Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að blanda mér í þessa umræðu um þingsköp, þ.e. form þessarar umræðu. Og byggi þá það sem ég segi á reynslu af umræðum af þessu tagi um margra ára skeið. Þ.e. að þegar tekið er fyrir málefni eins og það sem hér um ræðir, sem er hið formlega tilefni umræðunnar, þá er það á valdi þingmanna að meta það hvernig þeir leiða rök að sínu máli um þetta efni. Það er ekki eitthvað afmarkað um einhverjar tilteknar spurningar sem málshefjandi ber fram, sem oft er fléttað inn í mál af þessu tagi og gerðist hér með skilmerkilegum hætti. Á meðan um málin er fjallað eins og hér hefur verið gert --- ég hef verið þátttakandi í því og það hefur kannski verið tilefni einhverra orða hér --- þá tel ég að það hafi á engan hátt verið farið út fyrir það sem hefur verið venja og hefð í umræðum af þessu tagi hér á árum áður. Mér finnst engin ástæða til þess að fara að þrengja það svið eða þá möguleika sem hafa fylgt umræðu sem hefur verið ótímabundin hér í þinginu utan dagskrár. Við höfum hitt formið sem er tiltölulega nýtt eða frá 1985, um þrönga afmarkaða umræðu, tímabundna og hún skammtar að sjálfsögðu af í þessum efnum.
    Þetta segi ég ekki til þess að gagnrýna neitt út af fyrir sig sem hér hefur fram komið en vildi aðeins minna á með hvaða hætti hefur verið haldið á þessum málum um lengri tíma. Það er jú margt í starfi þingsins sem byggir á hefðum og ég held að við þurfum að hafa þær á vissan hátt í heiðri.