Brottfall laga á sviði menntamála
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Hér er um að ræða frv. um brottfall ýmissa laga á sviði menntamála, en það er liður í þeirri viðleitni Stjórnarráðsins að reyna að fella niður úr lagasafninu lagabálka eða lagaþætti sem ekki eiga neitt erindi lengur í lagasafni okkar. Hér er um að ræða frv. í níu greinum.
    Í fyrsta lagi um að frv. um Kennaraskóla Íslands falli úr gildi, en það er gert vegna þess að tekið hafa gildi ný lög um Kennaraháskóla Íslands, lög nr. 29 frá 18. maí 1988.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að fella niður lög nr. 14/1932, um opinbera greinargerð starfsmanna ríkisins, en þar var gert ráð fyrir því að skylda embættismenn og sýslunarmenn til flutnings eins eða tveggja erinda árlega í útvarp um starf sitt eða stofnun. Lögin hafa ekki verið framkvæmd og mega falla niður eðli málsins samkvæmt.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að fella niður lög um sundhöll í Reykjavík og framlög ríkisins til hennar --- eða landsstjórnarinnar eins og þar stendur --- en þau lög hafa þegar náð tilgangi sínum eins og ýmsir hv. deildarmenn þekkja gjörla sem stundum koma í það hús.
    Í 5. gr., ef ég hleyp aðeins yfir þá 4., er gert ráð fyrir því að fella niður lög um heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög til að skylda unglinga til sundnáms, en almenn ákvæði um sundskyldu eru nú í lögum nr. 49/1956. Þessi lög, sem hér er verið að fella úr gildi, voru lítið notuð, eingöngu í Vestmannaeyjum, Svalbarðsstrandarhreppi, Austur-Eyjafjallahreppi og í Reykjavík.
    Í 6. gr. er gert ráð fyrir því að fella niður heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög að starfrækja lýðskóla með skylduvinnu nemenda gegn skólaréttindum. Þessi lög um þegnskylduvinnu nemenda gegn skólaréttindum voru sett á kreppuárunum í ljósi þess ástands sem þá ríkti og eiga ekki lengur við.
    Í 7. gr. er gert ráð fyrir því að fella niður lög nr. 76/1942, um styrk til Íslendinga vestan hafs til náms í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands. Menntmrn. hefur um langt skeið veitt styrki handa erlendum námsmönnum til náms í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands samkvæmt árlegri fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni. Þar á meðal hefur mörg undanfarin ár verið veittur styrkur handa námsmanni af íslenskum ættum í Vesturheimi. Sérstök heimildarlög um slíkan styrk eru því orðin óþörf fyrir löngu.
    Þá kem ég að 4. gr. frv., en hún er um það að fella niður lögin um friðun héra frá 2. nóv. 1914. Í grg. með frv. stendur að greinin þarfnist ekki skýringar og það eru mistök hjá ráðuneytinu. Þetta þarfnast skýringar.
    Það hefur nokkrum sinnum verið reynt að koma upp stofni snæhéra hér á landi samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Náttúrufræðistofnun. Fyrstu héraflutningar hingað til lands munu hafa verið árið 1784. Þá komu fern pör með fálkaskipi til landsins og var þeim m.a. sleppt í kjarri í Botnsdal í

Hvalfirði. Árið eftir eru þeir allir taldir dauðir og er álitið að tófur hafi orðið þeim að fjörtjóni, en um þetta má lesa í mörgum merkum ritum um náttúru Íslands, m.a. hjá Ársæli Árnasyni, Þorvaldi Thoroddsen, Jóni Helgasyni og Bjarna Sæmundssyni. Bjarni Sæmundsson álítur reyndar að hér hafi ekki verið um að ræða snæhéra heldur danska gráhéra.
    Næst er vitað til þess að hérar hafi verið fluttir til landsins árið 1861 og þá var þeim sleppt í Viðey. Þorvaldur Thoroddsen segir um það mál: ,,Þeir munu hafa þótt styggja æðarvarpið og voru drepnir.`` Þó hafði upphaflega verið ráðgert að flytja þá til lands og sleppa þeim þar ef þeir næðu að fjölga sér. Auk þessa eru óljósar heimildir um að tveimur hérum hafi verið sleppt í Vestmannaeyjum um aldamótin og á annar þeirra að hafa drepist fljótlega en hinn lifað um tíma, eins og segir í þessu gagni sem ég hef hér fyrir framan mig.
    Aðrar heimildir eru ekki til varðandi innflutning á þessum dýrum til Íslands. Hins vegar hafa menn velt því fyrir sér hvernig á því stendur að þessi dýrategund hefur ekki náð að þrífast hér á landi en þessi tegund virðist þrífast bærilega í Færeyjum en þar eru að vísu engir refir.
    Á Alþingi 1913 urðu miklar umræður um héra og innflutning þeirra í kjölfar þess að danskur maður hafði boðist til að gefa Íslendingum héra. Láta mun nærri að umræður um þetta mál hafi verið þær mestu um nokkurt mál á Alþingi það árið. Ná þær yfir 45 síður í Alþingistíðindum frá 1914, bls. 47--71 í B-deild og bls. 154--175 í sömu deild Alþingistíðinda.
    Ég vænti þess að ég hafi með þessum skýringum bætt úr því sem segir á bls. 2 í grg., að greinin þarfnist ekki skýringa. Hér er sem sagt um að ræða merka tilraun sem gerð var til þess að styrkja og gera fjölskrúðugri dýrastofninn í landinu, tilraun sem mistókst og m.a. af þeim ástæðum er þarflaust að hafa lögin í gildi nema einhverjir menn vildu hafa þau í lagasafninu sér til skemmtunar og ég gæti svo sem alveg slegist í þann hóp ef það yrði til samkomulags til þess að koma málum í gegnum þingið.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.