Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma hérna upp og tilkynna það, eins og fram kemur í nál., að ég er meðmæltur þessu frv. Ég held að þarna sé um mikilsverða breytingu að ræða og þarna sé stigið mjög gott og þarft skref fram á við til að skilja að dómsvald og umboðsvald í héraði. Eins og fram kom í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. hefur á undanförnum árum verið mikil óvissa á þessu sviði og það var ekki fyrr en með þessu litla máli, sem raunar hefur orðið stórt núna, sem var kært til mannréttindadómstólsins, að einhver skriður komst á þessi mál. Má kannski segja að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. En samt sem áður verðum við Íslendingar að búa þegnunum þannig réttarkerfi að dómstólarnir sem eiga að vera óháðir geti tekið á hlutlausan hátt til greina ástæður beggja aðila sem bera undir hann ágreiningsefni sem upp kemur og á þetta bæði við um einkamál og opinber mál, þ.e. mál sem ríkisvaldið höfðar á hendur þegnunum.
    Þær breytingar sem hafa komið fram eða tillögur að breytingum sem hafa komið fram frá einstaka sýslumönnum hafa einkum beinst að opinberum málum, að koma á ákveðnum héraðsdómurum til að dæma um slík mál. En þetta á ekki síður við um einkamál, að héraðsdómarar séu óháðir í einkamálum, og þess vegna tel ég að þessi breyting sé mjög mikilsverð.
    Það er annað sem þessi breyting kemur til með að hafa í för með sér sem ég tel einnig mjög mikilvægt, að með þessu er óhjákvæmilegt að taka allt réttarkerfið til gagngerðrar endurskoðunar. Því miður búum við nú við á mörgum sviðum réttarkerfisins lög frá síðustu öld. Mig minnir að skiptalögin séu frá 1879, lögin um aðför séu frá 1897 og svo mætti lengi telja. Uppboðslögin eru að stofni til frá 1947. Breyting af þessu tagi, þar sem gert er ráð fyrir að skilja þarna að, hefur óhjákvæmilega í för með sér að þetta sé einnig tekið til athugunar og þá gaumgæfilegrar athugunar.
    Frv. sem slíkt markar aðeins rammann. Það mælir fyrir um hvaða störf skuli vera í höndum dómara og þá dómsstörf og frv. mælir einnig fyrir um hvaða störf skuli vera í höndum sýslumanna. Samkvæmt frv. eru það öll önnur störf en dómsstörf, en það á eftir að skilgreina það nokkru nánar og hvað mikið af valdi sem nú er undir höndum ráðuneyta og þá sérstaklega dómsmrn. færist yfir til sýslumanna. Ég tel einnig mikilsvert í þessu frv. að gert sé ráð fyrir því að ákæruvald færist að einhverju leyti frá ríkissaksóknara yfir til sýslumanna og fleira mætti nefna.
    En það er eins og ég sagði áðan aðeins í þessu frv. verið að taka á skipulagi eða forminu sem slíku, en ekki verið að taka á meðferð einstakra mála, hvort sem þau heita opinber mál eða einkamál og þá hvers konar einkamál það eru, hvort það eru bæjarþingsmál, fógetamál, skiptaréttarmál eða uppboðsmál. Það verður seinni tíma verkefni okkar hér á Alþingi að taka þau mál til athugunar og hvernig við fyllum upp í þann ramma sem hér er verið að marka.

    Þetta held ég að sé aðalatriði þessa máls. Aðalatriðið er að það er verið að taka dómstólaskipunina til endurskoðunar í heild sinni.
    Frsm. nál. talaði um að þessi breyting gæti haft í för með sér aukinn kostnað, upp undir 50 millj. Ég tel það mjög vel sloppið ef þetta frv. hefur í för með sér meiri réttarbót en sú skipan sem nú er. Einnig hef ég þá trú, miðað við það sem ég hef séð af öðrum frumvörpum sem eru fylgifrumvörp þessa frv., að það megi spara verulega þegar verið er að vinna að þeim frumvörpum og vil ég minnast á t.d. frv. um aðför sem er til meðferðar í hv. allshn. Ég held að með því frv. komi til með að sparast verulegir fjármunir fyrir ríkið vegna minna álags á dómstólana.
    Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég held að þarna sé um mikið framfaramál að ræða og mælist því eindregið til þess að frv. verði afgreitt frá þessari deild og helst hinni deildinni, Nd., á þessu þingi. Því má svo við bæta að ég held að flestir þeir aðilar sem hafa barið þetta frv. augum og lagt inn umsögn séu þessari breytingu sammála, með einstaka undantekningum þó.