði átt að koma fyrr. Hér talaði frá kl. 8.30 til kl. rúmlega 9.30 hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 2. þm. Austurl., og hann kom næsta lítið nálægt því efni sem hér er helst til umræðu. (Gripið fram í.) Hann talaði um allt aðra hluti. Ég skal vissulega verða við þeim tilmælum forseta að halda mig að mestu við það efni sem formaður þingflokks Framsfl. vakti máls á í dag, en það er óhjákvæmilegt að koma líka að ýmsum öðrum hlutum og skal ég þó reyna að stytta mál mitt í ljósi þess að þetta er kvöldfundur og í ljósi þess að einn þingmaður hefur talað hér í á annan klukkutíma frá því að þessar umræður byrjuðu. Hann er satt að segja lýsandi og lifandi tákn þess hve brýn nauðsyn okkur er að endurskoða þingskapareglur í þessu húsi þannig að það geti ríkt eðlilegt jafnrétti milli þingmanna í umræðum af þessu tagi. Og það er ekki í fyrsta skipti sem þessi hv. þm. leikur aðra þingmenn grátt og takmarkar þeirra ræðutíma með því að flytja sjálfur óheyrilega langt mál og oftar en ekki lítið skemmtilegt.
    En það verð ég að segja að sú ræða sem hann flutti hér, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, kom ekki á óvart. Við höfum oft heyrt hana áður og ég var ekki hissa á hans ræðu. Hana ber að skoða í ljósi þess að hann hefur hlotið sitt pólitíska uppeldi undir handarjaðri Ulbrichts og félaga í Austur-Þýskalandi og þessi málflutningur þarf engum manni að koma á óvart og kemur ekki á óvart.
    Ég verð líka að segja að málflutningur þingmanns Kvennalistans áðan kom mér ekkert á óvart. Kvennalistanum hefur í þessum efnum jafnan tekist að vera svolítið vinstra megin við Alþb. ef því er að skipta og þetta er ekkert nýtt af nálinni. Það er deginum ljósara og hefur verið býsna lengi að því er varðar Alþb. og að því er varðar Kvennalistann að allt samstarf, varnarsamstarf við vestrænar þjóðir er eitur í þeirra beinum. En hvað vill þetta fólk? Hvað vill það? Jú, það vill að við hættum samstarfi við t.d. Dani og Norðmenn um öryggis- og varnarmál, að við segjum okkur úr varnarbandalagi lýðræðisþjóðanna, Atlantshafsbandalaginu, bandalaginu sem sannanlega hefur tryggt frið í okkar hluta Evrópu í 40 ár. Sá hópur sem hefur verið í Austur-Evrópu vill þetta þar sem þau sjónarmið og sú lífsstefna sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lítur æðsta og þekkir best hefur ráðið ríkjum.
    Og hvað vill þetta fólk? Já, það vill að við segjum okkur úr varnarsamtökum vestrænna þjóða og einangrum okkur eins og hér var áðan vikið að. Hvað þýðir það? Það þýðir að þau vilja skapa hér tómarúm. Það þýðir það að við munum verða fyrir auknum þrýstingi annars staðar frá. Þetta er alkunn staðreynd. Þrátt fyrir þá þíðu sem nú er í alþjóðamálum held ég að þetta mundi óhjákvæmilega gerast. Halda menn að slík sjónarmið eigi upp á pallborðið t.d. hjá þeim þjóðum sem þolað hafa bitra reynslu eins og Norðmönnum hverra land var hernumið af óvinaher

sem skildi eftir sviðna jörð þar sem símastaurarnir voru meira að segja brenndir niður í svörð í Norður-Noregi? Þessi mál eru bara ekki til umræðu þar á því stigi sem Kvennalistinn og Alþb. ræða um hér.
