Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er fram tekið að setja skuli lög um aðskilnað dóms- og framkvæmdarvalds og að unnið skuli að endurskoðun annarra þátta réttarkerfisins. Telja verður víst að sú endurskoðun annarra þátta réttarkerfisins, eins og þar segir, eigi að stuðla að betra réttarkerfi fyrir þegnana, minnka áhrif framkvæmdarvaldsins raunverulega og hugsanlega á meðferð dómsmála.
    Frv. það sem hér er til umræðu, frv. til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er mikilsvert skref í þá átt að aðskilja dómsvald og framkvæmdarvald. --- Er hæstv. dómsmrh. ekki í húsinu? ( Gripið fram í: Hann er í ræðustól í Nd.) Já. Ég hefði nú talið eðlilegra að málum hefði verið frestað í Nd. til þess að hæstv. dómsmrh. gæti verið við þessa umræðu. Þetta er það sérstakt mál, virðulegi forseti. ( Forseti: Ef ræðumaður óskar og gerir hlé á ræðu sinni þá mun ég fresta umræðu um þetta mál smástund þar til dómsmrh. getur komið.)