Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég tel að þær upplýsingar sem ég flutti í svarræðu minni áðan gefi ekki tilefni til þess að bera forstöðumann varnarmálaskrifstofu, þann sem ég þekki og gegnt hefur starfi í minni tíð, neinum sökum. Þvert á móti vil ég nota tækifærið til þess að lýsa fyllsta trausti á honum og hans störfum eins og ég hef reynt hann að verki og að góðu einu.
    Ég get að sjálfsögðu ekki talað af reynslu um forvera hans í starfi og læt um það ósagt, en ég get ekki látið hjá líða að andmæla þeim orðum um glöp í starfi sem gætu skilist á þann veg að núv. forstöðumaður varnarmálaskrifstofu ætti þar sök á. Svo er ekki að mínu mati.