    Mér finnst heldur ekki ástæða til að hafa þau alvarlegu mál sem hér er verið að ræða núna í flimtingum allt að því eins og gert hefur verið í kvöld. Þessi mál eru vissulega alvarlegri en svo að ástæða sé til slíks og mér þótti það ekki við hæfi þegar 2. þm. Austurl., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, setti sig í gervi eins konar eftirhermu í þessum ræðustól. Mér fannst það afar ómálefnalegur flutningur og satt best að segja ákaflega ómerkilegur. Mér þykir líka svolítið skrýtið að hugsa til þess að sá hv. þm. reri að því öllum árum að verða formaður utanrmn. á sl. hausti. Hann sagði líka í sinni ræðu að tveir af þremur flokkum þessarar ríkisstjórnar hefðu lýst skoðunum sínum á fyrirhuguðum heræfingum hér á landi og átti þar við Alþb. og formann þingflokks Framsfl. Mér þykir miður að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér í salnum þessa stund vegna þess að ég vil spyrja hann: Talaði formaður þingflokks Framsfl. í umboði þingflokksins þegar hann kvaddi sér hljóðs hér utan dagskrár í dag? Kvaddi hann sér hljóðs í dag í umboði þingflokksins og að beiðni þingflokksins? Ég mun ítreka þessar spurningar ef hæstv. forsrh. kemur aftur í salinn.
    Það er einkenni á umræðum sem þessum að ýmsir þingmenn og ráðherrar Alþb. ókyrrast gjarnan og hefja frammíköll. Við heyrðum það áðan að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson átti afar bágt með sig og það er svo sem ekkert nýtt heldur. En ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér þótti þessi uppákoma í dag frá formanni þingflokks Framsfl. vera undarlegt upphlaup og ég held nánast að í stjórnarsamstarfi sé þetta afar fátítt ef ekki einsdæmi. Að vísu leyfi ég mér að halda að hér sé upphlaup eins og mjög sérsinna einstaklings í Framsfl. í þessum efnum, en ekki að þetta sé skoðun flokksins og ég mun ganga eftir því við hæstv. forsrh. á eftir að fá svar við því hvort það sé svo að hér hafi orðið stefnubreyting hjá Framsfl. Hafi svo orðið er það vissulega umhugsunarefni fyrir okkur sem erum í stjórnarsamstarfi með Framsfl.
    Hér er um að ræða tiltölulega lítið mál sem hefur verið blásið út úr öllum eðlilegum hlutföllum, mál sem fyrst kom til í utanríkisráðherratíð Steingríms
Hermannssonar núv. forsrh. og engar athugasemdir voru þá gerðar við. Ég skal hins vegar taka undir það með hæstv. forsrh. að ég held að að þessu máli hafi ekki verið staðið svo sem réttast og eðlilegast hefði verið af hálfu yfirmanna varnarliðsins og yfirmanna þess varaliðs sem hingað á að koma til æfinga. Og mér sýnist raunar að það geti líka kannski eitthvað verið athugavert við upplýsingaflæðið hjá embættismönnum í utanrrn. Ég held að það þurfi kannski ekki síður athugunar við. Sams konar æfing og hér er um að ræða fór fram fyrir tveimur árum og þótti þá ekki tilefni til upphlaupa af þessu tagi sem nú

hefur verið efnt til. Nú munu að vísu koma lítið eitt fleiri menn við sögu en eðli málsins er nákvæmlega hið sama og fyrir tveimur árum þegar voru haldnar hér sams konar æfingar sem ekki einu sinni Keflvíkingar urðu varir við eftir því sem hér hefur komið fram í dag. Hér er varnarlið. Við erum í varnarbandalagi vestrænna þjóða. Þetta varnarlið er hér að vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar og það hlýtur að vera þáttur í dvöl þessa varnarliðs hér og þáttur í þeim vörnum, sem meiri hluti íslensku þjóðarinnar vill að hér séu til staðar, að þetta lið og það lið sem hingað á að koma valdi sínum verkum og stundi æfingar eins og eðlilegt hlýtur að teljast ef þetta lið á að gegna sínu hlutverki. Það er ekkert við það að athuga og það er í hæsta máta eðlilegt. Við viljum að hér séu varnir. Það vill mikill meiri hluti þjóðarinnar og þetta er það sem því fylgir.
