Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég þakka þolinmæðina og ég held að það sé óhætt að ljúka þessari umræðu vegna þess að innan fárra daga verður hér umræða um skýrslu utanrrh. og þá gefst hæstv. forsrh. væntanlega tækifæri til þess að svara þeim spurningum sem Þorsteinn Pálsson, hv. 1. þm. Suðurl., beindi til hans.
    Það er alveg rangt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að ég hafi gert einhverja atlögu að hæstv. utanrrh. hér í dag. Ef ég geri atlögu að mönnum fer ég öðruvísi að. Ég reyndi hins vegar með hógværum orðum og mikilli góðfýsi að leiðbeina honum til niðurstöðu sem ég tel rétta.
    Ég les ekki alltaf Morgunblaðið og það þýðir ekkert að vitna til þess að eitthvað hafi staðið í Morgunblaðinu einhvern tíma í vetur og ég hafi því átt að vita það því að margt er ónákvæmt og margt er rangt í Morgunblaðinu og það þýðir ekkert að vera að elta ólar við að lesa allt sem þar stendur.
    Ég stend fyrst og fremst upp vegna þess að ég er svo undrandi eftir lestur hæstv. utanrrh. í lokaræðu sinni úr þeirri samantekt sem hann var með hér í ræðustólnum. Hún var einn samfelldur áfellisdómur um varnarmálaskrifstofuna. Og mér virðist að eftir þær upplýsingar sem fram komu í ræðu ráðherrans sé fullkomin ástæða til þess að gera úttekt á starfsemi varnarmálaskrifstofunnar og starfsháttum þeirra sem þar vinna. Það kemur í ljós að þessi skrifstofa liggur á upplýsingum og gefur ráðherrum ekki nógu glöggar skýrslur til þess að þeir fylgist með því sem varnarmálaskrifstofan hefur á prjónunum og þarf þá ekki annað en að vitna til ummæla hæstv. forsrh. hér fyrr í dag. Þarna virðist viðgangast eitthvert leynipukur. Þessir menn eiga auðvitað að gefa út fréttatilkynningar eins og aðrar deildir utanrrn. og það á auðvitað að upplýsa ekki einasta ráðherra um hvað þarna er verið að gera, heldur þingheim allan.
    Ég get ekki sagt að ég sé stoltur af því en ég skorast ekki undan því og viðurkenni að ég hef borið ábyrgð á mörgum ríkisstjórnum, öllum ríkisstjórnum síðan 1980 og reyndar tveimur, þremur þar áður, og ég viðurkenni að ég hef borið ábyrgð á þeim utanríkisráðherrum sem starfað hafa á þeim tíma, en það er ekki þar með sagt að ég beri ábyrgð á starfsháttum einstakra starfsmanna hjá varnarmálaskrifstofu samkvæmt því sem utanrrh. upplýsti hér rétt áðan. Og ég heiti á hæstv. utanrrh. að lagfæra starfshætti varnarmálaskrifstofunnar. Við eigum ekki að líða þau vinnubrögð sem hæstv. utanrrh. lýsti hér í ræðu sinni og þingheimi hefur ekki verið gerð grein fyrir athöfnum varnarmálaskrifstofunnar fyrr en nú í þessu efni. Hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson má hafa þökk fyrir að fletta ofan af þeirri starfsemi sem þarna fer fram. Ég er ekki viss um að honum sé þó að fullu ljós sá háski sem þessir kontóristar geta steypt okkur í. Ég tel að það hafi verið illa valdar samlíkingar hjá hæstv. utanrrh. þegar hann var að tala um slökkviliðið og björgunarbátinn. Það er nú bara að slökkviliðið kveiki ekki í björgunarbátnum.