Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð. Kvennalistinn á ekki fulltrúa í hv. allshn. Ed., en ég var áheyrnarfulltrúi á fundum þegar fjallað var um þetta mál þar og átti þess kost að fylgjast með umfjöllun þess. Auk þess sat hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fyrir hönd Kvennalistans í milliþinganefnd sem skipuð var í apríl 1988 til að fjalla um þetta frv. þar sem reyndar voru gerðar á því nokkrar breytingar. Síðan hafa verið bornar fram hér breytingartillögur við frv. og ég tel að þær séu allar til bóta.
    Í örstuttu máli vil ég segja að ég tel að hér sé um afar veigamiklar og umfangsmiklar breytingar að ræða sem nauðsynlegt er að koma á í þessum málum og þó að eflaust mætti gera betur og margt mætti athuga nánar tel ég fyllstu ástæðu til að styðja þetta mál og veita því brautargengi gegnum þingið.