Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér fyrr á þessu þingi urðu umræður um ákveðna þætti utanríkismála einmitt utan dagskrár. Þá hafði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talað alllengi og farið vítt um völl eins og honum er títt og notað mikinn tíma eins og hann bæði hér í þinginu og ekki síst í utanrmn. þar sem hann talar kannski jafnmikið og allir aðrir þó hann kvarti undan því, sem er ósatt, að ég hafi nokkru sinni meinað honum máls þar, þvert á móti alltaf haldið fund þegar hann hefur óskað þess eða aðrir. En þar gerðist það að hæstv. forseti úrskurðaði einmitt eftir að ég hafði ávarpað þennan hv. þm. að gefnu tilefni að það væru ekki utanríkismál. Hæstv. forseti sagði orðrétt að þingmaðurinn ,,Hjörleifur Guttormsson væri ekki utanríkismál``. Og í tvígang úrskurðaði forseti þetta, að þingmaðurinn ,,væri ekki utanríkismál``. Á ég þá að skilja það svo og við allir hv. þm. að þann mann megi ekki ávarpa hér þegar rætt er um utanríkismál og ekki víkja að hans máli? Er það réttur skilningur? Gildir þessi úrskurður enn þá? ( Forseti: Forseti hefur ekki gert athugasemd á þessum fundi.) En ég spyr: Gildir sá úrskurður enn að það megi ekki ávarpa þennan mann þegar verið er að ræða um ákveðna þætti utanríkismála? ( Forseti: Samkvæmt þingsköpum, eins og hv. 8. þm. Reykv. er fullkunnugt, ber að ávarpa forseta í ræðu sinni en ekki þingmenn úti í sal.) Og má ekki víkja að máli þessa ákveðna hv. þm. þegar rætt er um utanríkismál? ( Forseti: Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hv. þm. megi ræða störf hver annars í ræðum sínum og hefur ekki verið gerð athugasemd við það.) Það hefur verið gert en ekki núna og við skulum þá segja að þessi úrskurður sé úr gildi fallinn.