Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Sú umræða sem hér hefur staðið um hríð hefur leitt sitthvað athyglisvert í ljós, kannski ekki síst það sem kom hér fram í máli hæstv. utanrrh. nú síðast þar sem hann tíundaði líklega aðallega úr fórum varnarmálanefndar heimildir um samskipti íslenskra stjórnvalda við yfirstjórn herliðsins á Keflavíkurflugvelli og raunar yfirstjórn Bandaríkjahers í Norfolk. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir það að hafa komið fram með þessar upplýsingar þó að heimildagildi þeirra sé vissulega takmarkað og það gerir hæstv. ráðherra sér auðvitað ljóst og mátti skilja af ábendingum hans sem fylgdu þessu máli. Hér er trúlega ekki um að ræða staðfestar fundargerðir eða þess háttar nema kannski í einhverjum tilvikum, heldur frásagnir og minnisblöð sem þurfa auðvitað ekki að vera ábyggilegustu heimildir, þar sem einn heldur um penna og ekki er yfirfarið af þeim sem hlut eiga að máli. Ég er ekki að vefengja neitt af því sem þarna kemur fram, en það segir sína sögu. Það segir þá sögu að á þessum árum hefur verið leitast við af hálfu hersins á Keflavíkurflugvelli, stjórnar hans og bakaðila í Bandaríkjunum, að samþætta starf íslenskra stofnana við starfsemi bandaríska herliðsins hér á landi. Það er sá rauði þráður sem gengur í gegnum það efni sem hæstv. ráðherra rakti hér og það er hið alvarlega í þessu máli, engu síður en sú heræfing sem hefur verið tilefni þessara umræðna.
    Ég vakti athygli á því sem fram kom í fyrri ræðu hæstv. ráðherra einmitt varðandi umrædda samþættingu, þátttöku almannavarna íslenskra, Pósts og síma og fleiri aðila sem hugmyndir hefðu verið uppi um og væru jafnvel uppi um að tækju þátt í þeirri æfingu varaliðssveitanna sem Bandaríkjamenn hafa borið fram ósk um að fram fari hér í júnímánuði.
    Ég tel að þetta sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra þurfi að vera okkur víti til varnaðar. Ég tel að það sýni hvernig af þeim aðila sem hreiðrað hefur um sig á Miðnesheiði er leitast við með duldum hætti, í raun í fárra manna samráði, að leiða íslenskar stofnanir, íslenska embættismenn inn í samstarf sem Alþingi hefur t.d. ekki fjallað um, ekki haft kost á að fjalla um nema að mjög óverulegu leyti. Það er mikil ástæða til þess fyrir þingið að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh.
    Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var hins vegar ábending, ég vil ekki segja athugasemd hæstv. ráðherra, varðandi mitt mál. Hann taldi að þar hefði verið nokkuð ofmælt varðandi þá fullyrðingu að óskum íslenskra stjórnvalda frá 1984, eins og það birtist t.d. í skýrslu hæstv. þáv. utanrrh., Geirs Hallgrímssonar, um það að íslensk stjórnvöld fái að fylgjast með gerð varnaráætlana og taki meiri þátt í því og að séð verði til þess að hér verði gerðar slíkar áætlanir, hafi ekki gengið eftir og því hafi hér verið í raun um yfirbreiðslu að ræða að verulegu leyti út frá forsendum þeirra aðila sem hafa staðið fyrir þessu starfi. Ég tel að athugasemd hæstv. ráðherra sé á misskilningi byggð. Ég var ekki í mínu máli að fjalla

um áætlanir sem Almannavarnir ríkisins eða slíkir aðilar kynnu að eiga hlut að með varnarliðinu svokallaða á Keflavíkurflugvelli, þessu hefðbundna langsetuliði á Miðnesheiði. En það er það efni sem hæstv. ráðherra var að rekja hér, að gerðar hefðu verið að hans mati óverulegar tilraunir til að gera áætlanir þar að lútandi milli herliðsins á Keflavíkurflugvelli og Almannavarna og raunar einhverra fleiri sem tilnefndir voru af hæstv. ráðherra.
