Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Það er mikil mannraun að hlusta á sumar ræður sem hafa verið fluttar í þessari umræðu og það er nærri því að maður fer að sjá eftir því að hafa kvatt sér hljóðs og vakið máls á þessu efni þegar maður hlustar á þær. Hér hefur þó reyndar margt verið vel sagt líka og ber að þakka það. Það hvað teygst hefur úr þessari umræðu og hve margir hafa fundið hjá sér hvöt til þess að tjá sig sýnir og sannar betur en annað að það var fyllilega tímabært og eðlilegt að taka þetta mál til umfjöllunar í Sþ.
    Ég vil fyrst láta þess getið að ég varð fyrir vonbrigðum, því miður, með ræðu hæstv. utanrrh. og þau svör sem hann gaf því að þau voru sum ófullnægjandi við spurningum sem ég beindi til hans. Það voru í þessu líka útúrsnúningar og ekki rétt farið með staðreyndir á alla grein.
    Varalið Bandaríkjamanna var t.d. ekki stofnað að kröfu Íslendinga eins og lesa mátti út úr ræðu hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra vill meina að koma varaliðsins sé óhjákvæmileg afleiðing af ákvörðunum fyrrv. utanrrh. og hann las úr skýrslu sem hæstv. fyrrv. utanrrh., núv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, flutti á Alþingi 1988 og það sem hann las var þetta: ,,Ef til átaka drægi er ljóst að varnarliðið þyrfti aukinn liðsafla. Hersveit í varaliði bandaríska landhersins hefur verið þjálfuð og búin undir að koma til landsins á hættu- eða ófriðartímum. Hluti hennar tók þátt í umfangsmiklum æfingum í Kanada`` --- ég endurtek Kanada --- ,,í sumar og fylgdust fulltrúar varnarmálaskrifstofu með þeim æfingum. Til að slík þjálfun komi að fullu gagni er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hafi hönd í bagga og tryggi að allar varnaráætlanir séu í sem bestu samræmi við íslenska hagsmuni og staðhætti. Samræmis þarf að gæta milli almannavarnaáætlana okkar og skipulags lögreglu og landhelgisgæslu, og þessara varnaráætlana`` og bla bla.
    Þetta sagði sem sagt í skýrslu hæstv. fyrrv. utanrrh. Hann var að ræða um æfingar í Kanada, en af ræðu hæstv. utanrrh. mætti ætla að hann væri að tala um heræfingar hér á landi. Hann var hvergi að tala um nauðsyn þess að fá hingað 1500 manna lið til æfinga. Það er alveg gersamlega þýðingarlaust að fara að reyna að klína skömminni af þessum æfingum á hæstv. forsrh. Hann er alveg saklaus af því að hafa veitt leyfi til þeirra, enda hefur hann skilmerkilega varið sinn málstað sjálfur hér í ræðustól og ég þarf ekki að bæta þar um.
    Ég held að það sé engin ástæða fyrir hæstv. utanrrh. að ætla að Bandaríkjamenn tækju neitun óstinnt upp, þeir tækju það neitt óstinnt upp þó þeir fengju ekki að koma til stríðsleikja. Hæstv. utanrrh. má ekki vera svona huglaus. Hann á að reyna að standa á rétti þjóðarinnar og hafa að leiðarljósi í embættisfærslu sinni að hafa embættisfærslu sína með þjóðlegri reisn eins og fyrirrennari hans gerði. Það var mér að vísu nokkur uppörvun og gleðifrétt að þeir væru ekki með neitt nema púðurskot í pússi sínu, þessir gestir. Ég tel að það sé heldur góðs viti því að þá verða þeir kannski ekki hver öðrum að voða.

    Utanrrh. hefur tvímælalaust vald og það tók hann rækilega fram sjálfur og það er ekkert forhlaupin tíð að stoppa þessar æfingar. Og fullyrðingar um það, eins og hann lét sér um munn fara, að æfingarnar færu að verulegu leyti fram að ósk Íslendinga er röng, því miður. A.m.k. kannast ég ekki við þær óskir og þær eru ekki komnar frá framsóknarmönnum.
