Brottfall laga á sviði menntamála
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Þetta frv. er þannig unnið að ég fór þess á leit við lögfræðing í ráðuneytinu að hann færi yfir öll þau lög sem heyra undir starfssvið menntmrh. og bað hann um að gera til mín tillögur um það hver af þessum lögum mættu að hans mati að ósekju falla niður, sagði jafnframt að ég vildi heldur ganga skemmra en lengra í þessu efni, þannig að við val á þeim lögum sem þarna er lagt til að falli niður er gætt varkárni eða íhaldssemi ef menn vilja orða það þannig.
    Þess vegna er hugsanlegt að fyrir utan þessi lög sem þarna er lagt til að falli niður séu lög eða lagaþættir sem hugsanlega ætti að fella niður, en ég vildi ekki taka ábyrgð á slíkum tillöguflutningi nema með hliðsjón af heildarniðurstöðu varðandi Stjórnarráðið allt.