Skúli Alexandersson (frh.) :
    Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er fram tekið að setja skuli lög um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds og unnið skuli að endurskoðun annarra þátta réttarkerfisins. Telja verður víst að sú endurskoðun annarra þátta réttarkerfisins, eins og þar segir, eigi að stuðla að betra réttarkerfi fyrir þegnana, minnka áhrif framkvæmdarvaldsins raunverulega og hugsanlega á meðferð dómsmála.
    Frv. það sem hér er til umræðu, frv. til l. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er mikilsvert skref í þá átt að aðskilja dómsvald og framkvæmdarvald. Hugsanleg og raunveruleg samtenging framkvæmdarvaldsins og dómstólanna verður þó eftir að frv. þetta hefur orðið að lögum til staðar í allt of mörgum stöðum í þjóðfélaginu. Nefna mætti ýmislegt í því sambandi, en það skal að mestu látið vera. Sú tilhneiging framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórna og ráðuneyta hjá okkur Íslendingum hefur farið vaxandi að fá inn í lög ýmiss konar úrskurðarheimildir fyrir ráðherra og stofnanir í málum sem hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við í réttargæslu eru látin falla undir verksvið dómstóla.
    Úrskurðarheimildir ráðuneyta eru mjög breytilegar og mismunandi þarfar. Jafnframt þessu er í lagasmíð ýmiss konar tilhneiging í sömu átt, nú sérstaklega á síðustu árum, og þá oft fært sem rök fyrir auknu valdi framkvæmdarvalds kostnaðar- og hagkvæmnisástæður. Slíkt er að vísu rökleysa en sjálfsagt gætir hér áhrifa frá því hvað okkar þjóðfélag er lítið og fámennt.
    Sem dæmi um hvernig fámennið gerir hlutina sérstaka fyrir okkur er það hvað við erum með fáa ráðherra í ríkisstjórn og dómsmrh. í ríkisstjórn Íslands fer með önnur mál en dómsmál í ríkisstjórninni. Núv. hæstv. dómsmrh. fer einnig með sjávarútvegsmál, en einmitt sjútvrn. hefur verið fenginn mikill rannsóknar- og úrskurðarréttur. Á bls. 12 í grg. þess frv. sem hér er fjallað um segir, með leyfi forseta:
    ,,Af fornri löggjöf má ráða að helsta hvöt þess að samfélög hafa komið dómstólum á fót sé nauðsyn þess að koma í veg fyrir að menn leiti réttar síns með sjálftöku (gertæki). Þegnarnir hafa litið svo á að eitt af meginhlutverkum ríkisvaldsins sé að halda friði í samfélaginu með starfi dómstóla. Snemma komst sú skipan á í þróuðum samfélögum að í stað þess að menn brygðust við missætti með ofbeldi væri þeim gert skylt að viðlagðri refsingu að leita viðurkenningar og fullnustu réttinda sinna fyrir dómi. Þetta á jafnt við þegar menn hafa þurft að afla atbeina dómstóla til að fullnægja réttindum á sviði einkaréttar og þegar menn hafa viljað bregðast við refsiverðum verknaði gegn sér. Þá hefur atbeina dómstóla verið krafist til þess að meta sök og refsingu. Þessi skipan mála kemur m.a. fram í þjóðveldislögum Íslendinga og í lögum nágrannalanda okkar frá sama tímabili. Frá fornu fari hefur þannig verið á því byggt að ef einstaklingur eða stofnun nær ekki réttindum sínum með fúsum og frjálsum vilja þess, sem þau þarf að sækja til, verði eigi við því brugðist á annan hátt en að leita atbeina

dómstóla.``
    Þá segir einnig í sama nefndaráliti á bls. 10: ,,Í opinberum málum er gerður munur á rannsóknarréttarfari og ákæruréttarfari. Í rannsóknarréttarfari, sem rekja má til starfsaðferða dómstóla kaþólsku kirkjunnar, er dómarinn í senn rannsóknarmaður, ákærandi og dómari. Í ákæruréttarfari er dómarinn hlutlaus aðili, en ákærandi flytur mál gegn hinum ákærða.``
    Hér eru nefnd grundvallaratriði sem hafa ber í huga þegar unnið verður að endurskoðun annarra þátta réttarkerfisins, eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar.
    Undir forustu virðulegs forseta þessarar deildar og fyrrv. dómsmrh. hefur allshn. farið rækilega yfir þetta frv. Þar hefur ýmislegt komið fram til skýringar og glöggvunar. Umsagnir eru margar og nokkuð breytilegar. Það sem hefur þó jafnan verið bak við umræðuna og stundum komið fram og verið í umræðunni er sá þáttur sem skýrður er á þennan hátt í nál. á bls. 11, með leyfi forseta:
    ,,Íslendingar eru aðilar að Evrópuráðinu og hafa skuldbundið sig til að fylgja sáttmála þess um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en þar segir m.a. að leiki vafi á um réttindi þegns og skyldur eða hann er borinn sökum um refsivert athæfi skuli mál hans útkljáð af óháðum dómstóli. Í október 1987 var tekið fyrir hjá mannréttindanefnd Evrópuráðsins mál manns sem búsettur er á Akureyri. Hafði hann verið dæmdur í undirrétti og í Hæstarétti fyrir brot á umferðarlögum. Í samræmi við gildandi lög var mál hans tekið fyrir og dæmt af fulltrúa bæjarfógetans á Akureyri, en hann starfar á ábyrgð og undir stjórn bæjarfógeta sem jafnframt er yfirmaður lögreglunnar. Málið var kært til mannréttindanefndarinnar á þeirri forsendu að mál sakbornings hefði ekki hlotið meðferð í undirrétti fyrir óháðum dómara.
    Mannréttindanefndin komst að þeirri niðurstöðu að málið væri tækt til efnismeðferðar, en það þýðir að nefndin telur líkur á að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum. Má segja að með því sé réttarfar Íslendinga í opinberum málum komið undir smásjá samstarfsþjóða okkar í Evrópuráðinu og
hlýtur það að leiða til aukins þrýstings um umbætur á dómstólakerfi og réttarfari hérlendis.``
    Um þennan sama þátt segir einnig í umsögn yfirsakadómara Reykjavíkur, Gunnlaugs Briem, með leyfi forseta:
    ,,Eins og kunnugt er var það minni háttar opinbert mál sem hratt máli þessu af stað. Hafði maður hlotið 3000 kr. sekt með dómi í héraði árið 1984 vegna tveggja umferðarlagabrota. Hann áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar og krafðist ómerkingar á honum m.a. á þeim forsendum að málið hefði ekki verið dæmt af hlutlausum dómara. Sá háttur að sami embættismaður hefði haft afskipti af málinu sem lögreglustjóri (fulltrúi lögreglustjóra) og dómari (fulltrúi dómara) bryti í bága við meginreglur 2. og 61. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Evrópuráðssamningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