    Hæstv. utanrrh. gerði fréttaflutning að umræðuefni og hann er eitthvað framstyggur vegna þess að það hafi verið sagt frá þessum æfingum. Ég tel ekkert óeðlilegt þó að fjölmiðlar greini frá þeim tíðindum að hér standi til að halda heræfingar af þessari stærðargráðu. Ég verð að segja að mér finnst að sjónarmið hersins hafi fengið rækilega að koma fram í sjónvarpinu. Kastljós í gærkvöldi var undirlagt af barnalegri áróðursmynd frá Bandaríkjaher þar sem átti að réttlæta æfingarnar 1987. Sá texti sem fluttur var með myndinni var til réttlætingar á þessu tilstandi sem þarna var sýnt og greint frá mikilvægi þess hvað þar væri verið að gera. Þessi mynd var að vísu svo frumstæð að hún varð á köflum brosleg og nánast skemmtiefni. T.d. eins og þegar mennirnir voru að reyna að berjast við fuglana og reyna að fæla upp fuglana sem gekk ekki nógu vel.
    Hæstv. utanrrh. spurði hvort við teldum viðbúnaðaráætlanir óþarfar, samgönguáætlanir eða verndun orkuvera. Þetta eru allt saman útúrsnúningar og undanfærslur. Þessi heræfing er ekki til að verja orkuver eða samgönguleiðir. Þessi heræfing er gerð til að verja herstöðina á Keflavíkurflugvelli. Hún er gerð til að þjálfa fólk í að verja þessa tilteknu herstöð. Og ég verð að endurtaka það: Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það sem utanrrh. sagði. Hann lofaði ekki í ræðu sinni að neita um leyfi til æfinganna. Hann var ekkert á því í ræðu sinni að draga úr þeim. Það var jafnvel svo að skilja á honum að hann væri að biðja um meira og ekki að halda þeim innan vallar heldur færa jafnvel út af vellinum hluta æfinganna. Sá gáll sem var á ráðherranum í ræðustól kl. að ganga 3 í dag, eða öllu heldur í gær því að nú er komið fram yfir miðnætti, gaf mér til kynna að hann hefði hugsað sér að heimila þessar heræfingar og það tel ég miður og ég vona að honum hafi batnað eftir því sem á
daginn hefur liðið og á umræðuna.
    Ég dreg í efa að svar hans um 1200--1300 manns sem tækju þátt í þessum æfingum sé rétt. Þarna tíundar hann 250 dáta, 800 kennara og svo 200--300 séffa sem eigi að meta æfinguna og sjá hvernig þetta hafi verið, hvernig það hafi gengið fyrir sig. Hvar eru stuðningssveitirnar sem svona hópferðir hafa með sér, hjúkrunarlið, aðstoðarlið og guð má vita hvað það er kallað? Ég fann ekki að hann tíundaði það, en auðvitað verður það að teljast á gestalistanum.
    Ég varð sem sagt fyrir vonbrigðum með ræðu hæstv. utanrrh. Ég varð hins vegar ekki fyrir vonbrigðum með ræðu hv. 1. þm. Suðurl. sem flutti mjög ómerkilega ræðu, staglast þar á með getsökum og ímyndunum. Það að Framsfl. hafi haft forustu um heræfingarnar er eins og ég hef rækilega greint frá ekkert nema rangfærslur. Hann talaði um að hér væri

um mjög venjulegar æfingar að ræða. Þetta eru ekki venjulegar æfingar á íslenskan mælikvarða. Þetta eru miklu stærri æfingar en hér hafa farið fram a.m.k. í seinni tíð.
    Hv. 1. þm. Suðurl. vildi vita í hvers umboði ég væri hér. Ég kem hér sem einn af alþm. og kveð mér hljóðs um málefni sem mér þykir mikilvægt. Ég tek fram að ég kynnti það ekki í mínum þingflokki að ég ætlaði að taka til máls. Ég hafði hins vegar samband við ýmsa flokksbræður mína áður en ég óskaði eftir því að fá leyfi til að taka til máls um þetta málefni utan dagskrár. Það vildi nú svo til að Jóhann Einvarðsson var ekki einn af þeim sem ég spurði ráða. Ég spurði ekki heldur hv. 2. þm. Austurl. Hjörleif Guttormsson ráða og ræddi það ekki við hann hvort ég ætlaði að taka til máls í dag. Hv. þm. fékk vitneskju um að ég ætlaði að kveðja mér hljóðs sem formaður eða varaformaður þingflokks síns, en þeir fengu að sjálfsögðu tilkynningu um að það stæði til að hér yrði utandagskrárumræða ( HG: Ég gerði engar athugasemdir við það.) og gerði engar athugasemdir við það, enda hefði það ekki nokkurn skapaðan hlut þýtt fyrir hv. 2. þm. Austurl. því að hann hefur ekkert ,,mónópól`` á þessum ræðustól. Hann kemur hér stundum og segir nokkur vel valin orð, en hann hefur engan einkarétt á honum. Það var við aðra að eiga um að fá leyfi til að tala í dag.