    Það sem ég tók skýrt fram í mínu máli var spurningin um hlutdeild þessa svokallaða varaliðs í áætlunum sem íslensk yfirvöld hefðu átt hlut að að móta, þannig að þetta varalið yrði þátttakandi í hugsanlegum vörnum slíkra mannvirkja ef til átaka kæmi. Ég staðhæfði að það lægju engar slíkar áætlanir fyrir. Ég gæti, virðulegur forseti, máli mínu til stuðnings lesið upp úr þeim blaðsíðum úr Morgunblaðinu frá 3. mars 1988, þar sem er viðtal við margnefndan stærðfræðikennara, Thomas Stone hershöfðingja, þar sem sá einmitt rekur það að engar slíkar áætlanir séu til, eða bendir á það. Það kemur alveg skýrt fram í máli hans. Hann talar í viðtengingarhætti um þessar áætlanir sem stjórnvöld þyrftu að leggja fram. Ég er ekki að gera athugasemdir við að þær hafi ekki verið gerðar. Mér finnst það út af fyrir sig virðingarvert að það hefur verið látið sitja við orðin tóm. En það sýnir hversu holt er undir málflutningnum, að þetta lið sé hér til þess að verja Íslendinga, íslensk mannvirki. Það er ekki málið. Og það er skrifað upp á það af margnefndum stærðfræðikennara, Thomas Stone, sem hefur komið oft við sögu hér í umræðum í dag og gæti orðið landsþekktur eftir þessa utandagskrárumræðu sem hv. bóndi á Höllustöðum hefur innleitt hér. ( Utanrrh.: Hann er mjög staðháttakunnugur á Austurlandi.)
    Síðan vildi ég nefna það hér úr máli stærðfræðikennarans, og má það vera eina tilvitnunin, og það er ákall hans um það að Íslendingar verði nú tillitssamir og góðir þátttakendur, góðir strákar í samstarfi við þessar liðsveitir, bæti sig að því leyti. Í þessu viðtali segir innan tilvitnunarmerkja m.a., með leyfi virðulegs forseta: ,,Ef íbúar landsins vinna ekki með okkur og skýra okkur t.d. ekki frá óvenjulegum mannaferðum þá gengur
þetta ekki upp.`` Þá gengur þetta ekki upp. Þetta og margt fleira athyglisvert má lesa hér og þar á meðal kynni að vera að mannaferðir sem hermönnum þykja heldur kynlegar eins og göngur og réttir, fjallskil á hausti, sé kannski eitt af því sem gæti verið forvitnilegt og til þess fallið að fylgjast með gagnrýnið. Göngur hv. 1. þm. Norðurl. v., þátttaka hans í göngum á húnvetnskum heiðum. ( Gripið fram í: Eða gönguferðir 2. þm. Austurl.) Já, eða gönguferðir ónefndra þingmanna um fjöll og heiðar annarra erinda.
    En hæstv. ráðherra vék að slökkvistarfi undir lok máls síns í ræðunni hér áðan og brýndi menn á því að ef menn hefðu slökkvilið þá yrðu þeir að vera menn til þess til að nota það, að beita því, að æfa

það. Æfa það til þess væntanlega að beita því. Þarna er hann að brýna stuðningslið NATO á Íslendi, stuðningslið herstöðvanna hér á Alþingi og utan þings. Hann er að segja: Verið ekki í felum með þetta. Lofum dátunum að spreyta sig. Látum þá njóta sín. Þetta er nokkuð hetjulega mælt hjá hæstv. utanrrh. því að tvískinnungurinn í máli þeirra sem hafa reynt að halda hér uppi merki herstöðvanna á Íslandi og hernaðarhyggjunnar er þess eðlis að það er þörf á að minna á hann og það hefur hæstv. utanrrh. gert með þessum orðum.
    Ég vænti þess hins vegar að það komi aldrei til þess að því slökkviliði, sem hæstv. ráðherra var að vísa til, og hefur nú margt fleira heldur en vatn og koltvísýring og annað gott til þess að slökkva elda, verði beitt hér á íslensku landi í reynd. Við verðum búnir að losa okkur við það áður en sá surtarlogi brennur sem þetta herlið kallar á að því er Ísland varðar.