Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég skal gjarnan taka undir það með hæstv. forsrh. að vonandi koma þeir tímar að varnarliðs verði ekki þörf, en það verður ekki fyrr en lýðræðisskipulagið ræður um gjörvallan heiminn, lýðræði hefur komist á um allan heim, lýðræðisþjóðirnar geti treyst hver annarri. Þær geta það, en geta þær treyst einræðinu?
    Þess var minnst fyrir skemmstu að Alþingi Íslendinga ákvað á fundi sínum fyrir rétt rúmum 40 árum með 37:13 atkvæðum að standa að núverandi varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna. Þannig markaði Alþingi Íslendinga stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum sem síðan hefur verið staðfest af framkvæmdarvaldinu. Þessi gæfuríka stefna hefur verið svo til óbreytt allan þann tíma og verður vonandi áfram. Ég vil minna á það hér að gefnu tilefni að leikreglur lýðræðisins eru þær að frjálsir borgarar kjósa þjóðþing þjóðarinnar. Þjóðþingið markar síðan stefnu eins og Alþingi Íslendinga hefur gert hér fyrir 40 árum og mér finnst ekki að neinn stjórnmálaflokkur í minni hluta eða stjórnmálamaður geti krafist þess að það verði ekki farið að vilja Alþingis. Ég get ekki séð að það sé hægt samkvæmt þeim leikreglum sem lýðræðisskipulagð býður upp á.
    Við vitum um afstöðu Alþb. og herstöðvaandstæðinga og mótmæli þeirra við varnarsamstarfinu. Ég hef í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að þeir nýti sér tjáningarfrelsið hér í lýðræðinu. Það minnir mann á það að við búum í lýðræðisríki að menn skuli fá að tala og það eru sem betur fer engar hömlur á slíku. En ég tel það jafnútilokað að einhver minni hluti geti ætlað sér að taka ráðin af meiri hlutanum og þjóðþinginu og krefjast þess að það verði farið að einhverju öðru en þeirri stefnu sem þjóðþingið hefur markað.
    Hvað er það sem við viljum verja með varnarsamningi? Við erum að verja mestu mannréttindi og bestu lífskjör í heimi á Vesturlöndum, þar á meðal hér á Íslandi, og við erum að verja hornsteina lýðræðisins sem eru trúfrelsi, tjáningarfrelsi, athafnafrelsi og kosningafrelsi. Það er þetta sem við erum að verja. Við viljum ekki skipta á þessu og einræðinu. En hin hliðin fyrir austan járntjald: Þar er enn þann dag í dag einræði með skertum mannréttindum, lélegum lífskjörum, matarskorti og skorti á flestum nauðsynjum. Mér finnst ekki vera hægt að leggja þetta að jöfnu.
    Frá því að byltingin í Rússlandi var gerð árið 1917 fram til dagsins í dag eru um það bil 72 ár og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér hefur ráðstjórn á þessu tímabili myrt aðeins 53 millj. af eigin borgurum við að viðhalda þessu einræðisskipulagi. Þessi 72 ár eru 26.820 dagar. Það hafa verið myrtir rúmlega 2000 saklausir borgarar að jafnaði á degi hverjum síðan 1917. Það er allt í lagi að rifja þetta upp þó tölurnar séu ekki fallegar til þess að minna menn á um hvað við erum að tala hér.
    En sem betur fer er að rofa til. Það hefur verið mörkuð afvopnunarstefna sem á sér vaxandi

hljómgrunn um heim allan og við höfum verið þátttakendur í því að semja um gagnkvæma afvopnun þó að okkar hlutur Íslendinga sé ekki stór í þeim efnum. En það sem var að fyrir austan tjald var það að kerfið gekk ekki upp lengur. Þeir sáu fram á það, leiðtogarnir þarna fyrir austan, að það þurfti að koma eitthvað til og það er kallað glasnost perestrojka. Þeir eru að reyna að koma á auknu frjálsræði og lýðræði. En höfum við eitthvað til þess að skammast okkar fyrir hér á Vesturlöndum? Erum við einhvers staðar að slaka á í okkar þjóðskipulagi eða þurfum við að skammast okkar fyrir eitthvað? Af hverju eru menn að leggja að jöfnu þjóðskipulag einræðis og þjóðskipulag lýðræðis og þykjast vera einhvers konar friðarsinnar þar á milli? Það er hreinlega ekki hægt. Það er bara barnaskapur.
    Við skulum vona að almættið verði þeim hliðhollt fyrir austan tjald og þeim gangi vel að koma á auknu lýðræði og auknum mannréttindum þannig að lífskjör fólksins þar geti batnað með frjálsari hagstjórn og opnara þjóðfélagi. En við erum ekkert að hopa. Við þurfum ekkert að breyta neinu. Mér finnst ekki vera hægt að leggja þetta að jöfnu.
    Sú æfing varnarliðsins sem hér er til umræðu og hér á að fara fram finnst mér fullkomlega eðlilegt að fari fram. Það var verið að gera einhver stórmál hérna úr tiltölulega lítilli æfingu með púðurskotum hjá þúsund manns í hálfan mánuð. Það er eins og það eigi að fara að keyra um einhverjar stórar skriðdrekasveitir eftir tali manna. (Gripið fram í.) Já, það er ekki meira. Auðvitað gerir lýðveldið Ísland skyldu sína við önnur lýðræðisríki. Og auðvitað gerir lýðveldið Ísland skyldu sína fyrir mestu mannréttindi og bestu lífskjör í heimi. Við höfum ákveðnum skyldum að gegna. Við getum ekki sett samasemmerki milli lýðræðis og einræðis og sagt að við séum einhvers konar ,,friðarsinnar`` þar á milli. Það gengur ekki upp. Öll viljum við í eðli okkar frið. Við erum öll friðarsinnar. Ég þekki a.m.k. engan sem vill ófrið.
    Mér finnst að varnarlið án æfinga sé eins og brunalið án æfinga. Hvernig væri það að hafa brunalið án æfinga? Gæti það slökkt í þegar kviknaði í?
    Það var talað um einhverja tímaskekkju í þessu sambandi. Ég skil ekki hvað menn eiga við. Mér finnst að við eigum að koma heiðarlega fram við aðrar
vestrænar lýðræðisþjóðir og ekki vera með neinn tvískinnungshátt í samskiptum okkar við þær.
    En ég tel að kjarni málsins sé sá að Alþingi markaði stefnu fyrir 40 árum og sú stefna hefur verið þjóðinni til farsældar og sóma og ég tel að hæstv. utanrrh. sé skyldugur til þess að framkvæma þá stefnu sem Alþingi hefur ákveðið og enga aðra samkvæmt stjórnskipun landsins. Ég tel að sú stefna sem hingað til hefur verið fylgt á Íslandi sé eitt af mestu hagsmunamálum alls mannkyns, að lýðræðisþjóðirnar haldi saman.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að ljúka þessum orðum mínum með því að segja: Lengi lifi lýðræðið.