    Það var nokkuð hart fyrir hæstv. utanrrh. að búa við það að hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson skuli styðja hans stefnu í utanríkismálum svo dyggilega. Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir hæstv. utanrrh. að Sjálfstfl. skuli vera að kjassa hann fyrir stjórnvisku. Það er eiginlega öruggt merki þess að hann sé á rangri leið. Það er einkennilegt með hann Eykon, hv. 8. þm. Reykv. Eyjólf Konráð Jónsson, þennan indæla og ljúfa og prúða vin minn, hvað hann getur umhverfst þegar hann fer að tala um hermálin. Þá verður honum svo mikið í hug að prúðmennskan rýkur alveg af honum eins og dögg fyrir sólu og hann eiginlega missir þessa skörpu ályktunargáfu sem hann hefur hversdags og lendir þá iðulega í ógöngum.
    Í ályktun Alþingis um utanríkismál frá 23. maí 1985 er hvergi nokkurs staðar getið um Úralfjöll. Það sem við samþykktum var þessi ályktun. Það var ekki það sem hv. frsm. sagði heldur það sem fyrir okkur lá á þingskjalinu. Það var það sem við samþykktum. Þó að ég meti orð hv. þm. mjög mikils, þá hafa þau ekki eins og ég hef margtekið fram nokkurt minnsta lagagildi. ( EKJ: Ályktunin hefur ekki lagagildi.) Ekki hið minnsta og þau eru ekki einu sinni ályktun Alþingis, þau eru ályktun Eyjólfs Konráðs Jónssonar og e.t.v. einhverra flokksbræðra hans, og það er nú nóg um það.
    Hv. 3. þm. Vesturl. var ergilegur í ræðu sinni og það fannst mér ósköp heimilislegt. Ég vil taka það fram að það hefur ekki orðið nein stefnubreyting hjá Framsfl. Við höfum haft þessa stefnu um langa hríð. Það er allt önnur heræfing sem hér er verið að planleggja en 1987 eins og ég taldi upp áðan. Fyrst koma 250 skyndidátar til hjálpar. Svo þegar þeir eru

dauðir í þykjustunni koma 800 kennarar, hvernig sem fer fyrir þeim, og svo koma nokkur hundruð offiserar sem meta eiga árangurinn og telja hvort nógu margir séu dauðir. Menn hafa dálítið verið að reyna að bera á móti því að þessar æfingar tengist þjóðhátíðardegi okkar. Auðvitað tengjast þær þjóðhátíðardeginum. Æfingin hefst á þjóðhátíðardaginn. Mennirnir leggja af stað frá Bandaríkjunum á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Við höfum enn þá 17. júní fyrir þjóðhátíðardag, ekki 4. júlí, og þeir leggja af stað á þjóðhátíðardegi okkar. Þeir lenda hins vegar ekki á Keflavíkurflugvelli samkvæmt upplýsingum utanrrh. fyrr en aðfaranótt þess 18. eins og hann sagði, þannig að allt sem sagt hefur verið um þjóðhátíðardaginn í fréttaflutningi af þessu máli er náttúrlega hárrétt.
    Hv. þm. Eiður Guðnason spurði hvort ég væri að efla stjórnarsamstarfið með því að kveðja mér hér hljóðs. Ég vona að stjórnarsamstarfið endist sem best og vil efla það og tel mig hafa gert það í dag eins og aðra daga. Ég vil hins vegar meina það að hæstv. utanrrh. sé ekki að efla stjórnarsamstarfið ef hann hugsar sér að leyfa þessar heræfingar.
    Hv. 1. þm. Reykn. Matthías Á. Mathiesen var hér með kolrangar vangaveltur, en hann er kannski farinn heim að sofa svo að ég þarf ekki að eyða mörgum orðum á hann. Hann var með getsakir um hvað mér gengi til að taka hér til máls. Ég tók þetta mál til umræðu vegna þess að mér þykir það miklu varða og spurði mikilvægra spurninga sem Alþingi þurfti að heyra svarað.