    Ég verð hins vegar að segja að mér finnst hlutur fjölmiðla og þá einkanlega Ríkisútvarpsins/hljóðvarps í þessu máli vera svolítið sérstakur og get ekki að því gert að þá rifjast eitt og annað upp. Því var haldið fram í Ríkisútvarpinu að þessar æfingar ættu að hefjast á þjóðhátíðardaginn. Því var samstundis andmælt, en það hefur verið eitthvað lítið um að það væri leiðrétt. Og eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. í dag voru ekki ein heldur miklu fleiri rangfærslur í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Ég segi bara það að það eru einkennilegar tilviljanir að ár eftir ár í kringum 30. mars skuli verða einhver upphlaup af þessu tagi í fréttum Ríkisútvarpsins í þann mund sem þeir örfáu hernámsandstæðingar sem enn eru virkir í þeim samtökum halda einhvers konar samkomur sér og sínum til skemmtunar.
    Ég minni á fleira af þessu tilefni. Það eru 7--8 ár síðan og það var held ég um þetta leyti árs að fréttastofa Ríkisútvarpins uppgötvaði að vestur í Bandaríkjunum var maður sem hét William Arkin og hélt því fram að á Keflavíkurflugvelli væru geymd kjarnorkuvopn. Þá urðu um þetta miklar umræður í Ed. utan dagskrár og hv. núv. fjmrh. átti eiginlega ekki orð yfir það að sá sem þetta mælir skyldi leyfa sér að draga í efa orð þess ágæta manns Williams Arkin.
    Hvað gerðist svo ári síðar? Þessi sami William Arkin kom til Íslands og það var boðað til fundar í þingflokksherbergi Framsfl. og þar sagði þessi William Arkin: Því miður. Þetta var bara allt tóm vitleysa hjá mér. Það var ekkert hæft í þessu. En úr þessu var gert mikið upphlaup.
    Ég minni líka á svokallað Tangen-mál. Ég neita því ekki að það hvarflar að mér: Getur verið að þetta séu allt tilviljanir, að fréttastofu Ríkisútvarpsins, sem ég vil annars telja örugga og ábyggilega stofnun, skjöplist í rauninni bara í málum af þessu tagi? Ég nefni þessi þrjú mál þar sem henni hefur skjöplast mjög alvarlega og orðið alvarleg fagmannleg mistök á í verki. Ég neita því ekki að mér finnst þetta vera töluvert umhugsunarefni.
    Ég hafði orð um það, frú forseti, að vera ekki langorður, en auðvitað hlýtur maður að spyrja, a.m.k.

við alþýðuflokksmenn sem erum í stjórnarsamstarfi við Framsfl. og Alþb., hvaða tilgangi svona upphlaup hjá þingflokksformanni Framsfl. eigi að þjóna. Er hann að efla stjórnarsamstarfið eða hvað? Það hefði t.d. verið fróðlegt að vita hvað flokksbróðir hans, formaður utanrmn., hv. þm. Jóhann Einvarðsson, segir um þetta sem mátti eftir því sem maður gat best séð una því að fá tilkynningu um þetta í sjónvarpsþætti frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Það varð ekki séð á þeim þætti að hans hv. þingflokksformaður hefði haft fyrir því að segja formanni utanrmn. frá að þetta væri ætlunin. En þetta er einkamál þeirra framsóknarmanna og ég ætla ekkert að blanda mér í það.
    En ég mun mælast til þess við hæstv. forsrh. á eftir að hann svari því hér skýrt og skorinort hvort formaður þingflokksins hleypur hér upp í nafni alls flokksins, hvort þetta er einkaframtak hans eða hvort um stefnubreytingu hafi orðið að ræða hjá Framsfl. í þessu grundvallarmáli. Það er alvarlegra mál en svo að því megi láta hér ósvarað.