Tilhögun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Það er rétt að orðið er mjög framorðið og fyrir nokkru síðan nefndi forseti það að rétt væri að ljúka fundi kl. hálftvö. Nú eru enn þingmenn á mælendaskrá og ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort við gætum ekki komið okkur saman um það að fresta þessari umræðu nú þegar. Það hafa komið fram ábendingar frá hv. 1. þm. Suðurl. um að það væri í hæsta máta illt að ljúka þessari umræðu án þess að hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur. Ég ætla ekkert að fara að rekja það hvers vegna. Ég nefni það aðeins að ræða hæstv. utanrrh. gefur vissulega tilefni til þess að heyra aðeins meira frá hæstv. forsrh. Ég tek þess vegna undir þau orð hv. 1. þm. Suðurl. að umræðunni ljúki ekki án þess að hæstv. forsrh. sé hér viðstaddur og ég spyr því hæstv. forseta enn hvort við getum ekki sæst á það að fresta umræðunni núna og halda henni áfram á næsta fundi sameinaðs þings.