    Flokksbróðir minn, hv. 8. þm. Reykn. Jóhann Einvarðsson, flutti hér ræðu sem ég þarf að minnast á örfáum orðum. ( Gripið fram í: Hann er farinn heim að sofa.) Jæja. Hvernig förum við að? Hann taldi að þessi umræða væri ótímabær. Ég er ekki sammála því. Hún er auðvitað tímabær. Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið í. Það þýðir ekkert að nöldra þegar skaðinn er skeður. Auðvitað er rétt að ræða málið hér og nú og það er góður undirbúningur fyrir fund utanrmn. og góður undirbúnngur fyrir utanrrh. til ákvarðanatöku. Ég er alveg undrandi á því hvað hv. þm. Jóhann Einvarðsson telur þetta mikilvægar og nauðsynlegar æfingar og ég var á tímabili hálfhræddur um að missa hann upp á völl til þess að skríða þar með kennurunum í hrifningu sinni. ( Gripið fram í: Það þýðir ekki að tala við sofandi menn.) Það þýðir ekkert að tala við sofandi menn, en þessi maður er svo skarpur að ég trúi ekki öðru en að, þó hann sé eitthvað farinn að dotta, hann heyri til mín.
    Utanrmn. var ekki greint frá umfangi þessara æfinga meðan ég sat þar. Ég sit þar að vísu ekki lengur og veit ekki hvað þar hefur gerst síðan flokkur minn skipti á okkur Jóhanni Einvarðssyni í utanrmn. Okkur var lauslega sagt frá æfingunni 1987, ef ég man rétt, í rútuferð á Keflavíkurflugvelli, en ég man ekki til þess að minnst hafi verið á að hér stæði til að halda æfingu með 1500 manna liði eða hvað það nú er eða kannski fleiri á þessu sumri. Ég ber á móti því sem hv. 8. þm. Reykn. Jóhann Einvarðsson bar á mig,

að ég hefði ,,velt upp vöngum``, eins og hann orðaði það, eða á borð borið þessa heræfingu. Ég hef hvorugt gert.
    Hv. 3. þm. Reykv. las upp ræðupart eftir Svavar Gestsson sem hann flutti 1987 þar sem hv. þm. hélt því fram að framsókn færðist til vinstri þegar framsókn færi í hægri stjórn og færi svona að trosna stjórnarsamstarfið. Svo færi hún aftur til hægri þegar hún væri í vinstri stjórn. Þetta var ansi skemmtileg umræða og hv. þm. hefði gjarnan mátt lesa meira úr henni því að ég man eftir því að ég sagði margt vel í þessari umræðu líka. Mér fannst tilvitnunin hins vegar ekki reglulega vel valin því þó að hv. þm. hugsi venjulega skýrt sló út í fyrir henni þarna því að samkvæmt kenningu Svavars Gestssonar værum við á leið til hægri núna en mér finnst nú að ég hafi legið undir ámæli fyrir eitthvað annað en það í dag a.m.k. Ég hef sem sagt orðið fyrir vonbrigðum með afstöðu hæstv. utanrrh. Hann segist hafa vald til þess að stöðva æfingarnar, en ég óttast að hann þori ekki að beita því af ótta við að styggja Bandaríkjamenn. Ég er mikill stuðningsmaður hæstv. utanrrh. og líkar prýðilega við hann og vona svo sannarlega að hann manni sig upp í að neita Bandaríkjamönnum um þessa bón. Þessar æfingar eru nefnilega misráðnar og þær eru ögrun við Íslendinga, að hefja förina 17. júní, á þjóðhátíðardegi okkar. Bandaríkjamenn hafa eins og forsrh. hefur rækilega tekið fram haldið illa á þessu máli og senda fyrst í gær formlega beiðni til utanrrh. Varnarmáladeild hefur haldið illa á þessu máli að gera ekki grein fyrir málinu fyrr en í gær. Auðvitað hefði hún átt að gera það heyrinkunnugt strax og leggja það fyrir þáv. utanrrh. sem hún ekki gerði. Hún átti auðvitað að gera þáv. utanrrh. grein fyrir þessu máli.
    Ég tel að utanrrh. haldi illa á þessu máli ef hann heimilar æfingarnar. Æfingin þjónar ekki hagsmunum Íslands og varnir Íslands eru ekki betur settar eftir þessa æfingu en fyrir. Æfingin stuðlar ekki að friði í heiminum og það eina sem hún fær áorkað væri kannski það að hressa ofurlítið upp á fáeinar kaldastríðssálir hér uppi á Íslandi. En það er skammgóður vermir því þeim er ekki viðbjargandi.
    Ég vona svo að endingu að hæstv. utanrrh. beri gæfu til að feta í fótspor fyrirrennara síns í embætti og halda á utanríkismálum Íslands af þjóðlegri reisn.