    Hæstiréttur féllst á þessi rök. Hann kvað upp áfellisdóm í málinu árið 1985 vegna annars brotsins og dæmdi manninn í 1500 kr. sekt, en sýknaði hann af hinu vegna sannindaskorts. Dómþoli vildi ekki una þessum málalokum frekar en áður og skaut málinu til mannréttindanefndar Evrópuráðsins í Strasbourg sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að taka beri það til efnismeðferðar. Málið hefði vart farið þessa leið ef héraðsdómari við bæjarfógeta- og sýslumannsembætti það sem hafði málið til meðferðar hefði kveðið upp dóm í því en eigi fulltrúi við embættið.``
    Um þennan þátt þarf svo ekki að hafa fleiri orð. Það var minni háttar opinbert mál sem hratt þessu máli af stað, eins og Gunnlaugur Briem orðar það en segir fyrst og fremst allt annað en það að hér hafi verið um minni háttar atburð að ræða. Hér var aðeins síðasta kornið sem fyllti mælinn. Stóru málin sem hafa fengið hér meðferð sem ekki stenst ákvæði sáttmála Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis eru sjálfsagt til og hvað er meiri háttar og hvað er minni háttar í þessu tilfelli?
    Það segir svo nokkra sögu um tregðu framkvæmdarvaldsins gagnvart því að sleppa einu eða neinu af því valdi sem það hefur og tregðu embættismanna við að aðskilja dómsstörf og umboðsstörf að það er ekki farið að taka á þessum málum í alvöru fyrr en með framlagningu þessa frv. á síðasta þingi og þá, eins og segir í umsögn Gunnlaugs Briem yfirsakadómara, var það minni háttar mál sem hratt þessu af stað.
    Ísland gerðist aðili að mannréttindasamningi Evrópuráðsins sem gerður var 4. nóv. 1950. Ísland gerðist aðili að samningnum 29. júní 1953. Geta mál þeirra síðan gengið frá nefndinni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. IV. kafla samningsins. Ísland viðurkenndi lögsögu dómsins 3. sept. 1958. Jafnframt geta einstaklingar átt aðild að máli fyrir dómstól Efnahagsbandalagsríkjanna sem stofnaður var 1958. Allar götur frá 1953 höfum við svo verið að samþykkja lög hér frá hv. Alþingi sem mörg hver eru a.m.k. á mörkum þess að standast gagnvart sáttmála Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Er nú von á að sú lagasmíð hætti og þau lög sem varasöm eru verði felld úr gildi.
    Það kom fram í umræðum í allshn. að ef mannréttindanefnd Evrópuráðsins kveður upp dóm um meðferð íslenskra dómstóla og umfjöllun á nefndu umferðarlagabroti og sá dómur verði íslensku réttarkerfi í óhag, þá gæti þurft að endurupptaka öll mál frá síðustu fimm árum, þ.e. þau mál sem hafa fengið sömu réttarmeðferð fyrir íslenskum dómstólum og það mál sem nú er fyrir mannréttindanefndinni.
    Ég nefndi í upphafi að frv. hefði fengið góða umfjöllun í allshn. og margar umsagnir hefðu borist nefndinni um frv. Aðalatriði allra umsagnanna voru meðmæli með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds. Meðmæli mín með frv. byggja á sömu afstöðu. Ýmis framkvæmdaatriði sem frv. felur í sér geta orkað tvímælis og vel má vera að aðarar leiðir hefðu verið

til til að ná sama árangri réttarfarslega. Kostnaður við að koma ákvæðum frv. í framkvæmd er trúlega vanmetinn eins og oft vill reynast með áætlanir af þessu tagi.
    Herra forseti. En aðalatriðið er að með þessu frv., ef að lögum verður, er stigið mikilvægt skref í átt til aukins réttaröryggis og vonandi verður það aðeins fyrsta skrefið til að aðskilja svo sem kostur er dóms- og framkvæmdarvald og einnig er það mikilvægt spor í þá átt að við Íslendingar með lagasmíð okkar hér á hv. Alþingi gætum ekki síður en nágrannar okkar þeirrar skyldu okkar að tryggja þegnum landins réttarfarslegt öryggi.